[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Það gekk mikið á hjá HK fyrir leik þeirra gegn Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu í gær.

Fótbolti

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Það gekk mikið á hjá HK fyrir leik þeirra gegn Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu í gær. Fjórir leikmenn, þar á meðal Hafsteinn Briem, sem verið hefur fyrirliði þeirra í sumar voru allir settir út úr byrjunarliðinu frá því í síðasta leik vegna agabrots. Það byrjaði ekki gæfulega fyrir HK en Björgvin Stefánsson kom Haukum yfir eftir um 20 mínútna leik. Þannig stóðu leikar í hálfleik og allt stefndi í fyrsta sigur Hauka á heimavelli í sumar.

Þá kom að þætti syndaselanna en Eyþór Helgi Birgisson kom af bekknum og var ekki lengi að finna Atla Valsson sem einnig var nýkominn inná sem varamaður og skoraði hann jöfnunarmark leiksins. Hafsteinn Briem kom inná hjá HK og batnaði leikur þeirra töluvert eftir að þeirra naut við.

Vandræði Hauka halda því áfram á heimavelli en þeir hafa aðeins hlotið tvö stig á Ásvöllum. Ótrúlegt, sérstaklega í ljósi þess að liðið er í þriðja sæti deildarinnar. Þeir hafa einungis tvö stig eftir fjóra leiki þar en hafa hinsvegar unnið fjóra af fimm útileikjum sínum í sumar.

Ólsarar upp fyrir KA

Það var mikið undir í Ólafsvík þar sem heimamenn tóku á móti KA sem var fyrir leikinn stigi á undan í deildinni. Eins og fyrir HK byrjaði það ekki gæfulega fyrir Víkinga sem lentu undir strax á 9. mínútu með marki frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Ólsarar lögðu þó ekki árar í bát og jöfnuðu metin úr vítaspyrnu fjórum mínútum fyrir hálfleikinn. Artjoms Goncars skoraði úr spyrnunni. Guðmundur Steinn Hafsteinsson var svo hetja Víkinga þegar hann skoraði sigurmarkið 20 mínútum fyrir leikslok.