Baldur Þórhallsson
Baldur Þórhallsson
Eftir Baldur Þórhallsson: "Ef Ísland gengur í Evrópusambandið fær það fullan aðgang að öllum stofnunum sambandsins."

Á kaldastríðsárunum urðu Íslendingar þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa skelegga stjórnmálaleiðtoga sem tryggðu landinu veglegan sess á vettvangi vestrænnar samvinnu. Þeir lögðu stjórnmálaferil sinn að veði við að skipa Íslandi á bekk með öðrum lýðræðisríkjum. Þeir tryggðu landinu einnig aðgang að frjálsum markaði ríkja Evrópu með inngöngu í EFTA og gerð fríverslunarsamnings við ESB.

Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen staðfesti enn frekar þátttöku okkar í vestrænni samvinnu. Það hefur hins vegar verulega skort á að stjórnmálaleiðtogar fylgdu þessari þróun eftir. Leiðtogar í öllum hinum EFTA-ríkjunum sem stóðu að gerð EES-samningsins litu á hann sem skammtímasamning. Þeir stóðu allir fyrir því að lönd þeirra sæktu um aðild að Evrópusambandinu áður en samningviðræðunum um EES lauk. EES-samningurinn var að þeirra mati óásættanlegur vegna þess að hann setti löndin skör lægra en aðildarríki ESB.

Draumur embættismannsins

Það er ekki gert ráð fyrir lýðræðislega kjörnum fulltrúum íslensku þjóðarinnar í ákvarðanatöku EES. Með samningunum tóku Íslendingar á sig þær kvaðir að taka yfir stóran hluta löggjafar ESB án þess að geta haft áhrif á hana, nema að mjög svo takmörkuðu leyti, og þá nær eingöngu hvað innleiðingu löggjafar varðar.

Af stofnunum ESB hafa íslenskir embættismenn bara aðgang að nefndum framkvæmdastjórnarinnar. Þar á að taka fullt tillit til sjónarmiða þeirra. Þeir sitja eigi að síður skör lægra en fulltrúar ríkja ESB þar sem þeir síðarnefndu taka virkan þátt í allri vinnu sambandsins og hafa aðgang að starfsmönnum frá eigin ríki innan framkvæmdastjórnarinnar.

Hinar sérstöku stofnanir EES koma nær eingöngu að málum eftir að Evrópusambandið hefur mótað og samþykkt löggjöf sem gilda mun á EES-svæðinu. EES-nefndin fellir ný lög ESB inn í EES-samninginn og er í raun afgreiðslustofnun fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein. EES-ráðherraráðið virkar ekki sem skyldi þar sem ESB-ríkin sýna ráðinu mjög svo takmarkaðan áhuga. Þingmannanefnd EES er valdalaus með öllu. Einu stofnanirnar sem eitthvað kveður að eru Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn eins og landsmenn þekkja en þær tryggja að samningnum sé framfylgt hér á landi.

Lýðræðisdraumurinn

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið fær það fullan aðgang að öllum stofnunum sambandsins. Helstu stofnanir sambandsins eru fimm.

Forsætisráðherra Íslands tæki sæti í leiðtogaráði ESB sem kemur iðulega saman sex sinnum á ári. Þar eru nær allar ákvarðanir teknar samhljóða. Forsætisráðherra Íslands hefði í krafti þessa góðan möguleika á að hafa áhrif á framtíðarstefnu sambandsins. Leiðtogar smáríkja eins og Danmerkur og Lúxemborgar hafa sannað að sú er raunin.

Íslenskir ráðherrar sætu í fagráðherraráðum ESB sem fara með löggjafarvaldið ásamt Evrópuþinginu. Utanríkisráðherra Íslands sæti í ráðherraráði utanríkismála. Það leysir meðal annars úr ágreiningsmálum innan sambandsins. Fjármálaráðherra Íslands sæti í ráðherraráði fjármála. Það er orðið eitt valdamesta ráð í Evrópu í dag. Í ráðherraráði sjávarútvegsmála, eins og í öðrum ráðum, er ætíð reynt að ná sátt um mál áður en þau eru afgreidd. Þjóðir tala sig að niðurstöðu og tekið er tillit til hagsmuna ríkja.

Ísland myndi eiga sex þjóðkjörna þingmenn á Evrópuþinginu. Þingmennirnir myndu skipa sér í hefðbundna þingflokka, þ.e. Evrópuþingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu taka sæti í þingflokki hægrimanna. Evrópuþingmenn eiga góða möguleika á að láta til sín taka innan þingflokkanna og fá þá á sitt band. Þeir geta einnig haft umtalsverð áhrif á löggjöf sambandsins innan nefnda þingsins þar sem mesta vinnan fer fram. Þetta hafa til dæmis þingmenn hægrimanna á Möltu sýnt. Evrópuþingið er í dag valdamikill löggjafaraðili og lætur í vaxandi mæli til sín taka.

Innan framkvæmdastjórnar ESB myndi Ísland hafa áhrif á mótun löggjafar sambandsins með framkvæmdastjóra í æðstu stjórn hennar og með ráðningu fjölda Íslendinga í störf á hennar vegum.

Auk þessa fengju Íslendingar einn af 28 dómurum í Evrópudómstólnum sem og sæti við ákvarðanatökuborðið í öllum öðrum undirstofnunum og ráðum ESB eins og í Seðlabanka Evrópu.

Skipað á sama bekk

EES-samningurinn hefur vissulega skapað mörg tækifæri. Hann ruddi brautina fyrir efnahagsframförum. Vísindasamstarf og stúdentaskipti á vettvangi hans skipta sköpum um framþróun í landinu. Samningurinn hefur þjónað tilgangi sínum rétt eins og fríverslunarsamningurinn við ESB gerði á sínum tíma og aðildin að EFTA gerir enn um sinn.

EES er hins vegar táknmynd gamla tímans. Samningurinn er arfleifð þess að hlutlausu ríkin í EFTA voru tilbúin að búa við tímabundin takmörkuð áhrif á eigin lagasetningu til að tryggja aðgengi að mörkuðum ESB. Aðild að Evrópusambandinu bætir ekki einungis lífskjör okkar allra, hún skipar okkur á bekk með öðrum þjóðum Evrópu á jafnræðisgrundvelli.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.