Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, ávarpar stuðningsmenn sína á kosningafundi í Erzurum í Austur-Tyrklandi. Erdogan er nú að hefja sitt þriðja kjörtímabil.
Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, ávarpar stuðningsmenn sína á kosningafundi í Erzurum í Austur-Tyrklandi. Erdogan er nú að hefja sitt þriðja kjörtímabil. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Tyrklandi togast á kraftar þróttmikils efnahagslífs og afturhaldssemi. Fá ríki stóðu kreppuna af sér með jafn miklum glæsibrag og Tyrkland þar sem hagvöxtur er þrisvar sinnum meiri en almennt gerist í Evrópu.

Í Tyrklandi togast á kraftar þróttmikils efnahagslífs og afturhaldssemi. Fá ríki stóðu kreppuna af sér með jafn miklum glæsibrag og Tyrkland þar sem hagvöxtur er þrisvar sinnum meiri en almennt gerist í Evrópu. Fyrir viku vann Tayyip Recep Erdogan forsætisráðherra stórsigur í kosningum. Karl Blöndal kbl@mbl.is

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, vann stórsigur í kosningunum fyrir viku og tryggði sér völdin þriðja kjörtímabilið í röð. Erdogan nýtur vinsælda meðal bæði snauðra og efnaðra. Þrátt fyrir langa valdasetu fer fylgi hans vaxandi. Hann komst til valda árið 2002 og í hans stjórnartíð hefur tyrkneskt efnahagslíf blómstrað. Erdogan lagði á það áherslu í kosningabaráttunni að hann hygðist breyta stjórnarskrá landsins og talaði um forsetakerfi, en forðaðist þó að fara nákvæmlega út í með hvaða hætti.

Óttast að Erdogan vilji aukin völd

Breytinga á stjórnarskránni er þörf enda var hún sett eftir að herinn sölsaði til sín völdin 1980. Sérstaklega þarf að skilgreina samband Kúrda og Tyrkja áður en bilið þar á milli verður of breitt. Árangur flokks Kúrda í kosningunum mun auðvelda þeim að gæta hagsmuna sinna í þeim efnum.

Gagnrýnendur Erdogans óttast hins vegar að stjórnarskrárbreytingunum sé ætlað að tryggja honum aukin völd. Minnkandi umburðarlyndi hans gagnvart gagnrýnendum og tilhneiging til að sjá samsæri að baki hverju andófi hefur ýtt undir þessar áhyggjur. Í kosningabaráttunni kallaði hann þátttakendur í mótmælum gegn stjórninni „þorpara“ og gerði lítið úr andláti kennara á eftirlaunum sem fékk hjartaáfall eftir að lögregla notaði á hann piparúða til að leysa upp mótmælafund. „Ég læt þá ekki valta yfir lögregluna mína,“ sagði Erdogan eftir að lögregla hafði beitt stúdenta í mótmælaaðgerðum valdi í desember. Hann hefur réttlætt handtökur á blaðamönnum, sem sakaðir eru um samsæri og ráðabrugg, og þegar óútgefin bók var bönnuð sagði hann að „sumar bækur [hefðu] meiri eyðileggingarmátt en sprengjur“.

„Ef forsætisráðherrann vill stjórna þessu landi með friði ætti hann að vita og aldrei gleyma að hin fimmtíu prósentin eru til,“ skrifaði dálkahöfundurinn Mehmet Yilmaz í dagblaðið Hürriyet.

Erdogan hefur reynt að slá á þessa gagnrýni eftir kosningarnar. „Fólkið... hefur sent okkur boð um að nýja stjórnarskráin eigi að verða til með málamiðlunum, samráði og samningum,“ sagði hann í sigurræðu sinni á sunnudag fyrir viku.

Á mörkum tveggja heima

Tyrkland situr á mörkum hins vestræna og austræna heims, bankar á dyrnar hjá Evrópusambandinu og sækist eftir áhrifum í arabaheiminum. Á meðan Evrópusambandið glímir við afleiðingar hinnar alþjóðlegu kreppu, er Tyrkland það land, sem einna best hefur staðið áhrif hennar af sér. Hagvöxtur í Tyrklandi er þrefalt meiri en í öðrum ríkjum Evrópu. Áður gekk á með kreppum og valdaránum í Tyrklandi. Undir stjórn Erdogans er Tyrkland orðið að stórveldi í sínum heimshluta.

Engu að síður er Tyrkland olnbogabarn í Evrópu. Í rúm tuttugu ár hefur Tyrkland staðið við dyr Evrópusambandsins. Enn er mikil andstaða við aðild Tyrklands í ríkjum Evrópusambandsins og óttast menn greinilega áhrif þessa fjölmenna múslímaríkis. Aðrir benda hins vegar á að múslímar myndu aðeins túlka höfnun Tyrklands á einn veg og telja að ekkert geti skapað jafn afgerandi tækifæri til að hafa áhrif á þróun mála í hinum íslamska heimi og aðild Tyrklands, þess múslímaríkis sem teljist hvað nútímalegast, að ESB.

Leið Erdogans til valda

Flokkur Erdogans nefnist Réttlætis- og þróunarflokkurinn (AKP) og á rætur í íslam. Hann fékk 49,9% atkvæða í kosningunum, en vantaði fjögur sæti til að ná þeim 330 sætum, sem hann þarf til þess að breyta stjórnarskrá landsins án aðkomu annarra flokka. 550 sæti eru á þinginu.

Erdogan er sonur skipstjóra. Á uppvaxtarárunum seldi hann sætindi á götum Istanbúl til þess að fjármagna nám sitt í kóranskóla. Hann er múslími og kona hans og dætur ganga með slæðu á höfði. Hann drekkur ekki áfengi og fer reglulega í mosku.

Erdogan ólst upp í fátækt en efnaðist þegar hann varð meðeigandi að fyrirtæki í matvælageiranum og er nú milljónamæringur.

Á háskólaárum sínum gekk hann í pólitíska íslamistahreyfingu Necmettins Erbakans, sem var fyrsti íslamistinn til að verða forsætisráðherra Tyrklands. Erdogan var kjörinn borgarstjóri í Istanbúl árið 1994 og naut vinsælda fyrir að bæta samfélagsþjónustu. Hann bannaði einnig áfengi í kaffihúsum í eigu borgarinnar og hvatti fólk til að velja á milli íslams og veraldlegra lífshátta. Á ýmsu hefur gengið á pólitískum ferli Erdogans. Árið 1997 neyddi herinn Erbakan til að segja af sér og Velferðarflokkur hans var bannaður. Sama ár fór Erdogan með ljóð á stjórnmálafundi þar sem málstað íslamista var hampað. Hann var settur í pólitískt bann og fjögurra mánaða fangelsi fyrir trúarlegan undirróður. Arftaki Velferðarflokksins mætti sömu örlögum árið 2001 og þá hugsuðu Erdogan og hófsamir fylgismenn hans úr röðum íslamista sýn sína á ríkið og trúarbrögðin að nýju. Afraksturinn var stofnun AKP.

Miklar breytingar hafa orðið í Tyrklandi frá því Erdogan komst til valda. Hann hefur svipt herinn, sem eitt sinn hafði tögl og hagldir í landinu, völdum sínum og náð að ýta hinni veraldlegu yfirstétt í landinu til hliðar.

Öflugur efnahagur á krepputímum

Talað er um að Erdogan hafi fyllt Tyrki nýju sjálfstrausti, jafnvel þá sem ekki styðji hann. Tyrkland er 17. stærsta hagkerfi heims. Borgin Gaziantep er dæmi um breytingarnar, sem átt hafa sér stað í landinu. Hún er þúsund kílómetra frá Istanbúl. Eitt sinn var hún þekkt fyrir eggaldina-kebab og pistasíuhnetutré. Nú er hún öflug efnahagsmiðstöð. Frá 2005 hefur iðnaðarframleiðsla í borginni tvöfaldast.

Árið áður en Erdogan komst til valda hafði fjármálakreppa nánast riðið Tyrklandi á slig. Með endurfjármögnun tókst að afstýra hruni og Erdogan naut góðs af. Öndvert við hugmyndafræðilega forvera sína, sem töluðu um íslamskt efnahagskerfi, lítur Erdogan ekki svo á að kapítalismi og íslam séu andstæður. Hann hafði hagsmuni íslamskrar millistéttar í leit að auknum lífsgæðum að leiðarljósi og lagði áherslu á að opna efnahagslíf landsins. Til 2007 var hagvöxtur í Tyrklandi að meðaltali sex af hundraði. Í fyrra var hagvöxturinn 8,9% í Tyrklandi, 3,6% í Þýskalandi og 1,6% í Frakklandi. Einkaneysla jókst um 6,8% í landinu í fyrra, en aðeins um 0,7% í 27 ríkjum Evrópusambandsins. Sérstaka athygli vekur að hlutfall ríkisskulda af þjóðartekjum er 41,2%, en meðaltalið í Evrópusambandinu er 80,2%. Meðaltekjur hafa þrefaldast í landinu í valdatíð Erdogans. Ásjóna borga og bæja hefur gerbreyst, nýjar hraðbrautir eru lagðar, skýjakljúfar rjúka upp og nýjar hafnir byggðar. Helst er óttast að þenslan sé svo mikil að hagkerfi landsins ofhitni.

Ásókn í Istancool

Istanbúl er samkvæmt Brookings-stofnuninni í Bandaríkjunum öflugasta viðskiptastórborg heims. Talið er að þar búi á milli 15 og 17 milljónir manna. Til borgarinnar streyma ekki bara flóttamenn frá svæðum kúrda og farandverkamenn. Borgin er vinsæl hjá Evrópubúum og Bandaríkjamönnum og hefur hlotið viðurnefnið „Istancool“. Börn Tyrkja, sem á sínum tíma komu til Þýskalands í leit að vinnu, snúa nú aftur hámenntuð og fá iðulega hærri laun en þau fengju í Þýskalandi. Langt er síðan fleiri þýskir Tyrkir fóru að streyma til Tyrklands en Tyrkir til Þýskalands.

Ekki er laust við að vaxandi máttur Tyrklands veki ótta og vangaveltur um að nú eigi að endurreisa það veldi, sem Tyrkir höfðu fyrir 400 árum, þótt það hljómi fjarstæðukennt. En áhrif Tyrkja fara ekki á milli mála. Þeir hafa sérstöðu í samskiptum við hópa, sem vestræn ríki hafa engin tengsl við, hvort sem það eru samtökin Hamas á hernumdum svæðum Palestínumanna, Hisbollah í Líbanon eða Moktada al-Sadr í Írak.

Þar með er ekki sagt að líkur séu á að þeir muni snúa baki við vestrinu. Tyrkir hafa ekki látið deilur við Ísraela hafa áhrif á stjórnmálasambandið við Ísrael. Þeim fannst fram hjá sér gengið þegar ákveðið var að láta til skarar skríða gegn Moammar Gaddafi Líbíuleiðtoga, en leggja meira af mörkum en til dæmis Þjóðverjar til að fylgja eftir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í Líbíu.

Tyrkir hafa sýnt að lýðræði og íslam þrífast hlið við hlið og hægt sé að búa til velmegun án olíu.

Þaggað niður í gagnrýnendum

En í landinu ríkir einnig breytt andrúmsloft og aukin íhalds- og afturhaldssemi. Íslamistarnir í ríkisstjórninni hjóla í andstæðinga sína. Listamenn og frammámenn, sem ekki deila skoðunum þeirra, fá það óþvegið, reynt er að þagga niður í gagnrýnum dagblöðum og blaðamönnum er varpað í fangelsi fyrir fráleitar sakir.

Sedat Ergin, sem lengi stjórnaði ritstjórnarskrifstofum dagblaðsins Hürryet í Ankara, segir að Erdogan hafi verið mjög varkár þegar hann fyrst tók við völdum, tekið fast á móti andstæðingum sínum í hernum, viðskiptalífi og fjölmiðlum, en af virðingu. „Hann rak ákveðinn sína pólitík, en hélt aftur af sér,“ sagði hann í viðtali við Der Spiegel . Það hafi breyst eftir kosningasigurinn 2007: „Þá fór hann að beita ríkisvaldinu að geðþótta.“ Hann segir að þessi tilhneiging hafi magnast og enginn haldi lengur aftur af honum.

Ákveðin tímamót urðu 2008 þegar réttarhöld hófust yfir samsærishóp háttsettra fyrirverandi yfirmanna úr hernum, sem áður höfðu verið ósnertanlegir. Þeim var gefið að sök að hafa ætlað að steypa stjórn Erdogans á fyrsta kjörtímabili hans. Samsærishópurinn kenndi sig við Ergenekon, frumheimkynni Tyrkja í Mið-Asíu. Ergenekon-málið var í fyrstu kærkomin hreinsun fyrir Tyrki, en þegar handtökum fór fjölgandi fóru að renna á menn tvær grímur. Stjórnarandstæðingum úr röðum fræðimanna, embættismanna, lögfræðinga og blaðamanna var komið fyrir bak við lás og slá. Málaferlin urðu að aðferð stjórnvalda til að losa sig við gagnrýnendur.

Steininn tók úr þegar blaðamaðurinn Ahmet Sik var handtekinn á heimili sínu vegna gruns um að tengjast hryðjuverkum. Sik hafði átt þátt í að afhjúpa samsærisáætlanir Ergenekon-hópsins, en fór síðan að rekja net íslamista í stuðningsliði stjórnvalda. Hann er einn af 68 blaðamönnum og tugum fræðimanna, sem enn sitja í haldi.

Gagnrýnendur Erdogans líkja honum við Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, og segja að lítið skilji þá að.

Erfið staða kvenna

Þá þykir staða kvenna hafa versnað til muna í Tyrklandi í stjórnartíð Erdogans. Fyrri stjórnir stóðu sig vissulega illa, en á milli 2002 og 2009 fjölgaði svokölluðum heiðursmorðum úr 66 í 953. Stjórnvöld verja sig með því að ástandið hafi ekki versnað heldur hafi utanumhald um tölfræðina batnað.

Í Der Spiegel er vitnað í félagsfræðinginn Binnaz Toprak, sem segir að nokkuð sé til í tölfræðiskýringunni, en bætir við: „Þrýstingurinn á trúarlega hegðun, að biðja reglulega, fasta, drekka ekki áfengi, hefur vaxið. Samfélagið er orðið íhaldssamara.“ Upp mun komið andrúmsloft þar sem konur utan stórborganna sjást ekki á götum úti og vaxandi tilhneigingar gætir til að túlka orð Kóransins gegn konum.

Miklir kraftar hafa verið leystir úr læðingi í Tyrklandi á undanförnum árum og þeir leita ekki allir í sömu átt. Gagnrýni á gerræðistilburði Erdogans á rétt á sér, en hann er ekki blindur á þá gagnrýni, sem að honum beinist, eins og kom fram í áðurnefndri sigurræðu hans: „Enginn skyldi velkjast í vafa um að það er spurning um heiður fyrir mér að verja lífsstíl, trú og gildi bæði þeirra sem kusu mig og kusu mig ekki.“

• Byggt á AFP, Die Zeit og Der Spiegel.