Ólafía Sigríður Guðbergsdóttir fæddist í Reykjavík 4. desember 1931. Hún lést á Landspítalanum 4. júní 2011.

Foreldrar hennar voru Guðbergur Guðjón Kristinsson, f. 27. apr. 1903, d. 18. nóv. 1934 og Steinunn Guðrún Kristmundsdóttir, f. 5. ág. 1905, d. 14. nóv. 1975. Systkini: Kristinn Guðbergsson, f. 10. des. 1926, d. 30. maí 2007, Haraldur Axel Guðbergsson, f. 26. okt. 1930. Systkini sammæðra: Jón Stefánsson, f. 7. okt. 1939 og Bergljót Stefánsdóttir, f. 14. maí 1938, d. 12. ág. 2000.

Maki: Ísleifur Runólfsson, f. 24. apr. 1927, d. 2 sept. 1998. Börn þeirra eru: Steinar Berg Ísleifsson, f. 21. júlí 1952, Ólafur Ísleifsson, f. 28. ág. 1953, Alma Ísleifsdóttir, f. 21. nóv. 1954 og Guðbergur Ísleifsson, f. 11. nóv. 1960.

Útför Ólafíu Sigríðar fór fram í kyrrþey.

Fyrir nokkru fékk ég tölvuskeyti frá föður mínum þar sem hann lét mig vita að dauðastríði hennar Ollýjar ömmu væri lokið. Fyrsta hugsuninn var: hún hefur þá loksins fundið frið, blessunin. Svo kom steinn í magann og augun fóru á flot. Ég kvaddi hana í febrúar sl., daginn áður en ég flutti til Taílands. Við áttum góða stund með instant-kaffi og tebollum. Það lá í loftinu að þetta væri líklega okkar síðsta samverustund og við lögðum okkur fram um að gera hana ánægjulega. Þá, eins og oft áður fann ég hlýleika og vináttu í nærveru hennar.

Nú þegar hún er fallin frá streyma minningarnar fram. Mestmegnis eru það minningar úr æsku minni því að hún Ollý amma spilaði þar stórt hlutverk ásamt Ísleifi afa. Ég minnist fjölmargra samverustunda og er þakklátur fyrir að hafa átt þau bæði að. Við Ísi frændi sóttumst eftir að vera hjá þeim, lékum okkur þar saman, gerðum einhver prakkarastrik og horfðum á ýmis meistarastykki þess tíma eins og Cannonball Run I og II og Neverending Story á myndbandi. Oft fékk ég að fara með þeim í ferðalag, bæði í Vatnsdalinn á æskustöðvar afa og svo í hjólhýsið þeirra. Þau áttu sér stæði í Þjórsárdalnum svo og á Laugarvatni í mörg sumur og þar nutu þau sín vel.

Ollý amma var ekki alltaf hrifin af kvikmyndasmekk okkar Ísa en stundum fengum við hana til að leigja myndir sem við fengum ekki að horfa á heima hjá okkur. Sjálf hafði hún gaman af góðum kvikmyndum og sagði okkur frá myndum sem við ættum að skoða síðar. Uppáhald hennar var Mr. Hulot´s Holliday eftir Jacques Tati. Hún dáðist að húmornum. Gleymdi sér stundum við að rekja atriði myndarinnar og datt þá í svo mikið hláturskast að ekki var hægt að skilja orð af því sem hún sagði. Við gátum ekki annað en hlegið líka því hlátur hennar var svo smitandi. Þetta gerðist iðulega þegar hún hafði frá einhverju skemmtilegu að segja; hún gat ekki komið því frá sér því hún hló svo mikið.

Því miður þá minnkaði vægi hláturs í lífi hennar eftir að afi lést. Árin eftir það urðu henni erfið og oft gleðisnauð. Þrátt fyrir erfiðleika og veikindi þá glitti ávallt í þessa elskulegu og skemmtilegu konu. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að njóta samveru og handleiðslu hennar í lífinu. Nú eru Ísleifur afi og Ollý amma sameinuð á ný. Þau eru að öllum líkindum að græja hjólhýsi sitt til ferðalags um himindali.

Páll Arnar Steinarsson.