Kristinn Björnsson Tilfinningum sínum við harma fregnum er erfitt að lýsa með orðum. Þegar fréttin um andlát Kristins mágs míns barst fylltist ég sorg og söknuði yfir að missa þennan heiðarlega, trausta og trygga vin, og elskulega bróður.

Ég hef þekkt hann frá því hann var ungur, og fylgst með hans ferli og áhugamálum. Alla þá leið hefurhann verið sá sami, ákveðni, réttsýni og hlýi, alltaf reiðubúinn að rétta hjálpandi hönd. Hann var einlægur og sannur vinur, sem hvorki bar hugsanir sínar né gjörðir á torg.

Kristinn var Strandamaður, sonur Guðbjargar Níelsdóttur og Björns Björnssonar á Hólmavík. Hann var á sextugasta og þriðja aldursári, alltof fljótt kallaður burt. Hann ólst upp með glöðum og greindum systkinum, sem öll lifa bróður sinn, og sakna mjög.

Eftirlifandi kona Kristins, Magnea Jónsdóttir, og sex börnþeirra sitja nú sár eftir, en styðja sig þó fast við minninguna um þennan elskulega eiginmann og föður. Þau hjón voru samhent með barnahópinn sinn, þau bjuggu þeim fallegt og gott æskuheimili, og stuttu þau vel til manndóms og þroska. Börnin eru nú öll búin að stofna sitt eigið heimili, og fjölskylduböndin eru sterk og góð.

Minningarnar munu ávallt lifa í hjörtum þeirra og okkar allra vinanna hans, og verða leiðarljós um ókomna tíð.

Þar sem góðir menn fara

eru Guðs vegir.

(Björnst. Björnss.)

Ég sendi eiginkonu, börnum, tengdabörnum, barnabörnum, og systkinum innilegar samúðarkveðjur. Sjálf kveð ég hann með trega.

Guð blessi minningu Kristins Björnssonar.

Lalla Guðjóns.