Loðdýrarækt: Innflutningur kynbótadýra verði undirbúinn ALÞINGI samþykkti á laugardag tillögu til þingsályktunar þess efnis að landbúnaðarráðherra verði falið að hefja þegar undirbúning að árlegum innflutningi kynbótadýra til loðdýraræktar.

Loðdýrarækt: Innflutningur kynbótadýra verði undirbúinn

ALÞINGI samþykkti á laugardag tillögu til þingsályktunar þess efnis að landbúnaðarráðherra verði falið að hefja þegar undirbúning að árlegum innflutningi kynbótadýra til loðdýraræktar. Flutningsmenn tillögunnar voru þær Elín R. Líndal (F/Nv) og Valgerður Sverrisdóttir (F/Ne).

Í greinargerð segir að loðdýrarækt skapi mikla atvinnu í hinum dreifðu byggðum og sé ekki fjarri lagi að ætla að um 300 ársverk séu bundin í loðdýrarækt samanlagt (uppbygging meðtalin). Það sé þó loðdýraræktinni afar mikilvægt að eiga kost á úrvalsdýrum til að geta framleitt gæðavöru sem er samkeppnishæf og eftirsótt. Öflugt kynbótastarf sé því mikilvægt og innflutningur loðdýra mikilvægur.

Erfitt sé að áætla þörfina en hún sé mjög mikil. Brýnt sé að flytja inn verulegan fjölda dýra á næstu tveimur til þremur árum. Þegar fram í sækir og stofninn kominn í meira jafnvægi ætti að nægja að flytja inn 200-300 minkalæður árlega. Til þess að svo mætti verða þyrfti a.m.k. tvö sóttkvíarbú því sóttkví tæki allt að tveimur árum.