Einn þeirra manna, sem sátu iðulega að kaffidrykkju með Tómasi skáldi Guðmundssyni á Hótel Borg um og eftir miðja tuttugustu öld, var Doddi kúla, sem svo var kallaður, Þórður Albertsson, bróðir Kristjáns bókmenntaskýranda.

Einn þeirra manna, sem sátu iðulega að kaffidrykkju með Tómasi skáldi Guðmundssyni á Hótel Borg um og eftir miðja tuttugustu öld, var Doddi kúla, sem svo var kallaður, Þórður Albertsson, bróðir Kristjáns bókmenntaskýranda. Hann var uppi 1899-1972 og starfaði aðallega að fisksölu erlendis. Eitt sinn spurði Doddi kúla skáldið og var þá nýkominn til landsins: „Yrkir þú alltaf jafnvel, Tómas minn?“ Tómas svaraði: „Já, og því betur sem fleiri fást við ljóðasmíðar.“

Í annað sinn mælti Doddi: „Það sagði nú annað skáld, Tómas minn, að kona með fortíð ætti sér enga framtíð.“ Tómas svaraði þá með hægð: „En þeir, sem slíkri konu kynnast, hljóta að gera sér vonir um, að sagan endurtaki sig.“ Lesendur vita, að skáldið, sem vitnað var til, var Oscar Wilde.

Hina alkunnu vísu, sem kennd er Marteini Lúther, bar eitt sinn á góma:

Sá, sem aldrei elskar vín,

óð né fagran svanna,

hann er alla ævi sín

andstyggð góðra manna.

Doddi kúla kvað þá að orði: „Tómas, ég er viss um, að þú yrðir ekki í neinum vandræðum með að þrauka án söngs, en hvað myndirðu gera, ef þú þyrftir að velja á milli víns og kvenna?“ Tómas læddi þá svari út úr sér: „Ég hygg, að um hvort tveggja færi það nokkuð eftir árgöngum.“

Við annað tækifæri hreyfði Doddi kúla mikilvægu úrlausnarefni: „Tómas, hvort finnst þér betra hvítvín eða brennivín?“ Tómas var snöggur til svars: „Mér finnst satt að segja svo gaman að rannsaka það mál, Doddi minn, að ég hef hvað eftir annað frestað að skera úr því.“

Enn spurði Doddi kúla: „Tómas, ef það kviknaði í húsinu þínu og þú mættir bara bera út einn hlut, hvað myndirðu þá taka?“ Skáldið þurfti ekki að hugsa sig lengi um: „Eldinn.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar.

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is