Neonskúlptúrinn „Il tuo paese non esiste“ („Landið þitt er ekki til“ á Ítölsku) sem er á veggnum framan á íslenska skálanum.
Neonskúlptúrinn „Il tuo paese non esiste“ („Landið þitt er ekki til“ á Ítölsku) sem er á veggnum framan á íslenska skálanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú stendur yfir í Feneyjum alþjóðleg myndlistarhátíð sem haldin er annað hvert ár, Feneyjatvíæringurinn, La Biennale di Venezia. Framlag Íslands að þessu sinni er fjölþætt hljóðlistaverk Libia Castro og Ólafs Ólafssonar. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Feneyjatvíæringurinn er einn stærsti og virtasti viðburður á sviði samtímalista og jafnframt eini alþjóðlegi myndlistarviðburðurinn sem Íslendingar taka þátt í, íslenskir listamenn sýndu þar fyrst árið 1960 og Ísland hefur verið með opinberan skála á tvíæringnum frá 1984.

Fulltrúar Íslands á Feneyjatvíæringnum að þessu sinni eru listamennirnir Libia Castro og Ólafur Ólafsson. Að þessu sinni er íslenska sýningin sett upp þar sem áður var þvottahús Palazzo Zenobio í Collegio Armeno Moorat-Raphael í Dorsoduro. Yfirskrift sýningar þeirra er Under Deconstruction og byggist á nýrri framsetningu á verkefni þeirra Landið þitt er ekki til (2003-), tónlistar-vídeóverkinu Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (2008-2011), og hljóðskúlptúrnum Exorcising Ancient Ghosts (2010-2011), sem er uppi á þaki skálans.

Landið þitt er ekki til er herferð sem þau Libia og Ólafur hófu í Istanbúl í Tyrklandi 2003. Verkið hefur síðan farið víða um heim og miðlað skilaboðunum „Landið þitt er ekki til“ á mörgum tungumálum á auglýsingaskiltum, í sjónvarps- og útvarpsauglýsingum, á gosdósum og frímerkjum meðal annars. Í Feneyjum sýna Libia og Ólafur verkið í fjórum útgáfum. Fyrir Tvíæringinn tóku þau upp tónlistargjörning sem byggist á því að messósópransöngkonan Ásgerður Júníusdóttir sigldi um síki Feneyja á gondóla og söng „þetta er tilkynning frá Libiu og Ólafi: Landið þitt er ekki til“ við tónlist eftir Karólínu Eiríksdóttur. Textinn sem Ásgerður söng var á fjölda tungumála við undirleik David Boato á trompet og Alberto Mesirca á gítar. Libia og Ólafur sömdu textann, meðal annars upp úr lýsingu sýningarstjórans Antonia Majaca á verkefninu Landið þitt er ekki til.

Á meðan á Tvíæringnum stendur verður vídeóinnsetning af gjörningnum sýnd í íslenska skálanum og gjörningurinn var svo endurtekinn 2. og 3. júní á foropnunardögum Feneyjatvíæringsins, en þá sigldi gondólinn meðal annars framhjá sýningarskálum annarra ríkja í Giardini di Castello og Arsenale. „Gerðu það sjálfur“, málverk sem Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Berlín málaði samkvæmt fyrirmælum listamannanna, er svo hluti af verkinu, en það var unnið og sýnt í sendiherrabústaðnum í Berlín. Lokahluti verksins er svo neonskúlptúrinn „Il tuo paese non esiste“ („Landið þitt er ekki til“ á Ítölsku) sem er á veggnum framan á skálanum.

Einnig er vídeóverkið Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem Libia og Ólafur unnu í samstarfi við Karólínu Eiríksdóttur, sýnt í skálanum, en það er flutningur á tónverki Karólínu við stjórnarskrá Íslands fyrir sópran- og baritónrödd, píanó, kontrabassa og blandaðan kammerkór. Hymnodia flutti verkið undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Tinna Þorsteinsdóttir leikur undir á píanó, Gunnlaugur Torfi Stefánsson á kontrabassa og Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona og Bergþór Pálsson syngja einsöng. Verkið var fyrst flutt opinberlega í mars 2008, sex mánuðum fyrir hrun bankakerfisins. Vídeóverkið er af nýlegum flutningi verksins, sem var unnið fyrir Hafnarborg og í samstarfi við RÚV.

Einnig er verkið Exorcising Ancient Ghosts á svölum skálans, en það er hljóðverk á tveimur tungumálum sem byggist á rannsókn Libiu og Ólafs á réttindum kvenna og útlendinga í Grikklandi til forna og var sýnt í Napólí árið 2010. Verkið er innblásið af lögum frá því um miðja fimmtu öld f.Kr. þar sem borgurum Aþenu var meinað að ganga að eiga eða eiga náið samneyti við útlendinga. Í Feneyjum er það hljóðinnsetning á þaki skálans þannig að arkítektúr skálans verður hluti af verkinu. Upptökurnar verða spilaðar samtímis úr leirvasa með tólf heyrnartólum.

Þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringnum er skipulögð af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, KÍM, undir forstöðu Dorothée Kirch, og er í sýningarstjórn Ellen Blumenstein.

Edda Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, KÍM, segir að markmið þátttöku í tvíæringnum vera að eiga hlut að máli í framvindu listasögunnar, „eiga í samskiptum á því tungumáli, í þessu tilfelli myndlistinni, þar sem líf einstaklingsins og samfélag mannanna er til stöðugrar umfjöllunar og endurskoðunar. Með þátttökunni eru einnig byggðar brýr sem tengja íslensku listasenuna við hina alþjóðlegu samtímalistasenu. Þannig opnast möguleikar fyrir íslenska listamenn á erlendri grundu og vakinn er áhugi erlends fagfólks í myndlist og listáhugamanna á íslensku listalífi“.

Hún segir að þátttaka Íslands á Feneyjatvíæringnum sé háð samstöðu margra aðila, jafnt opinberra aðila og frá atvinnulífinu. „Kynningarmiðstöðin sér um framkvæmd íslenska skálans í Feneyjum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem einnig greiðir stærsta hluta verkefnisins. Það er fagnaðarefni hve margir einkaaðilar koma að íslenska skálanum í ár, en meðal þeirra sem hafa lagt fram fé til verkefnisins eru VÍB eignastýring Íslandsbanka, Vilhjálmur Þorsteinsson, Landsvirkjun, CCP og Veitingastaðurinn Jómfrúin. Það er einnig ánægjulegt að utanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og Íslandsstofa styðji við verkefnið og von Kynningarmiðstöðvarinnar að nú verði hægt að horfa til bjartari tíma með sterkt bakland.“