Eyjólfur Snæbjörnsson Vinarkveðja Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá hug þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegnaþess, sem var gleði þín. (Úr Spámanninum) Þegar við í dag kveðjum Eyjólf Snæbjörnsson, gerum við okkur ljóst, að söknuðurinn er sárastur vegna alls þess sem var og við áttum saman. Þar má nefna skátastarfið í öllum sínum myndum, erfiðið, vonbrigðin og sigrana, en fyrst og fremst leikina og gleðina, sem ávallt var sterkur þáttur.

Á unga aldri gekk Eyjólfur skátahreyfingunni á hönd og hans meðfæddu eðlisþættir voru þannig, að hann lifði lífi sínu í samræmi við hennar háleitustu hugsjónir.

Það voru samhent hjón Lillý og Eyfi, sem reistu sér bú í Heiðargerði 92, upp úr 1950, og hafa búið þar síðan. Og einmitt í þessu unga ósamstæða hverfi, þar sem allt varí uppbyggingu, stóð Eyjólfur fyrirog stjórnaði í áratugi stóru og örtvaxandi skátafélagi, sem var ótalmörgum ungmennum og foreldrum geysilegur stuðningur. Fullorðið fólk jafnt sem ungmenni og börn, löðuðust að Eyjólfi. Hann var alla tíð ald urslaus, allt í senn heiðarlegur, hátíðlegur og strangur, galsafenginn og skemmtilegur. Frásagnargáfu átti Eyjólfur í ríkum mæli, það bókstaflega geislaði frá honum. Hann unni landinu af heilum hug, kunni að horfa á himin, haf og jörð og benda öðru fólki á dásemdir náttúrunnar. Allt eru þetta eiginleikar, sem nýtast góðum skátaforingja. Skátalandið Úlfljótsvatn var Eyjólfi einkar kær staður, enda átti hann um áratugi ótal stundir þar við vinnuog fræðslu skáta á hinum ýmsu sviðum.

Eyfi og Lillý gengu sína götu samstíga alla tíð, mættu erfiðleikum með hetjulund. Síðasta ár, þegar sjúkdómur Eyjólfs ágerðist, þráði hann að dvelja heima, þar sem honum leið alltaf bezt. Lillý gerði honum það kleift og annaðist hann af einstakri umhyggju.

Um árabil hefur fjölskylda mín verið aðnjótandi góðra kynna og vináttu við Eyfa. Börn mín hafa frá blautu barnsbeini verið svo lánsöm að deila með honum gleði og sorg, og er það þeim ómetanlegt. Það er því hnýpin en mjög þakklát fjölskylda, sem í dag kveður vin sinn. Kynnin og ljúfar minningar munu fylgja okkur. Gleðin var ekki hvað minnst í Álfaseli, þar sem nokkrir skátavinir stofnuðu Álfaflokkinn. Ég ætla því að gera að mínum lokaorðum erindi skáldsins Tómasar Guðmundssonar sem ort eru um Jónsmessunótt við Úlfljótsvatn, rétt eins og hann hafi séð fyrir okkar einlægu vináttu.

En einnig æskan bjarta

ber óróleik í hjarta,

og álfar sitja í sárum,

því senn eiga þeir að skilja.

Þeir geyma mild í minni

sín mánanæturkynni

og gráta tærum tárum,

sem tími og laufblöð hylja.

Og því ber þeirra gangur

svo þöglan vott um angur

og skógarlaufin skjálfa

á skuggadökkum hlyni,

er ungir álfar tárast,

því álfa tekur sárast

að kveðja aðra álfa,

sem álfar töldu vini.

Ingibjörg