„Við stóðumst því ekki mátið,“ segir Ólöf Nordal sem flutti fyrir nokkrum árum á Laugarásveginn þar sem hún ólst upp.
„Við stóðumst því ekki mátið,“ segir Ólöf Nordal sem flutti fyrir nokkrum árum á Laugarásveginn þar sem hún ólst upp. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við bjuggum lengi í vesturborginni og á Seltjarnarnesi þaðan sem maðurinn minn, Tómas Már Sigurðsson, er.

Við bjuggum lengi í vesturborginni og á Seltjarnarnesi þaðan sem maðurinn minn, Tómas Már Sigurðsson, er. Þegar við fluttum aftur suður eftir nokkur góð ár austur á landi horfðum við fyrst í vesturborgina en svo kom óvænt tækifæri upp í hendurnar á okkur þegar eitt skemmtilegasta húsið hér í Laugarásnum var auglýst til sölu. Sjálf er ég alin upp hér við Laugarásveginn og hafði horft til þessa spennandi húss, sem Ingólfur Guðbrandsson kórstjóri og ferðafrömuður átti, alveg síðan ég var stelpa. Við stóðumst því ekki mátið, enda staðsetningin frábær auk þess sem húsið hentar stórri fjölskyldu eins og okkar afar vel,“ segir Ólöf Nordal þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Laugarásvegurinn er vinsæll og þykir einn af betri götum Reykjavíkur. Gatan liggur upp af Laugardalnum og húsin standa undir brekku, flest byggð á árunum fyrir og um 1960.

Systkini á svipuðum aldri

„Foreldrar mínir, Jóhannes Nordal og Dóra Guðjónsdóttir, voru meðal frumbyggja hér og fluttu inn í nýbyggt hús sitt á Laugarásvegi 11 árið 1957. Húsin í nágrenninu voru reist um líkt leyti og yfirleitt voru fjölskyldurnar mjög stórar. Við systkinin erum sex, fimm systur og einn bróðir, og í næsta húsi, Laugarásvegi 13, voru systurnar jafn margar en bræðurnir tveir. Allt börn á líku reki og við; börn þeirra Gunnlaugar Eggertsdóttur og Jóhanns Friðrikssonar kaupmanns, sem kenndur var við Kápuna,“ segir Ólöf sem bætir við að mikill samgangur hafi jafnan verið milli systkinanna í þessum tveimur samliggjandi húsum.

„Ég og ein systranna í húsinu númer þrettán, Ingibjörg, héldum mikið saman sem stelpur og gerum raunar enn þó við höfum farið ólíkar leiðir í lífinu, ég í stjórnmálin en hún sem skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík. Við vorum oft samferða í skólann, þar sem við gengum suður fyrir Laugardalsvöllinn, þangað sem var bein leið í Laugarnesskólann.“

Á uppvaxtarárum Ólafar var Laugardalur með allt öðrum svip en nú er. Stór tún, hagar og sveitabæir þangað sem krakkarnir sóttu til að fylgjast með búskap. „Að vísu var Grasagarðurinn kominn og frá gamalli tíð eru Þvottalaugarnar þarna – alltaf sveipaðar ákveðinni dulúð enda er saga þeirra áhugaverð,“ segir Ólöf. „Seinna var tekið til hendi í Laugardalnum; móarnir sléttaðir og gerðir að fallegum flötum, gróðursett og í kringum 1990 var Fjölskyldu- og húsdýragarðinum komið upp. Það er skemmtilegur staður; það veit ég vel sjálf sem móðir sex ára stúlku sem finnst ævintýri að koma þangað.“

Öngþveiti við Konuríkið

Undir brekkubrún þar sem húsin við Laugarásveg standa er skjólsælt; húsin hlémegin gagnvart norð- og austlægum áttum. Helst er að sunnan- og vestanáttir hvekki íbúa, en á móti kemur að hávaxin trén skýla vel. „Aspirnar eru orðnar býsna háar og þyrftu að víkja fyrir öðrum og snotrari gróðri. Reyniviðurinn mætti þó njóta sín betur,“ útskýrir Ólöf sem er í annarri kynslóð íbúa við götuna. Segir að nokkuð sé um að fólk uppalið í hverfinu, sem búið hefur annars staðar, sé að snúa aftur, sem sýni hve tengsl þess við æskuslóðirnar séu sterk.

„Þegar ég var stelpa var þetta allþung umferðargata og þeir sem þurftu úr Laugardalnum í austurborgina, til dæmis inn í Sund, fóru gjarnan þessa leið. Hér úti á horni, þar sem Laugarás- og Brúnavegur skarast, var nánast verslunarmiðstöð; kaupmaður, mjólkurbúð og fleira. Og svo var ÁTVR hér með eina af þremur verslunum sínum í bænum, Konuríkið sem kallað var, og undantekningalítið var öngþveiti fyrir utan seinnipartinn á föstudögum og foreldrar voru dauðhræddir um börnin sín. En svona var veröldin þá – og Ríkið er löngu flutt annað.“

sbs@mbl.is