Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff við opnun Æðarsetursins í Stykkishólmi ásamt Erlu Friðriksdóttur.
Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff við opnun Æðarsetursins í Stykkishólmi ásamt Erlu Friðriksdóttur. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Gunnlaugur Árnason Stykkishólmur Æðarsetur Íslands var nýlega opnað í Norska húsinu í Stykkishólmi.

Gunnlaugur Árnason

Stykkishólmur Æðarsetur Íslands var nýlega opnað í Norska húsinu í Stykkishólmi. Af því tilefni heimsóttu forsetahjónin Hólminn og flutti Ólafur Ragnar Grímsson ávarp og Dorrit Moussaieff forsetafrú opnaði Æðarsetrið: Það átti vel við því á Bessastöðum er gott æðarvarp og þau eru í góðum tengslum við æðarfuglinn.

Æðarsetur Íslands er sýning og safn sem helgað er æðarfuglinum og dúntekju. Með tilkomu Æðarsetursins fjölgar um eitt safn í Hólminum sem auðgar mannlífið og styrkir Hólminn sem vinsælan ferðamannastað. Það er óhætt að segja að æðarfuglinn eigi það skilið að honum sé sýndur sómi, enda hefur hann gefið af sér verðmæti til Íslendinga í gegnum aldirnar og er eina fuglategundin er leggur til mikil útflutningsverðmæti.

Undirbúningur að stofnun Æðarseturs Íslands hófst í fyrra og hafa heimamenn komið að honum með feðginunum Friðriki Jónssyni og Erlu Friðriksdóttur, sem reka Íslenskan æðardún ehf. og Queen Eider ehf. Erla og Friðrik hafa um nokkurra ára skeið rekið dúnhreinsun í Stykkishólmi en á síðasta ári vaknaði sú hugmynd að stofna Æðarsetur Íslands í Stykkishólmi.

Hafa allt sem tengist fuglinum

„Ef einhvers staðar á að vera æðarsetur þá er það hér í Stykkishólmi,“ segir Erla. „Hér höfum við allt sem tengist fuglinum: Breiðafjörðinn, stærsta æðarvarp á landinu, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi sem sérhæfir sig í rannsóknum á æðarfugli og Náttúrustofu Vesturlands með mikla þekkingu á vágestum æðarfuglsins, s.s. mink, ref og örnum. Það er í raun ótrúlegt miðað við hina löngu hefð fyrir sölu og útflutningi á íslenskum æðardúni hvað lítið er til um fuglinn, vörur úr dúninum og vörur sem tengjast dúninum hér á landi,“ segir Erla jafnframt. Í eldhúsinu í Norska húsinu verður hlunnindasýning þar sem gamalt handverk er sýnt og gömul áhöld sem notuð voru við hreinsun á æðardúni. Þar verða gamlar ljósmyndir og kvikmyndir sýndar, sem gerðar hafa verið um varp og dúntekju í gegnum tíðina. Boðið verður upp á erindi og fræðslu í eldhúsinu í sumar og verður stílað inn á sunnudaga í þeim efnum. Leitað hefur verið til listamanna úr Stykkishólmi til að gera listmuni fyrir setrið er tengjast æðarfugli og verða þeir til sölu þar í sumar, auk þess sem hægt verður að kaupa æðardúnssængur í ýmsum stærðum og útfærslum.
Friðaður frá 1847
» Æðarfuglinn er arðmesti fugl Íslands. Hann er staðfugl á Íslandi og hefur verið friðaður frá árinu 1847.
» Fluttur er út æðardúnn, um 2.500-3.000 kg á ári og eru það um 75% af heimsframleiðslunni. Helmingur af dúni sem fellur til á Íslandi á hverju ári kemur af Breiðafjarðarsvæðinu.