Bókabéusarnir Umberto Eco og Jean-Claude Carriére komu saman til að ræða um framtíð, en þó aðallega fortíð, bókarinnar.
Bókabéusarnir Umberto Eco og Jean-Claude Carriére komu saman til að ræða um framtíð, en þó aðallega fortíð, bókarinnar. — Ljósmynd/LEONARDO CENDAMO/GRAZIA NERI
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar bókabéusar koma saman til að ræða um framtíð bókarinnar kemur væntanlega fáum á óvart að talið fari snemma að snúast um fortíð hennar. Það kom á daginn þegar þeir Umberto Eco og Jean-Claude Carrière tóku spjall saman. Árni Matthíasson arnim@mbl.is
Umræða um bækur og framtíð þeirra snýst alla jafan helst um form en ekki inntak; það býst væntanlega enginn við því að menn hætti að skrifa bækur, að skáld hætti að semja ljóð, skáldsagnahöfundar að skrifa sögur eða aflóga stjórnmálamenn að skrifa varnarrit, svo dæmi séu tekin frá síðustu bókavertíð hér á landi. Frá því um miðja fimmtándu öld hafa pappír og texti verið svo samofin að fyrir flestum er bók texti sem prentaður er á pappír – sjá til að mynda hvernig Dagur bókarinnar á Íslandi er hylling pappírsins. Þetta hefur þó breyst á síðustu árum og breytist ört, eins og sjá má á því að Amazon, sem er helsti bóksali heims, skýrði frá því um miðjan maí að fyrirtækið seldi orðið fleiri rafrænar bækur en bækur á pappír.

Í bókinni This is Not the End of the Book ræða þeir Umberto Eco og Jean-Claude Carrière um framtíð bókarinnar og þá með áherslu á formið, þ.e. þeir eru að ræða framtíð bóka sem prentaðar eru á pappír (þess má geta að hægt er að kaupa rafræna útgáfu bókarinnar). Báðir eru þeir frægir fyrir bókasöfnun, meðal annars, en Eco er heimsþekktur ítalskur rithöfundur, meðal annars höfundur metsölubókarinnar Nafn rósarinnar, og virtur táknfræðingur, og Carrière þekktur franskur rit- og handritshöfundur. Eco safnar bókum kjána fyrri alda, þ.e. bókum þar sem menn halda fram fáránlegum eða heimskulegum vísindakenningum, og Carrière safnar fallegum bókum, en báðir eru mjög áhugasamir um svonefndar incunabula-bækur, bækur sem prentaðar voru á fimmtándu öld.

Í samtalinu, sem rithöfundurinn og fræðimaðurinn Jean-Philippe de Tonnac stýrir, segir Eco að bókin, en hér eftir í þessari grein vísar orðið bók alltaf til texta sem prentaður er á pappír og innbundinn, sé eins og matarskeið – þegar búið sé að finna hana upp á annað borð sé ekki hægt að beturmbæta hana. Hann endurtekur þessa staðhæfingu nokkrum sinnum í samtalinu með tilbrigðum, en með því vísar hann í að kostum bókarinnar sé erfitt að ná nema með bók.

Eins og getið er eru þeir báðir bókasafnarar, Eco á víst 50.000 bækur eða svo sem hann geymir á ýmsum stöðum, þar af 1.200 sem kalla má rarítet, og Carrière 30.000-40.000, þar meðtaldar 2.000 sannkallaðar fornbækur. Það eyða líka talsverðum tíma í að ræða um slíkar bækur, rekja sögur af öðrum söfnurum, velta fyrir sér eðli söfnunar og söfnunaráráttunnar, grobba sig af bestu kaupunum og því hvaða bækur þeir halda mest upp á í safninu, hvaða bókum þeir sjá helst eftir og svo má telja. Hvaða bók myndu þeir til að mynda forða ef bókasafnið yrði eldi að bráð? Eco: Ferðabókin „Peregrinatio in Terram Sanctam eftir Bernhard von Breydenbach, úgtáfa Peter Drach frá 1490. Carrière: Kvikmyndahandrit eftir Alfred Jarry og annað slíkt eftir André Breton, auk bókar eftir Lewis Carroll sem inniheldur meðal annars bréf eftir hann.

Allt þetta tal um gamlar bækur skyggir eðlilega nokkuð á hugleiðingar þeirra um nýjar bækur, eða réttara sagt bækur framtíðarinnar, og fyrir vikið er This is Not the End of the Book ekki gagnleg fyrir þá sem eru að spekúlera í slíku – heiti bókarinnar hefði kannski átt að vísa meira í fortíðina: Þetta er ekki endir bókarinnar, en samræður um uppruna hennar. Gott dæmi um það hvaða augum þeir líta bækur er sú frásögn Carrière að hann fari stundum inn í bókaherbergi sín til að horfa á kilina, en ekki endilega til að snerta bækurnar eða lesa þær. Eco gengur þó lengra; honum finnst gaman að nusa af bókum: „Hver okkar hefur ekki sótt sér næringu í angan bóka í hillu, þó að maður eigi ekki viðkomandi bækur?“