„Ljósir litir flæða um allt og það er helst í eldri hverfum borgarinnar sem við sjáum meiri litadýrð.“
„Ljósir litir flæða um allt og það er helst í eldri hverfum borgarinnar sem við sjáum meiri litadýrð.“ — Morgunblaðið/RAX
Þegar ég byrjaði fyrir 17 árum var olíumálning um 40 prósent af markaðnum en er um 10 prósent í dag og fer minnkandi.

Góð þjónusta við viðskiptavini okkar og góðar vörur sem eru endingargóðar og umhverfisvænar er okkur mikið kappsmál,“ segir Halldór Snorrason, aðstoðarframkvæmdastjóri Fluggerlita. Til að ná þeim markmiðum hefur fyrirtækið verið með góða þjónustu og upplýsingagjöf á netsíðu sinni og sóst eftir því að fá Evrópublómið á vörur sínar auk þess að uppfylla ISO14001 umhverfisvottun í verksmiðjum sínum. „Það er lykilatriði að koma góðum upplýsingum til fólks og við notum netið meðal annars til þess. Gott dæmi er t.d. magnreiknivél sem við höfum á netinu og getur fólk notað hana til viðmiðunar enda ómögulegt að segja nákvæmlega til um það hvað hver og einn þarf mikla málningu. Það er rosalega persónubundið hvað fólk dregur mikið úr málningunni. Sumir nota einn lítra á 8 fermetrana en aðrir teygja það í 14,“ segir Halldór og bætir því við fagmenn beri almennt þykkara á en almenningur.

Á netsíðu Fluggerlita er einnig að finna hjálplega viðbót sem leyfir fólki að hlaða upp mynd af t.d. stofunni sinni og leika sér með liti og áferð.

„Ungt fólk hefur tekið vel í þetta og framtíðin liggur auðvitað í svona forritum og viðbótum sem hjálpa fólki að velja liti og áferð.“

Umhverfisstefna Flugger

„Flugger telur það vera mikilvægt að vera með vottanir bæði á verksmiðjunum sem eru með ISO14000 staðalinn og votta sem flestar vörur með Evrópublóminu þannig að þær séu umhverfisvænar og séu ekki mengandi í framleiðslu eða í notkun,“ segir Halldór. ISO14000 er vottun sem verksmiðjur fá og tryggir það að meðhöndlun úrgangs, notkun rafmagns og losun koltvísýrings sé í lágmarki.

„Þessi vottun á að tryggja að framleiðslan sé umhverfisvæn.“

Málning er þó eðlis síns vegna alltaf eitthvað mengandi og ekki verður hjá því komist að nota í hana efni sem eru slæm bæði fyrir menn og náttúru.

„Málning er alltaf eitthvað mengandi en tilhneigingin er að draga úr leysiefnum í henni eins og mögulegt er. Í dag er málning t.d. miklu meira vatnsþynnt en hún var fyrir bara tíu árum,“ segir Halldór og bætir við að þótt gæðin í málningunni hafi fyrst til að byrja með ekki verið sambærileg og í olíumálningu þá hafi þróunin verið hröð undanfarin ár og í dag sé vantsþynnta málningin að taka fram úr olíumálningunni í gæðum.

„Þegar ég byrjaði fyrir 17 árum var olíumálning um 40 prósent af markaðnum en er um 10 prósent í dag og fer minnkandi.“

Litadýrðin, þvotturinn og undirbúningurinn

„Ljósir litir flæða um allt og það er helst í eldri hverfum borgarinnar sem við sjáum meiri litadýrð,“ segir Halldór. Ljósir litir kalla þó á meiri þrif og segir Halldór að fólk hafi alltaf gert kröfu um að auðvelt sé að þrífa málninguna.

„Hér áður fyrr var olíumálning mikið notuð inni og það var auðvelt að þrífa hana. Í dag er hins vegar komin vatnsmálning sem auðvelt er að þrífa og við erum með sérmerkta slíka málningu.“

Undirbúningurinn skiptir líka miklu máli ef vel á að takast til.

„Ef fólk er að fara að mála innanhúss þá þarf að vanda undirbúning. Hann er meirihlutinn af vinnunni við að mála. Hann er grunnurinn að góðum árangri,“ segir Halldór og bætir við að í undirbúningnum sé m.a. fólgið að fylla í nagalagöt og sprungur og slípa létt yfir flötinn.

„Það er oft ryk og kusk frá fyrri málningu sem situr á veggnum og því er gott að renna snögglega yfir vegginn áður en fólk setur nýja málningu á.“

vilhjalmur@mbl.is