Ingibjörg Jónasdóttir fæddist á Norðfirði 2. maí 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 13. júní 2011.

Útför Ingibjargar fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 23. júní 2011.

Ingibjörg Jónasdóttir fæddist á Norðfirði 2. maí 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 13. júní 2011.

Útför Ingibjargar fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 23. júní 2011.

Andlát kærrar æsku- og ævilangrar vinkonu minnar, Ingibjargar Jónasdóttur, sem af vinum sínum var jafnan kölluð Stúlla, kom mér ekki beinlínis á óvart. Undanfarin ár hefur hún ekki gengið heil til skógar og hefur átt við langvarandi vanheilsu að stríða. Í heimsókn hjá henni á hjúkrunarheimilinu Sóltúni fyrir skömmu lét Stúlla mín það á skýran hátt í ljósi – á þennan umbúðalausa en einlæga hátt, sem henni var svo tamur – að senn myndi lífsgöngu hennar ljúka. Punktur. Ég er búinn að þekkja Stúllu allt frá æskuárum okkar á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur. Örfáar vikur skildu okkar að í aldri, við höfum alla tíð búið í kallfæri hvort við annað, meira að segja þar af í tæpan áratug í sama húsinu að Hagamel 36, þar sem hún og eiginmaður hennar, Björn heitinn Guðjónsson, landsfrægur trompetleikari og söng- og hljómsveitarstjóri, bjuggu á hæðinni fyrir ofan okkur ásamt börnunum sínum, þeim Jonna og Önnu Þóru. Á árunum 1945 til 1947 bar ég út Moggann á Víði- og Reynimel. Mikil uppbygging var í gangi á svæðinu, meira að segja heil ný gata, Grenimelurinn, bættist við og fjöldi nýrra áskrifenda jókst að sama skapi og útburðartíminn þarafleiðandi. Ég endaði jafnan útburðinn austast í hverfinu. Einn morguninn fyrir framan Reynimel 28 rauk á mig stelpa á mínum aldri og hundskammaði mig fyrir, hvað ég kæmi seint með blaðið, pabbi hennar væri farinn í vinnuna og sæi aldrei blaðið, fyrr en á kvöldin. Ég reyndi að útskýra ástæðurnar og hvaða hring ég færi við útburðinn. Þá sagði hún: „Getur þú ekki snúið bannsettum hringnum við, byrjað hér, sem þú endar og endað hann, þar sem þú byrjaðir í morgun?“ Þessa áfrýjun stóðst ég ekki og bar út þaðan í frá, eins og stelpan bauð. Þetta voru fyrstu kynni mín af Ingibjörgu Jónasdóttur og leiddu til þess, að pabbi hennar, Jónas Guðmundsson ráðuneytisstjóri, gat lesið Moggann sinn í ró og næði með morgunkaffinu heima og mætt vel upplýstur í vinnuna, að minnsta kosti svo lengi, sem ég bar blaðið út. Og við Stúlla urðum vinir, ævilangt. Eftir fullnaðarpróf vorið 1946 hófum við Stúlla nám í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu, þetta sama haust og lukum landsprófi þaðan vorið 1948. Hér skildi leiðir um sinn. Við fórum sitt í hvorn framhaldsskólann en við misstum aldei sjónar hvort á öðru. Stúlla var hreint út sagt yndisleg manneskja, einstaklega glaðlynd og hláturmild, greiðug og hjálpsöm. Hún var hörkudugleg og kappsöm, góð móðir og sinnti því hlutverki af mikilli alúð en var samt sem áður útivinnandi obbann af starfsævi sinni, lengst af á skrifstofu Ríkisspítalanna, jafnframt því að vera einstaklega ötul í margvíslegu félagsstarfi og með eindæmum ósínk á tíma sinn á þeim vettvangi.

Síðasti fundur okkar í Sóltúni mun mér seint úr minni hverfa.

Ég og fjölskylda mín öll geymum með okkur fagrar minningar úr samferð okkar með Ingibjörgu og hennar fólki. Heilög sé minning Ingibjargar „Stúllu“ Jónasdóttur!

Gylfi Guðmundsson.

Ég man þegar ég hitti Ingibjörgu í fyrsta skipti, ég var send til hennar frá félagsþjónustunni og átti að hjálpa henni með heimilisstörf, strax sá ég að hún hafði ekki mikið álit á mínu starfi, en ekki út af fordómum heldur út af því að þetta sumar var hún búin að fá ýmiss konar fólk sem kom til hennar einu sinni og sást aldrei aftur, og þegar hún sá útlenska stelpu við dyrnar hjá sér hafði hún enga trú á að við yrðum vinkonur. Það tók ekki langa tíma þar til við náðum vel saman, ég gerði það sem til var ætlast af mér hjá henni og svo fengum við okkur te saman áður en ég héldi áfram. Þessar 30 mínútur sem við eyddum saman í spjall voru okkur mikilvægar. Hún var mjög dugleg að kenna mér íslensku og íslenska siði og ennþá í dag heyri ég í henni þegar ég er að kenna börnunum mínum að segja já, takk eða nei, takk. Við töluðum um allt milli himins og jarðar og það kom mér á óvart að tvær manneskjur með svo ólíkan bakgrunn, menningu og með svo miklu aldursbili ættu svo margt sameiginlegt, til dæmis fórum við báðar í sama skóla í Englandi til að læra ensku og við vorum báðar mikið fyrir klassíska tónlist og héldum mikið upp á sinfóníuhjómsveitir. Ingibjörg var voða dugleg að gera hitt og þetta heima og ég kom til hennar og gerði það sem hún gat ekki gert. Það var eitt skipti um haust sem hún sagði við mig að næst þegar ég kæmi vildi hún að ég myndi finna einhver ráð til að þrífa stofugardínurnar en í millitíðinni fór hún til læknis sem gaf henni steratöflu og eftir 2 daga á kúrnum fékk hún svo mikla orku að þegar ég mætti til hennar næst var hún uppi í tröppu að pússa gardínukappann og var sjálf búin að taka niður gardínurnar bæði í stofu/borðstofu og svefnherbergi, ég var alveg orðlaus og þar sem hún var ákveðin kona tók mig smástund að telja henni trú um að ég ætti frekar að fara upp í stiga, og gat sjálf ekki ímyndað mér hvernig hún fór að því að taka allar gardínurnar niður án þess að slasast.

Stundum lá mikið á og ég mátti ekki þrífa mikið, til dæmis þegar Friðrik krónprins Dana gifti sig. Ég sat mestallan tímann hjá henni með te og appelsínuostaköku, sem var orðin í uppáhaldi hjá okkur, og saman vorum við að pæla í höttum og kjólum gestanna. Þrátt fyrir að ég hætti í þessu starfi fyrir sex árum hringdi ég alltaf í hana eða kom í heimsókn eins og tækifæri leyfðu og alltaf þegar eitthvað var að gerast í mínu lífi fannst mér sjálfsagt að láta hana vita af nýjustu afrekunum. Ég á eftir að sakna þess að hringja í hana í framtíðinni. Ég kveð Ingibjörgu með gleði í hjarta fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast henni. Hvíldu þig vel, vinkona, og sjáumst aftur þegar tímanum er náð.

Erica do Carmo Ólason.