Gamli manngæskuvinurinn Tony Bennett lætur ekki deigan síga í góðgjörðum sínum. Hann hefur gengið til liðs við samtök lífeyrisþega í Bandaríkjunum, AARP, í baráttunni gegn hungri hjá eldri borgurum.

Gamli manngæskuvinurinn Tony Bennett lætur ekki deigan síga í góðgjörðum sínum. Hann hefur gengið til liðs við samtök lífeyrisþega í Bandaríkjunum, AARP, í baráttunni gegn hungri hjá eldri borgurum. Átakið ber yfirskriftina Keyrum hungrið í hel (Drive to End Hunger) og mun Bennett syngja á sérstökum styrktartónleikum í Staples Center í Los Angeles 24. september næstkomandi.

Fjórum dögum áður er ráðgert að ný plata Bennetts, Tony Bennett: Duets II, komi út, en fjölmargir aðrir listamenn munu koma fram með honum á tónleikunum, sem einnig eru haldnir til að fagna 85 ára afmæli þessa mikla mannvinar.

Samtök lífeyrisþega í Bandaríkjunum segja að nærri sex milljónir eldri Bandaríkjamanna hafi ekki nóg að borða á hverjum degi. Ætlunin með átakinu er að auka vitund um þetta vandamál og vinna að því að bæta dreifingakerfi á borð við matarbanka, með fjársöfnun meðal almennings og fyrirtækja.

Bennett sendi sem kunnugt er frá sér hina geysivinsælu Duets-plötu árið 2006. „Það er frábært að vinna með AARP enn og aftur, sérstaklega að þeim málstað að eyða hungri meðal eldri Bandaríkjamanna, en það vekur oft ekki mikla athygli. Ég veit að þessi viðburður mun skipta miklu máli og ég er hæstánægður með að taka þátt í honum og fá marga uppáhaldstónlistarmenn mína með mér á sviðið,“ segir Bennett í fréttatilkynningu. ivarpall@mbl.is