Dansað Á Laufási er enn búseta en í kirkjunni og gamla torfbænum er Minjasafnið á Akureyri með starfsemi.
Dansað Á Laufási er enn búseta en í kirkjunni og gamla torfbænum er Minjasafnið á Akureyri með starfsemi. — Ljósmynd/Minjasafnið á Akureyri
Lummuilmur berst út bæjargöngin fram á hlað og fyllir vit vinnufólksins sem hamast í heyskap með orfi og ljá og bindur í bagga.

Lummuilmur berst út bæjargöngin fram á hlað og fyllir vit vinnufólksins sem hamast í heyskap með orfi og ljá og bindur í bagga. Þessi heimur sem kenndur er við gamla Ísland er flestum fjarlægur, en á laugardaginn gefst tækifæri til að upplifa daglegt líf eins og það var í burstabæ á 19. öld, því þá verður boðið til starfsdags í gamla bænum Laufási við Eyjafjörð.

Börnum boðið á bak

Mikið verður um að vera á Laufásbænum en dagskráin hefst kl. 13:30 með fjölskyldusamveru í kirkjunni, enda hefur Laufaás verið kirkjujörð frá upphafi kristni á Íslandi. Í gamla bænum verður fólk að störfum við osta- og skyrgerð með gamla laginu og mun gestum bjóðast að smakka á nýgerðri smjörklípu á heimabökuðu rúgbrauði, fjallagrasabrauði og auðvitað lummum.

Boðið verður upp á fróðleik um íslenskar nytjajurtir og kl. 15 síðdegis munu fagrir tónar óma um sveitina þegar danshópurinn Vefarinn stígur taktfastan dans við eigin söng. Þá verður sérstök sýning á reiðfatnaði og reiðtygjum frá fyrri tíð, í tilefni af Landsmóti hestamanna í Skagafirði sem stendur sem hæst um helgina, auk þess sem börnum verður boðið upp á reiðtúr á hlaðinu.

Íslensk sveitarómantík mun því svífa yfir vötnum í Laufási og að sjálfsögðu eru gestir hvattir til að mæta í þjóðbúningi og greiða þeir sem það gera engan aðgangseyri.