Minning: Kristinn Björnsson, rafverktaki Góður vinur okkar og félagi, Kristinn Björnsson, rafverktaki, er fallinn frá langt um aldur fram, aðeins 62 ára gamall. Kristinn fæddist 2. ágúst 1925 að Hafnarhóli í Strandasýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum á Hólmavík. Hann var alla tíð sannur Strandamaður. Á unglingsárum vann hann öll almenn störf tillands og sjávar eins og þá var venja. Hann stundaði iðnnám í rafvirkjun hjá Aðalsteini heitnum Gíslasyni rafvirkjameistara í Sandgerði á árunum 1944-1948 og vann við iðn sína síðan. Árið 1959 stofnaði hann Rafiðn hf. hérí Keflavík, ásamt Bjarna frænda sínum Guðmundssyni og Ingvari Hallgrímssyni. En það var einmitt í ferð með þeim í Þýzkalandi sem hann fór sína hinztu för. Kristinn var framkvæmdastjóri fyrirtækis þeirra frá byrjun til dánardags. Árið 1949 giftist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Magneu Jónsdóttur, mikilli sómakonu, sem ól honum sex mannvænleg börn. Þau eru: Fanney, gift Einari Jónssyni, Björn, kvæntur Jóhönnu Þórmars dóttur, Jón Kristinn, Agnar, sambýliskona Rósa Steinsdóttir, Guðbjörg, gift Sævari Jóhannssyni, og Gylfi, kvæntur Írisi Jónsdóttur.

Leiðir okkar Kristins lágu víða saman, einkum vegna starfa okkar að hinum ýmsu félagsmálum. Á því sviði áttum við langt og einstaklega ánægjulegt samstarf. Samstarf sem ávallt var byggt á fullkomnu trausti og einlægni í öllum okkar samskiptum. Á þeim árum sem við höfðum bein af skipti af stjórn bæjarmála hér í Keflavík, var Kristinn einn af okkar nánustu samherjum og var hann þá sem ávallt tillögu- og ráðagóður og jafnan hinn trausti bakhjarl sem hægt var að treysta, á hverju sem gekk. Kristinn starfaði alla tíð mikið að málefnum Framsóknarflokksins og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á hans vegum, átti meðal annars sæti í hinum ýmsu nefndum bæjarfélagsins um langt árabil.

Samvinnuhugsjónin leiddi okkur jafnframt til náins samstarfs. Kristinn var áhugasamur um framgang samvinnustefnunnar og tók virkan þátt í mótun og uppbyggingu samvinnuhreyfingarinnar hér á Suðurnesjum. Hann átti sæti í stjórn Kaupfélags Suðurnesja frá 1966 og til dauðadags. Öðrum félagsmálum sinnti Kristinn og fórnaði til þess miklum tíma, hann var meðal annars virkur í samtökum rafvirkja, Lions og Oddfellowreglunni svo eitthvað sé nefnt.

Við vissum að Kristinn bar hag fjölskyldu sinnar allrar mjög fyrir brjósti. Missir ykkar allra er þvímjög mikill. Við, og eiginkonur okkar, sendum Magneu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Kristni þökkum við innilega samfylgdina og hans einstöku tryggð og vináttu.

Blessuð sé minning góðs drengs.

Guðjón Stefánsson

Hilmar Pétursson