Friðrik Sigurðsson
Friðrik Sigurðsson
Frá Friðriki Sigurðssyni: "Þann 4. júlí nk. verður sýndur hjá RÚV fyrsti þátturinn af sex sem fólk með þroskahömlun hefur unnið undir heitinu „Með okkar augum“. Þættir þessir eru með blönduðu efni og hafa að leiðarljósi að vera bæði fræðandi og skemmtilegir."

Þann 4. júlí nk. verður sýndur hjá RÚV fyrsti þátturinn af sex sem fólk með þroskahömlun hefur unnið undir heitinu „Með okkar augum“. Þættir þessir eru með blönduðu efni og hafa að leiðarljósi að vera bæði fræðandi og skemmtilegir.

Fólk með þroskahömlun sá um þáttagerðina, bæði tæknivinnu, að stórum hluta, svo og efnisöflun og viðtöl, undir leiðsögn fagfólks. Þáttunum er ætlað að sýna að í þessum hópi eru margir hæfileikaríkir einstaklingar. Annar tilgangur með þáttagerðinni er að stuðla að auknum fjölbreytileika í gerð sjónvarpsefnis þar sem efnistökum og umfjöllun er stýrt af fólki sem hefur ef til vill aðra lífsreynslu, áhugamál og sýn á samfélag sitt.

Í nýjum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk eru mörg ákvæði um skyldur þjóðríkja til að vinna gegn staðalímyndum og fordómum gagnvart fólki með fötlun, svo og skyldur fjölmiðla í þeim efnum. Landssamtökin Þroskahjálp telja að gerð þessara þátta sé áhrifarík aðferð til að uppfylla þau ákvæði. Vonandi verður því framhald á þessari þáttagerð.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa að undaförnu unnið í samvinnu við fleiri aðila að nokkrum verkefnum sem stuðla að þátttöku og sýnileika fólks með þroskahömlun. Samtökin telja að með því móti stuðli þau að betra og skemmtilegra samfélagi fyrir alla.

Góða skemmtun með þeim Andra Frey, Bjarna, Eiði, Katrínu Guðrúnu, Richard, Skúla Steinari og Steinunni Ásu í sumar.

FRIÐRIK SIGURÐSSON,

framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Frá Friðriki Sigurðssyni