Einfaldleiki Það er vonum seinna að Gillian Welch sendir frá sér nýja sólóskífu, eða kannski réttara að segja tvíeykisskífu með David Rawlings.
Einfaldleiki Það er vonum seinna að Gillian Welch sendir frá sér nýja sólóskífu, eða kannski réttara að segja tvíeykisskífu með David Rawlings.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Átta ár eru liðin frá því bandaríska söngkonan Gillan Welch sendi síðast frá sér plötu; Soul Journey kom út 3. júní 2003.

Átta ár eru liðin frá því bandaríska söngkonan Gillan Welch sendi síðast frá sér plötu; Soul Journey kom út 3. júní 2003. Það er því vonum seinna að hún sendir frá sér plötu með nýrri tónlist, en fagnaðarefni að The Harrow & The Harvest kemur út á þriðjudaginn.

Líkast til þekkja flestir Gillan Welch fyrir framlag hennar til tónlistarinnar í kvikmyndinni O Brother, Where Art Thou? , hún söng þar eitt lag ein og annað með Alison Krauss, en kom líka að lagavali í myndina almennt. Þar er hún að fást við gamla hefð, svonefna Appalchian-tónlist, en svo er nefnd þjóðlagatónlist frá austanverðum Bandaríkjunum, fjallahéruðum Kentucky, Tennessee, Virginíu, Vestur-Virginíu og Norður-Karólínu. Hljóðfæraskipan er alla jafna einföld, tónlistin rólyndisleg og textarnir þrungnir depurð og vonleysi – það er eins og lífið verði bærilegra þegar maður veltir fyrir sér hörmungum annarra.

Welch hefur gefið út fjórar sólóskífur, The Harrow & The Harvest er sú fimmta, og fyrstu þrjár plöturnar voru mjög í stíl við hefðina, lágstemmdar og uppfullar af myrkri. Fjórða skífan, áðurnefnd Soul Journey , var aftur á móti fjörlegri, því líkust sem hún væri hljóðrituð af góðra vina hópi í aftanhúmi úti á verönd, nánast glaðvær, en á The Harrow & The Harvest snýr Welch sér aftur að einfaldleikanum með frábærum árangri. Ég nefni plötur hennar sólóplötur hér að ofan, en réttara kannski að kalla þær tvíeykisskífur, því Dave Rawlings, sem starfað hefur með Welch alla tíð, er ekki síður mikilvægur, hvort sem það er með frábæru gítarspili eða snyrtilegri röddun eða framúrskarandi útsetningum.

Þó ekkert hafi heyrst frá Welch svo lengi hefur hún fengist við sitthvað tónlistartengt á síðustu árum, leikið með Rawlings í hljómsveit hans, Dave Rawlings Machine, meðal annars á plötu sveitarinnar sem kom út í hitteðfyrra, sungið lög í kvikmyndum og svo má telja. Það tók hana hinsvegar svo langan tíma að smala í nýja sólóskífu að hún var víst ekki með nógu góð lög í höndunum, eða svo hefur hún lýst því.

Á plötunni er hvert lagið öðru betra og flest, ef ekki öll, hljóma þau eins og verið sé að dusta rykið af gamalli klassík, draga fram í dagsljósið perlur liðins tíma og sýnir um um leið að góð tónlist nær út yfir rúm og tíma. Nefni sem dæmi upphafslag plötunnar, Scarlet Town, þar sem Rawlings spilar dulcimerlega á gítarinn, nú eða Tennessee sem hljómar einhvernveginn eins og það hafi alltaf verið til, eða þá The Way it Goes með frábærlega niðurdrepandi texta við glaðvært undirspil.

Árni Matthíasson