Sverð Alexander Lahtinen er færastur með sverðið í Finnlandi og efnilegur á alþjóðavísu. Tveir finnskir titlar á síðustu tveimur árum eru sönnun þess.
Sverð Alexander Lahtinen er færastur með sverðið í Finnlandi og efnilegur á alþjóðavísu. Tveir finnskir titlar á síðustu tveimur árum eru sönnun þess.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skylmingar Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is „Ég er að heimsækja ættingja og æfa í líkamsræktinni,“ segir Alexander Lahtinen sem er staddur hér á landi.

Skylmingar

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

„Ég er að heimsækja ættingja og æfa í líkamsræktinni,“ segir Alexander Lahtinen sem er staddur hér á landi. Auk þess sem hér að ofan er ritað undirbýr hann sig nú af kappi fyrir Evrópumótið í skylmingum sem fram fer í Sheffield á Englandi í næsta mánuði. Eflaust hringir nafnið ekki neinum bjöllum hjá flestum en Alexander á finnska móður og íslenskan föður og keppir nú fyrir Finnlands hönd í skylmingum.

Það gæti allt breyst á næstunni en hann er einnig með íslenskt vegabréf og getur því skipt um „lið“, já eða land, þegar honum hentar. Lahtinen er afar efnilegur í skylmingum og er meðal annars tvöfaldur finnskur meistari, bæði í meistaraflokki og unglingaflokki. Þá hefur hann látið að sér kveða á erlendri grundu.

Ekkert bókað í skylmingum

Hann varð sjöundi á heimsmeistaramóti unglinga í Belfast árið 2009 og þriðji á sama móti í Jordan í apríl síðastliðnum. Þá er hann tvöfaldur Norðurlandameistari unglinga, árin 2008 og 2010.

Nikolay Mateev, varaformaður Skylmingafélags Reykjavíkur og þjálfari, sagði í samtali við Morgunblaðið að hér væri á ferðinni mjög efnilegur strákur sem ætti svo sannarlega framtíðina fyrir sér í greininni. Spurður hvað liggi að baki því að vera eins efnilegur og í raun góður og hann er segir þessi tvítugi hálfíslenski Finni á ensku þar sem hann talar ekki íslensku enda aldrei búið hér á landi: „Ég hef æft mjög vel síðan ég var 11 ára. Mikil vinna er allt sem þarf og er það allra mikilvægasta. Mér hefur gengið mjög vel á mótum undanfarið og nú æfi ég á fullu fyrir Evrópumótið í Sheffield.“

Hann segir aldrei hægt að bóka neitt fyrirfram í skylmingum frekar en öðrum íþróttum. „Það getur farið mjög illa og getur einnig farið mjög vel. Auðvitað vona ég að mér gangi vel og verði á meðal sextán efstu.“

Útundan í Finnlandi þrátt fyrir stór afrek

Þessi magnaði skylmingamaður tekur síður en svo illa í það að keppa einn daginn fyrir Íslands hönd. „Það gæti vel verið. Í Finnlandi er staðið mjög illa að flestum íþróttum. Þar fer öll athyglin og fjármagnið í vinsælar íþróttagreinar eins og íshokkí, skíðastökk og fleira. Það fer samt eftir því hvað gerist í Finnlandi því þótt ég hafi náð góðum árangri þar fæ ég enga styrki frá ríkinu, sem er skrítið.“

Þótt Alexander myndi velja að keppa fyrir Ísland yrði hann enn búsettur í Finnlandi þar sem hans tegund af skylmingum er ekki stunduð hér á landi. Hann keppir í svokölluðu eepe en sabre er stundað á Íslandi, auk þess er til foil. Þetta eru þrjár tegundir skylminga „Það væri því ekki mögulegt fyrir mig að æfa hér á landi en auk þess erum við með mjög góða þjálfara í Finnlandi. Ef það hins vegar auðveldaði mér að fá aðstoð við að gera það sem mér þykir gaman að skylmast fyrir Ísland myndi ég að sjálfsögðu hugsa mig tvisvar um.“

Aðstaðan betri en skylmingafólkið

Alexander sagði einhverjar viðræður hafa átt sér stað við íslenska skylmingasambandið en ítrekaði þó að hann væri enn að keppa fyrir Finnland.

Alexander segir að samkeppnin sé góð í Finnlandi og þeir séu með frekar gott og ungt lið. Spurður hvort finnsku skylmingamennirnir séu betri en þeir íslensku stendur ekki á svarinu þótt það komi upp örlítil feimni við að segja það berum orðum. „Já, mér finnst það, en við keppum auðvitað í eepe en Íslendingar í sabre og það er tvennt ólíkt. Þá eru einnig fleiri sem stunda íþróttina í Finnlandi. Þið hafið samt mjög góða aðstöðu til skylminga og nokkuð góða skylmingamenn.“