Pálmi Jónsson fæddist á Blönduósi 10. febrúar 1917. Hann lést 3. júní 2011. Foreldrar hans voru Jón Lárusson og Halldóra Margrét Guðmundsdóttir. Pálmi var næstelstur sex systkina.

24. júní 1944 giftist Pálmi Ingibjörgu Daníelsdóttur, f. 3. mars 1922. Börn þeirra eru 1) Hjálmar, maki Guðlaug Sigurðardóttir, þau eiga tvær dætur og fimm barnabörn. 2) Gylfi, hann á sex börn og átta barnabörn. 3) Hólmgeir, maki Ingibjörg Þorláksdóttir, þau eiga sjö börn og ellefu barnabörn. 4) Reynir, látinn. 5) Bergþór, maki Sigrún Marinósdóttir, þau eiga fjögur börn og sex barnabörn. 6) Ásgerður, maki Guðjón Gústafsson, þau eiga sex börn og sjö barnabörn. 7) Svanhildur, maki Sigurður Ámundason, þau eiga sex börn og fjögur barnabörn. 8) Sigurbjörn, látinn.

Pálmi fluttist tíu ára gamall með foreldrum sínum að Hlíð á Vatnsnesi frá Refsteinsstöðum í Víðidal. Pálmi og Ingibjörg fluttu frá Hlíð að Bergsstöðum á Vatnsnesi 1947 ásamt tveimur elstu börnum sínum og bjuggu þar til ársins 1972, en þá brugðu þau búi og fluttu til Reykjavíkur. Pálmi vann síðustu starfsárin hjá Pósti og síma sem birgðavörður.

Útför Pálma fer fram frá Grensáskirkju í dag, 10. júní 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi. Þá er komið að leiðarlokum hjá þér í jarðneska lífinu. Við sem eftir sitjum og söknum huggum okkur við það að þú áttir gott og farsælt líf og ekki hægt að segja annað en heilsan hafi verið þér ágætlega hliðholl í þessi 94 ár. Einn hjúkrunarfræðingurinn sem sá um þig sagði mér að hún hefði spurt þig einn daginn hverju þú þakkaðir háan aldur þinn. Þú svaraðir að þú þakkaðir konunni þinni, henni Immu, fyrir hann.

Það hefur verið gaman fyrir okkur að fylgjast með ykkur mömmu í gegnum árin, þið voruð svo náin og auðséð að þið áttuð gott líf saman. Það var mikið lán að þið gátuð verið saman í íbúðinni ykkar á Nesinu og séð um ykkur sjálf. Þú sást um að draga björg í bú með því að fara á bílnum þínum í búðina. Já pabbi, það eru ekki margir sem leika það eftir að keyra bíl, komnir á þennan aldur. Og þú varst sko ekkert á leiðinni að hætta að keyra þegar þú seldir gamla bílinn í vetur og fékkst þér nýlegan bíl í staðinn, við vorum nú stundum svolítið smeyk um þig í umferðinni.

Þakka þér fyrir allar skemmtilegu sögurnar sem þú hefur sagt okkur af veiðiskap þegar þú lást á grenjum, veiddir mink og rjúpur. Fróðlegar sögur af búskapnum í gamla daga, ferðinni úr sveitinni til Reykjavíkur þegar þú ásamt Maríu og Kristínu systrum þínum fórst með pabba ykkar (Jóni Lárussyni kvæðamanni) að kveða rímur í Gamla bíói, Bárunni og fleiri stöðum þegar þú varst ellefu eða tólf ára.

Einn daginn leikur allt í lyndi, en næsta dag eru allt í einu komin ský yfir sem dökkna sífellt. Á tíu dögum fórstu í gegnum dimman dal, en komst þá út í birtu æðri heima.

Pabbi, takk fyrir allar gleðistundirnar og kærleikann. Hvíl í friði.

Bergþór og Sigrún.

Margar góðar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa til afa míns sem nú er dáinn, 94 ára gamall. Mér fannst hann ekki vera svona gamall því hann bar sig alltaf svo vel. Minnið var óbilað, kjarkurinn í lagi sem og húmorinn og áhuginn á hinum ýmsu málefnum. Þau amma voru líka svo lánsöm að hafa hvort annað og gátu búið í sinni eigin íbúð og hugsað um sig sjálf alla tíð. Fallegri hjón eru sjaldséð og það var yndislegt að fylgjast með ástúðinni og virðingunni sem einkenndi þeirra samband. Það er þess vegna erfitt að hugsa sér ömmu án afa.

Frá því ég man eftir mér og þangað til afi treysti sér ekki lengur til að keyra á lengri leiðum komu hann, amma og Bjössi árlega í lok sauðburðar heim að Bergsstöðum til u.þ.b. vikudvalar. Mikið voru það skemmtilegar heimsóknir því þau voru alltaf svo kát og hress. Afi var alla tíð mikill bóndi í sér þótt hann hafi hætt búskap upp úr 1970 og í þessum vorferðum hafði hann yndi af að fylgjast með öllu sem var að gerast og taka þátt í bústörfunum eftir því sem hægt var. Eitt er það sem mér finnst að hann hafi gert í hverri einustu ferð en það var að tína grjót, hvar sem það var að finna. Hann tíndi grjót af hlaðinu, úr réttinni við fjárhúsin, úr hestahólfinu og sjálfsagt víðar. Yfirleitt tók hann hjólbörur til að keyra grjótinu burtu og voru þær oft ansi lélegar eftir þær ferðir.

Auk þessara vorferða sinna norður komu afi og amma yfirleitt í heimsókn a.m.k. einu sinni á hverju sumri og stundum kom afi einn um eða eftir réttir til að sjá lömbin og dást að þeim. Eftir að ég flutti að heiman og fór að búa í Hrútafirðinum varð það að föstum lið hjá afa og ömmu að koma við hjá okkur Gunnari þegar þau áttu leið hjá og við fórum líka oftast til þeirra þegar við áttum leið suður. Áttum við þá góðar stundir saman eins og alltaf þegar við hittumst. Eitt sinn fyrir örfáum árum fékk afi far með okkur Gunnari suður og er það ógleymanleg ferð því á leiðinni sagði hann frá ferðum sínum þegar hann var við grenjavinnslu á Tvídægru og víðar. Það var magnað að hlusta því hann rakti ferðir sínar eins og hann hefði verið á staðnum daginn áður en ekki áratugum fyrr.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast afa mínum svona vel. Ég kveð hann með söknuði og vonast til að hitta hann aftur þegar minn tími kemur. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég elsku ömmu minni sem nú hefur ekki lengur sinn lífsförunaut sér við hlið.

Matthildur Hjálmarsdóttir.