Afköst Ingi Björn Ágústsson segir geta dugað að nota snjallsíma eða spjaldtölvu til þess að svara pósti og skoða netið á ferðinni. Hins vegar þarf góða fartölvu ef ætlunin er að sinna vinnuverkefnum í ferðalaginu.
Afköst Ingi Björn Ágústsson segir geta dugað að nota snjallsíma eða spjaldtölvu til þess að svara pósti og skoða netið á ferðinni. Hins vegar þarf góða fartölvu ef ætlunin er að sinna vinnuverkefnum í ferðalaginu. — Morgunblaðið/Ernir
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Miklu skiptir að hafa rétta búnaðinn meðferðis þegar vinnan er tekin með í fríið. Ekki eru allar tölvur jafnhentugar til að burðast með á milli landa og heimsálfa, eða nógu góðar til að halda hámarksafköstum.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Miklu skiptir að hafa rétta búnaðinn meðferðis þegar vinnan er tekin með í fríið. Ekki eru allar tölvur jafnhentugar til að burðast með á milli landa og heimsálfa, eða nógu góðar til að halda hámarksafköstum.

Ingi Björn Ágústsson, sölustjóri hjá EJS, segir í dag hægt að komast ansi langt með snjallsímanum eða spjaldtölvunni, ef fylgjast þarf með fréttum eða lesa tölvupóst. „En þegar kemur að því að vinna á vélinni þá þarf að hafa lyklaborð og öflugt stýrikerfi. Spjaldtölvur eru fyrst og fremst gerðar til að fara á netið, horfa á myndir eða hlusta á tónlist, en hafa ekki stýrikerfið fyrir þau tól sem fólk þarf að nota við vinnu. Netbækur (e. netbooks) falla í sama flokk og jafnvel þótt þær séu með lyklaborði eru þær yfirleitt ekki gerðar nema fyrir allra auðveldustu verk.“

Rafhlöðurnar enn betri

Þegar velja á réttu tölvuna til að nota á ferðinni segir Ingi Björn að þurfi að hafa í huga atriði eins og þyngd vélarinnar, rafhlöðuendingu og styrkleika. Það geti verið mjög gremjulegt að burðast um með þunga vél í fríinu, eða hafa ekki næga orku til að geta klárað nokkur verkefni á ferðinni milli landa. „Miklar framfarir hafa orðið í gerð rafhlaðna og orkunotkun, og nú er svo komið að með völdum Dell-vélum sem við seljum fylgir þriggja ára ábyrgð á rafhlöðu. Það þýðir að við lofum svipaðri endingu á rafhlöðunum í þrjú ár frá kaupdegi, og hefur ekki verið í boði á íslenska markaðnum áður. Síðan má bæta við aukarafhlöðum svo rafhlöðuendingin getur verið allt að einum sólarhring.“

Á ferðinni getur líka skipt máli að stuttan tíma taki að hlaða vélina. „Bæði eru hleðslutækin orðin helmingi umfangsminni en áður var og hleðslutíminn hefur styst. Á flestum okkar tölvum er hægt að hlaða rafhlöðuna í 80% á rétt innan við klukkustund, sem kemur sér vel t.d. þegar millilent er í stutta stund.“

Vökvi, ryk og hiti

Þyngd fartölvunnar þarf ekki að koma niður á afkastagetu og segir Ingi Björn hægt að fá vélar sem vega á bilinu 1,5 til 3 kg og geta framkvæmt öll þau verkefni sem vinnandi ferðalangar þurfa að leysa af hendi. Þetta séu líka sterkar vélar, sem ekki hristist í sundur þótt þeim sé dröslað um alan heim. „Við bjóðum t.d. vélar í Latitude-línunni sem eru með stálumgjörð og skjárinn er sérstaklega varinn með álplötu sem ver vélina gegn hnaski. Þá er lyklaborðið þannig úr garði gert að tölvan skemmist ekki ef vökvi hellist yfir, sem getur komið sér vel í fríinu ef fólk er kannski að sinna nokkrum verkefnum úti á sólbekk, með drykk við höndina.“

Þeir sem vilja ganga enn lengra í harðneskjunni, og hugsa sér jafnvel að taka vinnuna með upp á fjöll eða út í eyðimerkur, geta prufað ATG-línuna (All-Terrain-Grade) frá Dell. „Það eru tölvur sem hannaðar voru til að mæta kröfum hersins, og eiga að þola „extreme“ aðstæður, t.d. hvað varðar titring, raka og ryk.“

Mikilvægast af öllu fyrir vinnuþjarka á ferðinni er þó sennilega að geta verið vel tengdur, og þar segir Ingi Björn að þurfi að huga vel að því að tölvan sé með góð loftnet. „Loftnetið bæði tekur á móti og sendir merki til þráðlausa netsins og getur lélegt loftnet þýtt lélegri tengingu. Einnig skiptir máli hvernig loftnetið er uppsett, hvar það liggur í skjáplötunni og hvaða tíðnir loftnetið getur numið.“

Passað upp á verðmætin

Finna má ýmsar hættur erlendis og að vera með dýra fartölvu í farangrinum kallar á vissar ráðstafanir. Ingi Björn segir algengt að fólk kaupi t.d. stálvír sem nota má til að festa tölvuna nokkuð tryggilega s.s. þegar hún er skilin eftir á hótelherberginu. „Þá eru lausnir eins og BitLocker hluti af Windows 7-stýrikerfinu og má nota til að dulkóða harða diskinn. Það tryggir að ef óprúttnir aðilar koma höndum yfir tölvuna er ekki hægt að nálgast nein gögn sem þar kunna að leynast án þess að hafa rétta lykilorðið.“