„Ég var í búðinni áðan og gleymdi að kaupa sýrðan rjóma, enda ekki með skrifað niður í þetta skiptið,“ segir Margrét.
„Ég var í búðinni áðan og gleymdi að kaupa sýrðan rjóma, enda ekki með skrifað niður í þetta skiptið,“ segir Margrét. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans, er sérfræðingur þegar kemur að hagkvæmni í innkaupum og matargerð ýmiss konar. Nemendur hennar læra margt nytsamlegt varðandi matreiðslu, vöru- og næringarfræði auk þess að taka slátur svo eitthvað sé nefnt.

Margrét segir að allir ættu að skrifa innkaupalista áður en haldið er út í búð. Einnig að kaupa inn fyrir nokkra daga í einu. „Það er engin ástæða til að hlaupa út í búð á hverjum degi. Ef maður er með innkaupalista er minni hætta á að gleyma einhverju,“ segir hún og bætir við að það komi þó fyrir hana eins og aðra. „Ég var í búðinni áðan og gleymdi að kaupa sýrðan rjóma, enda ekki með skrifað niður í þetta skiptið. Ég var alveg viss um að ég væri að gleyma einhverju en mundi ekki hvað það var fyrr en heim var komið. Ég reyni yfirleitt að vera skipulögð og ákveð matseðil heimilisins fram í tímann. Ef ég sé eitthvað á tilboði kaupi ég það og set í frysti. Ekki má þó gleyma að taka kjötið tímanlega út þegar það verður notað. Maður rekst oft á mjög góð tilboð sem er tilvalið að nýta sér því matur er orðinn dýr. Flestir finna að þeir hafa minna á milli handanna og heimilisbókhaldið gengur ekki upp nema með skipulögðum hætti. Ég fer helst í Krónuna og Bónus til að kaupa inn. Þegar ég ætla að kaupa gott kjöt eða einhverja sérvöru fer ég í Nóatún eða Melabúðina,“ segir Margrét.

Hún býr í Hlíðunum og segir að Sunnubúðin sé sín hverfisverslun. „Það er lítil verslun en hún er ágæt þegar vantar eitthvað smávegis. Svo eru góðar fiskbúðir víða og ég stekk inn í þær þegar ég er á ferðinni en við borðum mikinn fisk. Þegar ég byrjaði að búa voru fiskbúðir á hverju horni en það er nú ekki lengur.“

Indversk áhrif

Þegar Margrét er spurð um áherslur í matargerð þessa dagana segir hún að indverskur matur sé í miklu uppáhaldi. „Ég var á tímabili afskaplega hrifin af kínverskum mat en nú er það indverskt. Tengdasonur minn er indverskur og dóttir mín, sem bjó lengi á Indlandi, er afar fær í indverskri matargerð. Ég var einu sinni hjá þeim í hálft ár og lærði þá heilmargt. Núna eru þau flutt heim og ég fæ stundum indverskan mat hjá þeim. Hann er virkilega góður og hollur. Núorðið fær maður flest krydd hér á landi. Ég hef gaman af því að prófa framandi rétti en ég er líka mjög mikið með venjulegan íslenskan mat.“

Á heimilinu eru yfirleitt fjórir í mat. Fyrir utan þau hjónin er sonurinn, Sigfús, oft í mat svo og sextán ára barnabarn. „Það er miklu skemmtilegra að elda fyrir fjóra en tvo,“ segir Margrét. „Við grillum líka allan ársins hring, kjöt, fisk og grænmeti. Það er verst að á svölunum mínum núna er óhemju mikið af kóngulóm og ég þarf að láta eitra fyrir þeim. Mér er meinilla við kóngulær,“ segir hún.

Slátur og svið

Það er engin matvendni í fjölskyldunni og Margrét fyllir frystikistuna á haustin af slátri, sviðum og öðru góðgæti. „Krökkum finnst slátrið gott, steikt eða soðið og mér finnst það gott súrt. Manninum mínum finnst sviðasultan góð og barnabarnið er hrifið af heitum sviðum. Það er gott að kaupa kjötskrokk á haustin en þó ekki nema fólk kunni að nota hann allan. Ég geri rúllupylsu úr slögunum en einnig finnst mér ágætt að skera þau í ræmur og grilla.“

Margrét er ekki með sumarbústað og segist ekki fara í tjald. „Dóttir mín er að byggja sumarhús með tengdamömmuhúsi (gestahúsi) og þar fæ ég aðstöðu. Áður fyrr fór maður mikið í útilegur en það hefur minnkað. Ég er þó ákveðin í að fara á Fiskidaginn mikla á Dalvík. Það hef ég gert áður og finnst það mjög skemmtilegt.“

Margrét er með matjurtagarð og þar ræktar hún klettasalat, steinselju, dill, kóríander og fleira. „Mér finnst ótrúlega gaman að fara út í garð og sækja salat og krydd. Ég læt hins vegar garðyrkjubændur um að rækta tómata og gúrkur fyrir mig. Mér finnst íslenskt grænmeti sérlega gott þótt grískir tómatar séu þeir bestu sem ég hef smakkað en þeir fást ekki hér,“ segir Margrét sem ætlar að gefa lesendum góða indverska uppskrift.

Mughali-kjúklingur með möndlum og rúsínum

2,5 cm engifer, saxað

8-9 hvítlauksrif

6 msk. afhýddar möndlur

4 msk. vatn

7 msk. olía

1,5 kg kjúklingur (bringur í bitum)

10 kardimommubelgir, heilir

2,5 cm kanelstöng

2 lárviðarlauf

5 negulnaglar

200 g saxaður laukur

2 tsk. malað cumen

1/8-¼ tsk. cayenne-pipar

7 msk. hrein jógúrt

1 ½ tsk. salt

3 dl rjómi

1-2 msk. rúsínur

¼ tsk. garam masala

Setjið engifer, hvítlauk , 4 msk. vatn og 4 msk. möndlur í mixara og blandið í mauk.

Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn á öllum hliðum og setjið til hliðar. Steikið kardimommur, kanel, lárviðarlauf og negul í sömu feiti í fáeinar sekúndur, bætið þá í lauk og steikið þar til hann er gullinn.

Bætið kryddmaukinu út í og hrærið vel. Jógúrtin fer síðan út í hægt og rólega (hræra vel). Bætið kjúklingnum út í ásamt rjómanum og látið sjóða í 20 mínútur, að síðustu er rúsínum og garam masala bætt út í.

Látið krauma í 10 mínútur í viðbót. Afgangurinn af möndlunum er ristaður og stráð yfir. Borið fram með hrísgrjónum og naan-brauði.

Naan-brauð

15 g ferskt ger (1 ½ tsk. þurrger)

½ tsk. sykur

1 ½ dl volg mjólk

1 ½ dl jógúrt

2 msk. olía

1 tsk. salt

500 g hveiti

Hnoðið venjulegt gerdeig og látið lyfta sér í skál. Deigið sett á borð og hnoðað aftur. Skiptið deiginu í 8 hluta, fletjið út ílöng brauð og penslið með bræddu smjöri.

Bakað í mjög heitum ofni (ofarlega), snúið brauðunum síðan við og bakið á hinni hliðinni.

elal@simnet.is

Innkaupakarfan

Mjólk

AB-mjólk

Undanrenna

Skyr

Ávextir

Mangó

Ananas

Tómatar

Agúrka

Paprika