Gestir Yirgi Meiconnen með ánægðum viðskiptavinum sínum sem komu til að prófa eþíópískan mat og kaffi.
Gestir Yirgi Meiconnen með ánægðum viðskiptavinum sínum sem komu til að prófa eþíópískan mat og kaffi. — Ljósmynd/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eþíópíski veitingastaðurinn Minilik á Flúðum hefur vakið athygli gesti. Þar er borið fram sérstakt eþíópískt kaffi og þjóðlegir réttir frá Eþíópíu. Staðinn reka systurnar Azeb Kahssay og Lemien Kahssay og eiginmaður hennar, Yirga Meiconnen. Þau eru öll búsett á Flúðum og kunna vel við sig í þorpinu.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Veitingastaðurinn Minilik er rekinn í húsnæði sem áður hýsti ferðamiðstöð bæjarins. Innandyra getur að líta eþíópískar skreytingar á borðum og veggjum. Staðurinn er heimilislegur og vel tekið á móti gestum með bros á vör. Yirga segir hugmyndina að staðnum komna frá eiginkonu sinni og systur hennar.

Prófa sig áfram

„Í hugum flestra er Eþíópía þekkt fyrir hungur, slæma stjórnskipun og annað slíkt. Því langaði okkur til að nota tækifærið til að sýna fólki aðra hlið á landinu. Eþíópía er til að mynda eina landið sem hefur sitt eigið dagatal og stafróf og þar hafa nýlenduherrar aldrei ráðið ríkjum,“ segir Yirga, en Eþíópía er í Austur-Afríku og er næstþéttbýlasta land Afríku á eftir Nígeríu.

„Í Eþíópíu er upprunnið kaffið arabica en það kemur frá Kaffa-héraðinu í vesturhluta Eþíópíu. Þar í landi er hefð fyrir því að halda sérstaka kaffiathöfn og okkur langaði að kynna hana. Okkur langaði líka að sýna fram á að allir geti borðað eþíópískan mat. Það eru slíkir veitingastaðir í öllum stórum borgum Evrópu og hvers vegna ekki á Íslandi? Við erum núna að prófa okkur áfram með reksturinn og byggja staðinn enn frekar upp með aukinni reynslu,“ segir Yirga.

Kaffilyktin lokkar

Kaffiathöfnin er gjarnan framkvæmd nokkrum sinnum á dag og hana er sérstaklega mikilvægt að framkvæma þegar tekið er á móti gestum. Athöfnin er til marks um gestrisni og vinahót en Yirga segir að ef fólki sé boðið í kaffi í Eþíópíu geti það verið öruggt um að fólk langi að hafa það lengur í heimsókn og spjalla meira. Athöfnin tekur nefnilega sinn tíma og getur jafnvel tekið nokkra klukkutíma. Hefðin er sú að konurnar sjá um athöfnina. Hún hefst á því að kaffibaunirnar eru ristaðar á pönnu sem sett er yfir eld. Við þetta breiðir lokkandi kaffilyktin úr sér og býr fólk undir það sem koma skal. Síðan eru baunirnar malaðar og hellt upp á samkvæmt kúnstarinnar reglum. Á þennan hátt fær fólk að sjá hvernig kaffibaunirnar eru meðhöndlaðar frá upphafi til enda og njóta síðan góðs bolla af kaffi.

Ótal krydd notuð

Á matseðli veitingastaðarins eru ýmsir eþíópískir réttir. Meðal þeirra er kjúklingaréttur sem lagaður er með mörgum ólíkum kryddum. Hann er venjan að bera á borð í Eþíópíu þegar góða gesti ber að garði. Þá má einnig nefna nautakjötsrétt sem borinn er fram með eggi ofan á. Þá eru sérstakir grænmetisréttir tileinkaðir föstutímabilum en Eþíópíubúar fasta í það minnsta rúmlega 100 daga á ári.

„Eþíópískur matur getur verið mjög sterkur en við reynum að draga aðeins úr styrkleikanum. Mágkona mín kom nýlega heim með krydd frá Eþíópíu enda er ekki hægt að kaupa allt slíkt hérlendis,“ segir Yirga og bætir við að viðtökurnar hafi verið góðar. Fólki líki maturinn og sé forvitið um landið og sögu þess.

Borðað með höndunum

Í Eþíópíu er hefðin sú að borða fimm eða sex saman af einum diski sem er fallega skreyttur og litríkur. Ekki er endilega setið við borð heldur gengur diskurinn á milli fólks sem situr. Þetta gerir máltíðir að afar samfélagslegri athöfn. Þá er borðað með höndunum og eru hnífapör ekki borin á borð fyrir gesti. Þau eru þó til og hægt að óska eftir þeim kjósi fólk slíkt frekar.

Það vekur eflaust nokkra athygli ferðalanga svo og heimamanna að finna slíkan veitingastað á ekki stærri stað en Flúðum en Yirga segir staðsetninguna henta þeim vel.

„Hér er gott húsnæðisverð fyrir slíkan rekstur og það fer vel um okkur hér svo þetta er tilvalinn staður fyrir okkur. Norskur ferðamaður þakkaði mér einmitt nýlega fyrir að hafa gefið sér flugmiða frá Íslandi til Eþíópíu eftir að hann var búinn að kaupa sér flugmiða frá Ósló til Íslands. Hann bjóst ekki við slíkri heimsókn þegar hann skipulagði heimsókn sína til Íslands,“ segir Yirga og hlær. Hann leggur loks áherslu á það að þau séu að feta sín fyrstu skref í veitingarekstri og því sé heimsókn á staðinn enn sem komið er frekar eins og að koma í matarboð í heimahús en að borða á glæsilegu hóteli.