Kristján Jóhannsson söng Hamraborgina á vígsluhátíð Hofs 28. ágúst.
Kristján Jóhannsson söng Hamraborgina á vígsluhátíð Hofs 28. ágúst.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsti starfsvetur menningarhússins Hofs á Akureyri er liðinn. Þar hefur verið líf í tuskunum og aðsókn betri en þeir bjartsýnustu þorðu að vona. Texti og myndir: Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is
Eitt stykki menningarhús er mikið mál fyrir bæjarfélag eins og Akureyri. Vitað var að Hof yrði dýrt í byggingu og reksturinn kostar drjúgan skilding, en óvissan var nokkur um hvernig til tækist í listrænu tilliti og hver viðbrögð fólks við þessu merkilega húsi yrðu. Í fljótu bragði virðast allir nokkuð sáttir, og opnun hússins hafi ekki dregið mátt úr liststarfsemi annar staðar í bænum eins og ýmsir óttuðust. Jafnvel þvert á móti.

„Vel á annað hundrað þúsund manns heimsóttu Hof í vetur og aðsókn á flesta viðburði var mjög góð; viðtökurnar hafa satt að segja farið fram úr okkar björtustu vonum og spám, ekki síst hve húsið hefur verið vel nýtt undir ýmsar veislur og móttökur, ráðstefnur og fundi. Hér fer margt annað fram en stórir tónleikar,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs.

„Við finnum að húsið hefur haft jákvæð áhrif á samfélagið í heild, ekki bara menningarlífið heldur á verslun, þjónustu og aðra atvinnuuppbyggingu í bænum, og ekki veitir af. Fjöldi fólks hefur komið í bæinn, bæði vegna ráðstefna og þess háttar og líka í kringum tónleikahald.“

Hún hefur eftir hótelhöldurum á KEA að reyndar hafi heldur dregið úr ráðstefnum þar en á móti komi að gestum á hótelinu hafi fjölgað. „Kakan hefur því stækkað hraðar en við þorðum að vona.“

Sumir óttuðust að menningarhúsið hefði slæm áhrif á Listagilið en Valdís Viðars, forstöðumaður menningarmiðstöðvarinnar þar og framkvæmdstjóri Listasumars, segir Hof bæði hafa hjálpað til og dregið úr. Á því séu eðlilegar skýringar, til dæmis hafi Tónlistarskólinn notað Ketilhúsið mikið áður en sé nú fluttur í Hof. Tónlist og sviðslistir hafi hreiðrað um sig þar en sjónlistir muni að sama skapi eflast í Gilinu. Sérhæfingin aukist. „Tilkoma Hofs hefur hjálpað til að því leyti að fólk hér í Gilinu, sem var dálítið sundrað, hefur unnið saman af meiri krafti en áður. Strax í haust var ákveðið að móta skýra framtíðarsýn fyrir Listagilið og skýrsla til bæjaryfirvalda þar um er tilbúin.“

Valdís segir því mikla bjartsýni ríkjandi í Listagilinu.

Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu (menningar-, markaðs- og ferðamálaskrifstofu Akureyrarbæjar), segir Hof hafa virkað sem sá segull sem vonast var til. Hinar ýmsu sýningar hafi verið mjög vel sóttar, eins og Ingibjörg benti á, og hann nefnir sérstaklega tvær stórar ráðstefnur. „Það vegur nokkuð upp á móti þeim mikla kostnaði sem bærinn verður fyrir, sem er um það bil 320 milljónir á ári.“ Húsaleiga (sem bærinn greiðir í raun sjálfum sér í gegnum Fasteignafélag Akureyrarbæjar) er 270 milljónir og bærinn leggur menningarfélaginu Hofi til 55 milljónir.

Hvort sem menningarhúsið hefði komið til eða ekki hefði bærinn þurft að greiða húsaleigu fyrir tónlistarskólann, svo dæmi sé tekið, en Þórgnýr segir húsið vissulega stóran bita að kyngja. „Það þurftu allir að herða ólina og nokkur ár tekur að aðlagast því að fá svona stórt verkefni inn í bæjarreksturinn, en það sama á við um aðra fjárfestingu eins og þegar nýr skóli er tekinn í notkun. Því má ekki gleyma að við lítum á Hof sem fjárfestingu til framtíðar, eins og til dæmis skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, svo ég nefni dæmi. Ákveðin atriði gjörbreyta hugmyndum fólks um bæjarfélög og menningarhús er slíkt fyrirbæri.“

Þórgnýr segir ekki þurfa að fara í felur með að þegar jafnmagnað fyrirbæri og Hof sé tekið í notkun falli skuggi á starfsemi annars staðar en hann líti ekki á það sem hættu til frambúðar.

„Þeir sem lenda í skugganum jafna sig fljótt og vel og húsið færir öllum ákveðin tækifæri.“

Menningarhúsið Hof er rekið af sjálfseignarstofnun sem fær framlag frá Akureyrarbæ. Bæjaryfirvöld hafa rætt við ríkisvaldið um að það komi á einhvern hátt að rekstri Hofs til að létta undir með bæjarfélaginu, en ekki er útlit fyrir að af því verði í bráð. „Ríkið kemur að rekstri Hörpu í Reykjavík meðal annars með fjárframlagi til þeirra stofnana sem þar eru til húsa, bæði Sinfóníunnar og Óperunnar, og það væri eðlilegt að ríkið kæmi með einhverjum sambærilegum hætti að rekstri Hofs,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri. Hann bendir á að stuðningur við starfsemi í Hofi sé í raun stuðningur við atvinnulíf á svæðinu enda hafi það töluverð áhrif á aðra atvinnustarfsemi.

Ingibjörg kveðst ekki líta á Hörpu sem ógn við Hof. „Miklu frekar stuðning því mikið fjármagn hefur verið sett í að markaðssetja Ísland sem ráðstefnuland og við njótum góðs af því. Og verkefni sem framleidd verða fyrir Hörpu munu koma norður og öfugt.“

Spurð hvað standi upp úr eftir fyrsta veturinn nefnir Ingibjörg fyrst hve margir ungir listamenn hafi komið þar fram og staðið sig vel.

Hún nefnir líka fjölbreytnina: „Ég held það hafi komið fólki þægilega á óvart að hér eru ekki bara háklassískir viðburðir. Hingað eiga allir erindi og það er mjög ánægjulegt.“

Hún kveðst skynja mikla ánægju þeirra sem komið hafa í húsið. „Burtséð frá öllum dómum finnst mér besti mælikvarðinn að standa fyrir utan salinn þegar fólk kemur út og sjá hve því líður vel og hefur haft gaman af. Það hefur oft svifið frekar en gengið út úr salnum eftir tónleika eða sýningar!“segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs.

Fjölskylduferð í Skóda Ingimars

Annar starfsvetur í Hofi hefst formlega á Akureyrarvöku í ágúst með stórtónleikum Björgvins Halldórssonar. Þá verður haldið upp á ársafmælið með opnu húsi og tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, auk tónleika Björgvins.

Í kjölfarið fylgja m.a. tónleikar í tilefni þess að Ingimar Eydal hefði orðið 75 ára. Þeir bera yfirskriftina „Fjölskylduferð í Skódanum“ en Ingimar var stoltur eigandi Skódabifreiða um árabil eins og mörgum er í fersku minni.

Í samstarfi við Kvikmyndaklúbb Akureyrar og Bíó Paradís í Reykjavík verða í Hofi sýndar klassískar kvikmyndir næsta vetur og Silfurtunglið, leikhópurinn sem setti upp Hárið sl. vetur, setur upp söngleikinn Spamalot eftir félaga úr Monty Python-hópnum en það verk ku hafa slegið í gegn í Bretlandi og víðar.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs, segir næsta vetur líta vel út bæði varðandi menningarstarsfemi og funda- og ráðstefnuhald. „Við erum reyndar farin að bóka ráðstefnur nokkur ár fram í tímann, í mörgum tilfellum viðburði sem ekki hefði verið hægt að halda hér í bænum nema vegna Hofs.“

Hljómsveitin Skálmöld rokkar í Hofi í haust og í október verður Páll Óskar gestur Jóns Ólafssonar í spjalltónleikaröðinni Af fingrum fram. Þá er vert að geta þess að útvarpsþátturinn Gestir út um allt verður aftur á dagskrá Rásar 2 eftir sumarfrí, sendur beint úr af stóra sviðinu í Hofi. Sú nýbreytni verður tekin upp í haust að í boði verða þrjár tegundir áskriftarkorta; m.a. kort þar sem hægt er að velja sitt lítið af hverju; t.d. klassíska tónlist en jafnframt annað sem yngri kynslóðin velur alla jafna frekar.