Danger Mouse er kraftaverkamaður. Afrakstur vinnu hans með Gnarls Barkley, Gorillaz, The Black Keys og Beck vottar það. Honum tókst jafnvel að láta David Lynch hljóma vel á plötunni Dark Night of the Soul!

Danger Mouse er kraftaverkamaður.

Afrakstur vinnu hans með Gnarls Barkley, Gorillaz, The Black Keys og Beck vottar það. Honum tókst jafnvel að láta David Lynch hljóma vel á plötunni Dark Night of the Soul! Plötuna Rome gerði hann í samstarfi við ítalska útsetjarann Daniele Luppi sem hefur áður unnið með Danger Mouse. Platan er nokkurskonar virðingarvottur við spagettívestramúsík Morricones. Engin dul er dregin á hvaðan áhrifin koma. Við hlustun kemur upp í hugann ponsjó-klæddur Eastwood nagandi vindil. Í stað hans eru aðalhlutverkin leikin af Jack White og Norah Jones sem þau gera óaðfinnanlega. Þetta er að sjálfsögðu þunnur ís sem verið er að feta en einhvernveginn gengur platan mjög vel upp. Allt sem White virðist koma nálægt hefur yfirbragð einhverrar spennu sem erfitt er að koma í orð en hljómar alltaf jafn vel. Lögin sem hann syngur standa upp úr á plötunni. Norah Jones kemst líka vel frá sínu og afslöppuð rödd hennar passar vel við ponsjó-nostalgíuna. Platan stendur og fellur með skoðun fólks á tónlist Morricones. Ekki er verið að gera neitt nýtt en það þarf ekki alltaf. Stundum má láta vera að fikta í formúlunni og vanda sig nógu mikið, það heppnast í þessu tilviki.

Hallur Már