Óshlíð Það sást vel í vor, þegar grjótið fékk að standa að mestu þar sem það féll, við hvaða aðstæður vegfarendur hafa búið. Grjót þakti veginn.
Óshlíð Það sást vel í vor, þegar grjótið fékk að standa að mestu þar sem það féll, við hvaða aðstæður vegfarendur hafa búið. Grjót þakti veginn. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Umferð hefur aukist á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur eftir að Bolungarvíkurgöng voru tekin í notkun síðastliðið haust. Aukningin mælist 6% það sem af er ári.
Fréttaskýring

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Umferð hefur aukist á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur eftir að Bolungarvíkurgöng voru tekin í notkun síðastliðið haust. Aukningin mælist 6% það sem af er ári. Aukin aðsókn er í vissa þjónustuþætti í Bolungarvík á meðan aðrir missa spón úr aski sínum.

Þegar göngin voru opnuð bundu Bolvíkingar vonir við að fleiri ferðamenn legðu leið sína þangað og skipta meira við fyrirtækin, þegar ekki þyrfti lengur að óttast grjótflug á Óshlíð. Erfitt er að meta áhrif ganganna á ferðaþjónustuna vegna þess hversu vorið hefur verið kalt og ferðasumarið byrjar seint. Merkjanleg aukning hefur þó orðið á aðsókn í Sundlaug Bolungarvíkur og smærri þjónustuaðilar verða meira varir við gesti úr nágrannabyggðunum.

Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segir að bærinn hafi aukið þjónustuna vegna væntinga um aukna aðsókn með því að lengja afgreiðslutímann. „Bæjarbúar fá aukna þjónustu með því að fleiri greiða fyrir hana,“ segir Elías.

Stefanía Birgisdóttir í Verslun Bjarna Eiríkssonar segist verða vör við aukin viðskipti, eftir að göngin voru opnuð. „Það vantar bara sumarið, við höfum enn ekki fengið það,“ segir Stefanía.

Bættar samgöngur nýtast í báðar áttir. Þannig virðist hafa orðið samdráttur í dagvöruverslun. Stærri hluti hennar færist inn til Ísafjarðar þegar menn komast ávallt á milli. Áður komu tímabil þar sem íbúar veigruðu sér við að fara og versluðu þá meira heima.

Þrúgandi óvissu aflétt

Elías segir að hvað sem um viðskiptin megi segja sé meginmálið að hafa fengið öruggar samgöngur. „Maður verður sérstaklega var við þetta á krökkunum sem sækja menntaskóla á Ísafirði. Þau urðu að fara á milli hvort sem hætta var á grjóthruni eða ekki. Göngin hafa skapað öryggistilfinningu fyrir þau og foreldrana,“ segir Elías. Annar viðmælandi segir ekki ofmælt að fjölskyldurnar hafi verið þrúgaðar af áhyggjum vegna þeirra sem þurftu að fara á milli daglega. Fólk hafi þó haldið áhyggjunum fyrir sig og ekki verið tilbúið að ræða þær fyrr en vegurinn um Óshlíð var lagður af.

Elías segir að með því að Bolungarvík sé nú orðin hluti af atvinnusvæði norðanverðra Vestfjarða skapist ný tækifæri í atvinnumálum. „Það eru miklu fleiri þjónustustörf og störf fyrir háskólamenntað fólk á Ísafirði en hér,“ segir bæjarstjórinn.

Sameinum krafta til sóknar

Rætt var um það að jarðgöng væru forsenda þess að sameining Bolungarvíkur og annarra sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum kæmi til greina. Umræður hafa þó ekki leitt til þess enda bentu niðurstöður athugunar sveitarfélaganna ekki til þess að það væri hagkvæmt fyrir Bolvíkinga.

„Bolvíkingar hafa ávallt haldið vel á sínu, eins og þeir eiga að gera,“ segir Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Hann er ekki sáttur við niðurstöðu af athugunum nefndar bæjarfélaganna á sameiningu. „Við þurfum að standa betur saman og nýta sameiginlega krafta til sóknar í stað varnar,“ segir Eiríkur Finnur. Hann nefnir að tekjur Ísafjarðarbæjar dragist stöðugt saman vegna minnkandi umsvifa og að bærinn hafi ekki undan við að skera niður útgjöld og þjónustu. „Við þurfum að nýta peningana sem best, meðal annars þá hagræðingarmöguleika sem felast í sameiningu,“ segir Eiríkur Finnur.

Bolungarvíkurgöng
» Bolungarvíkurgöng voru tekin í notkun 25. september 2010. Framkvæmdir stóðu yfir í rúm tvö ár.
» Göngin eru liðlega 5,4 kílómetrar að lengd, með vegskálum.
» Þau liggja á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og leysa af hólmi hættulegan veg um Óshlíð.
» Bolungarvíkurgöng kostuðu um 6,5 milljarða króna.
» Um göngin hafa farið 736 bílar á sólarhring að meðaltali, það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum umferðardeildar Vegagerðarinnar.
» Umferð um göngin á þessu ári er um 6% meiri en umferðin um Óshlíðarveg á sama tíma á síðasta ári. Samdráttur er í akstri á flestum öðrum vegum landsins.
» „Við sjáum fólk sem aldrei kom út í Bolungarvík vegna hræðslu við Óshlíð,“ segir Oddbjörn Stefánsson sundlaugarvörður.