[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods segir óvíst hvort hann geti verið með á opna breska meistaramótinu í golfi sem hefst eftir tvær vikur.

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods segir óvíst hvort hann geti verið með á opna breska meistaramótinu í golfi sem hefst eftir tvær vikur. Woods hefur glímt við meiðsli í hné og hásin og þurfti hann að hætta keppni á Masters-mótinu í apríl vegna þeirra eftir að hafa leikið níu holur.

W oods hefur á ferli sínum unnið 14 stórmót en honum hefur ekki tekist að vinna sigur á móti síðan í nóvember 2009. ,,Vitaskuld er ég vonsvikinn yfir því að geta ekki spilað. Ég vil komast út að spila en ég er ekki klár í slaginn sem stendur ,“ sagði Woods við fréttamenn. ,,Ég hef ekki sett nein tímamörk hvenær ég sný aftur inn á völlinn en ég mæti ekki aftur til leiks fyrr en ég er orðinn 100% klár .“

Króatíski framherjinn Ivica Olic hefur hafið æfingar á nýjan leik með Bayern München en þessi mikli markaskorari hefur verið frá æfingum og keppni síðustu átta mánuði vegna hnémeiðsla. Hann gekkst undir aðgerð sem tókst vel og verður klár í slaginn þegar leiktíðin í þýsku 1. deildinni hefst í byrjun ágúst. „Ég er búinn að bíða eftir þessari stund í um átta mánuði og er afar glaður að hafa náð að klára allar 90 mínúturnar ,“ sagði Olic við fréttamenn eftir æfingu Bayern-liðsins í gær.

Sænski landsliðsmaðurinn í handknattleik, Robert Arrhenius , er genginn til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Bjerringbro-Silkeborg sem tapaði fyrir AG Köbenhavn í úrslitum um danska meistaratitilinn í vor. Arrhenius kemur til liðsins frá spænska liðinu Aragon en hann lék nokkra leiki með þýska liðinu Kiel í vetur sem lánsmaður.

Evrópu- og Spánarmeistarar Barcelona framlengdu í gær samninginn við miðjumanninn Thiago Alcantara og er hann nú bundinn félaginu til ársins 2015. Thiago átti sérlega góðu gengi að fagna með U21 árs landsliði Spánverja á Evrópumótinu í Danmörku og hafa mörg lið sýnt honum áhuga en Börsungar ætla honum stóra hluti í framtíðinni og líklegt er að hann fái að spreyta sig meira með meistaraliðinu á næstu leiktíð.

Júdókapparnir Þormóður Jónsson og Hermann Unnarsson héldu í gær til Bandaríkjanna en um helgina taka þeir þátt í heimsbikarmóti sem haldið verður í Miami. Að því loknu keppa þeir á US Open sem einnig er haldið á Miami og síðan taka við fjögurra daga æfingabúðir. Þormóður, sem keppir í +100 kg flokki og Hermann, sem keppir í -81 kg flokki, stefna á að keppa á Ólympíuleikunum á næsta ári og er þátttakan á framangreindum mótum liður í því að komast hærra á heimslistanum. Þegar Ameríkuferðinni er lokið er næsta verkefni heimsmeistaramótið sem að þessu sinni verður í París 23. til 27. ágúst en lokaundirbúningur fyrir það verður þátttaka í æfingabúðum í byrjun ágúst í Englandi.