Kristel Finnbogadóttir kristel@mbl.is „Þetta var kaldur mánuður yfir allt landið en kuldinn er mismunandi eftir landshlutum,“ segir Sigurður Þór Guðjónsson, áhugamaður um veðurfar, spurður um veður í júnímánuði. Á vefsíðu sinni, www.nimbus.

Kristel Finnbogadóttir

kristel@mbl.is

„Þetta var kaldur mánuður yfir allt landið en kuldinn er mismunandi eftir landshlutum,“ segir Sigurður Þór Guðjónsson, áhugamaður um veðurfar, spurður um veður í júnímánuði. Á vefsíðu sinni, www.nimbus.blog.is, skrifar Sigurður meðal annars um veðurfar á Íslandi. Hann bendir á að mánuðinum sé ekki enn lokið þótt síðustu dagar hans séu ólíklegir til að hafa áhrif á heildarmyndina.

„Hér í Reykjavík er hitinn í júní við meðallag og jafnvel aðeins fyrir ofan það. Svipað má segja um Suðurland en á Suðausturlandi og Vesturlandi er kaldara. Það er aðallega fyrir norðan og austan, sérstaklega inni í sveitunum, þar sem hitinn er tveimur til þremur stigum undir meðallagi. Þessi munur á milli landshluta er mjög óvenjulegur,“ segir Sigurður Þór. Hann nefnir sem dæmi samanburð á meðalhita í Reykjavík og á Egilsstöðum í júní en mismunurinn er nú í kringum þrjú stig.

„Í meðalárferði er mismunurinn á milli þessara staða innan við hálft stig en auðvitað er það breytilegt eftir árum,“ segir Sigurður Þór. Miðað er við meðaltal frá 1961 til 1990 eða 30 ár í senn.

Oft verið verra veður í júní

Sigurður Þór segir að veður á landinu hafi oft verið verra í júnímánuði. Veður á Norður- og Austurlandi sé hins vegar óvanalegt. „Þetta er kaldasti júní á Akureyri síðan árið 1952 en þá var nokkru kaldara. Þetta er fjórði eða fimmti kaldasti júnímánuðurinn frá upphafi mælinga en á Akureyri hófust þær árið 1882,“ segir hann.

Sigurður Þór segir sérstakt að kvartað sé yfir veðrinu í Reykjavík þennan mánuð. Fyrstu daga júní var kuldi í borginni en frá 11. júní hefur verið þurrt, sólríkt og hiti vel yfir meðallagi. „Það hafa verið margir góðir dagar í Reykjavík núna í júní. Hér er ekki hægt að kvarta,“ segir Sigurður Þór.

Ekki aðeins vekur kuldi eða fjöldi sólardaga athygli veðuráhugamanna en merkilegt er að skoða tölur úr mælingum um úrkomu í júnímánuði. „Þetta er kaldur og þurr mánuður nema einna helst við norðausturströndina. Í maí mældist mesta úrkoma í Vopnafjarðarhéraði í 80 ár. Júní ætlar líka að verða einn af allra úrkomusömustu júnímánuðum þar en í Vopnafirði og út við sjó á norðanverðum Austfjörðum mælist nú um það bil tvöföld meðalúrkoma,“ segir Sigurður Þór.

„Þetta er afbrigðilegur kuldi og sjaldgæft ástand sem lýkur vonandi fljótlega,“ segir Sigurður Þór um veðrið á Norður- og Austurlandi þessa dagana en telur júnímánuð annars þokkalegan á sunnanverðu landinu.

  • Þessi munur á milli landshluta er mjög óvenjulegur. Sigurður Þór Guðjónsson.