Sýknudómur Styrmir Þór Bragason mætti einn ákærðu í dómsal í gær, en allir dómararnir þrír voru sammála um að sýkna bæri hann af öllum ákæruliðum.
Sýknudómur Styrmir Þór Bragason mætti einn ákærðu í dómsal í gær, en allir dómararnir þrír voru sammála um að sýkna bæri hann af öllum ákæruliðum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir niðurstöðu meirihluta héraðsdóms í Exeter-málinu svokallaða valda vonbrigðum. „Þarna er þröskuldurinn sem skilur að sýknu og sakleysi fremur hár,“ segir hann.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir niðurstöðu meirihluta héraðsdóms í Exeter-málinu svokallaða valda vonbrigðum. „Þarna er þröskuldurinn sem skilur að sýknu og sakleysi fremur hár,“ segir hann.

Héraðsdómur sýknaði í gær Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann Byrs sparisjóðs, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, og Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóra MP banka, af öllum liðum ákærunnar í málinu.

Ólafur segist ekki geta sagt til um hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar, enda sé það ríkissaksóknara að taka slíka ákvörðun. Hins vegar verði að horfa til þess, þegar fordæmisgildi dómsins er metið, að einn dómari hafi skilað séráliti varðandi hugsanlega sekt þeirra Jóns og Ragnars og hafi viljað sakfella þá.

Missti lífsviðurværið og æruna

Þrátt fyrir að Ólafur hafi ekki viljað segja til um það hvort málinu verði áfrýjað eða ekki verður að telja næsta víst að svo verði gert. Fordæmisgildi þess er of mikið til að ákæruvaldið geti látið það kyrrt liggja eftir dóm héraðsdóms. Fari svo að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu meirihluta héraðsdóms þýðir það hins vegar að á brattann verður að sækja fyrir ákæruvaldið í öðrum sambærilegum málum í framtíðinni.

Styrmir Þór sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, stuttu eftir dómsuppkvaðningu í gær, að hann hefði alltaf búist við því að verða sýknaður. „Ég var eiginlega alveg rólegur varðandi það. Hins vegar hefur málið tekið langan tíma og það er búið að hafa af manni lífsviðurværið og æruna. Það mun taka einhvern tíma að fá það aftur.“