Það er alvarlegt umhugsunarefni hvað grundvallarstofnunum okkar unga lýðveldis gengur illa að takast á við erfið mál, sem upp koma á þeirra vettvangi. Þetta á við um Alþingi. Þetta á við um þjóðkirkjuna. Og þetta á við um fleiri aðila eins og t.d.
Það er alvarlegt umhugsunarefni hvað grundvallarstofnunum okkar unga lýðveldis gengur illa að takast á við erfið mál, sem upp koma á þeirra vettvangi. Þetta á við um Alþingi. Þetta á við um þjóðkirkjuna. Og þetta á við um fleiri aðila eins og t.d. háskólasamfélagið.

Alþingi tók rétta ákvörðun á sínum tíma að setja á stofn sérstaka rannsóknarnefnd til þess að fjalla um ástæður og aðdraganda hrunsins og rétt að halda því til haga að það var Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sem hafði forgöngu um það ásamt samstarfsmönnum sínum í þáverandi ríkisstjórn. Sú Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði góðu verki, sem mun lengi verða talin meginheimildin um það mál allt.

Alþingi urðu hins vegar á alvarleg mistök í framhaldinu. Öll þjóðin veit að það er ranglátt að draga einn mann til ábyrgðar vegna hrunsins. En það var niðurstaða Alþingis að það skyldi gera. Öll þjóðin mun hafa óbragð í munninum um langa framtíð vegna þeirrar ranglátu ákvörðunar. Í því felst ekki að ráðherrar í fyrrverandi ríkisstjórn hljóti ekki að vera ábyrgir gerða sinna. Um það sagði ég í grein á þessum vettvangi hinn 2. október 2010:

„Ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde á árunum 2007 til 2009 hljóta að axla þá ábyrgð, sem að þeim snýr vegna hrunsins en sú ábyrgð er ekki það sama og refsiábyrgð. Þegar hér er komið sögu er æskilegt að þeir geri þjóðinni ítarlegri grein fyrir sínum sjónarmiðum en þeir hafa gert til þess. Þjóðin á kröfu til þess og það er nauðsynlegt fyrir þá sjálfa.“

Þeir hafa ekki fengið slíkt tækifæri enn og nú er ætlast til að einn maður haldi þeirri málsvörn uppi í réttarhöldum fyrir landsdómi. Hugsunin í þessu er röng. Þeir voru kjörnir á Alþingi. Þingið kaus þá til setu í ríkisstjórn. Þeir hefðu átt að fá tækifæri til að svara fyrir gerðir sínar eða aðgerðaleysi á vettvangi Alþingis, í yfirheyrslum og vitnisburði fyrir þingnefnd í alþjóðar augsýn og áheyrn eins og tíðkast í sumum nálægum löndum. Geir H. Haarde hefur sjálfur sagt að hann hefði haldið, að hann fengi slíkt tækifæri frammi fyrir þeirri þingnefnd, sem vann úr málinu í framhaldi af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Í stað þess var ákveðið að ákæra einn mann. Og öllum ljóst innan þings og utan að það var engin tilviljun heldur úthugsuð ákvörðun í atkvæðagreiðslu þeirra, sem ráða ferðinni í þinginu á þessu kjörtímabili.

Nú stendur önnur af meginstofnunum samfélags okkar í svipuðum sporum og Alþingi. Þjóðkirkjan er að takast á við málefni, sem snertir þann siðferðilega grundvöll, sem kirkjan sem stofnun stendur á. Er henni að takast nokkuð betur til en Alþingi að fást við það, sem að henni snýr? Það er að vísu ekki komin endanleg niðurstaða í það. Þjóðkirkjan er nú á sama stað og Alþingi eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir. Nú liggur skýrsla rannsóknarnefndar á vegum kirkjunnar fyrir. Og nú hefur verið ákveðið að ný nefnd taki við úrvinnslu hennar alveg eins og Alþingi ákvað.

En það er alveg ljóst, að umræður á kirkjuþingi hafa ekki aukið trú fólks á að kirkjan sem stofnun sé að horfast í augu við þann vanda, sem hún stendur frammi fyrir.

Allir treysta öllum. Er það ekki gamla sagan?

Háskólasamfélagið hefur ekki einu sinni haft fyrir því að ræða þær brotalamir, sem hrunið sýndi að þar er að finna. Í hvaða ljósi ber að lesa skýrslur sérfræðinga háskólasamfélagsins um íslenzku bankana fyrir hrun? Af hverju er þessi spurning ekki einu sinni rædd á þeim vettvangi?

Við viljum ekki sem þjóð horfast í augu við sjálf okkur. Eða treystum okkur ekki til þess. Við neitum að viðurkenna að návígið, ættartengslin, vináttan og kunningjatengslin eru grundvallarbrestir í samfélagsgerð okkar. Okkur tekst ekki að berja í þá bresti nema opna þjóðfélagið upp á gátt. Það er eina aðhaldið, sem dugar, til þess að koma í veg fyrir að návígið leiði af sér nýtt hrun af einhverju tagi.

Hvað veldur því, að það er eins og hrunið hafi ekkert kennt okkur? Að einhverju leyti er það skortur á forystu. Enginn hinna kjörnu forystumanna þjóðarinnar, sem nú eru á sviðinu, hafa fundið hjá sér hvöt til þess að ræða grundvallarspurningar í tengslum við hrunið, þau samfélagslegu álitamál, sem hafa komið upp. Þeir eru allar að ræða um tölur, krónur og aura. En forysta snýst um fleira. Við höfum ekki frekar en aðrar þjóðir átt nema örfáa raunverulega forystumenn á síðustu hundrað árum.

Hrunið veitti okkur einstakt tækifæri til að horfast í augu við okkur sjálf, gera okkur grein fyrir veikleikum okkar sem samfélags og ræða hvernig við gætum úr þeim bætt. Það veitti okkur tækifæri til að hætta að lifa í sjálfsblekkingu og á óskhyggju. (Nýjasta sjálfsblekkingin, sem of margir eru haldnir af er að nýir kjarasamningar séu kjarabót. Þeir eiga eftir að leiða til verðhækkana, uppsagna, aukins atvinnuleysis og kjaraskerðingar).

Kannski getur Geir H. Haarde snúið réttarhöldunum yfir honum sjálfum upp í samræður við þjóðina – þá þjóð sem sýndi honum einn mesta trúnað, sem hún getur sýnt nokkrum manni – samræður um þessi grundvallaratriði?

Kannski hefur enginn einstaklingur á þessari stundu betra tækifæri en einmitt hann til þess að knýja íslenzku þjóðina til að horfast í augu við sjálfa sig í stað þess að líta alltaf undan.

Og þá mun vegur hans í huga og hjarta íslenzku þjóðarinnar aukast – frammi fyrir landsdómi.