Ísland Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Danmörku á dögunum.
Ísland Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Danmörku á dögunum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Vonbrigðin felast fyrst og fremst í því að ná ekki í fleiri stig í riðlakeppni HM og EM.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Vonbrigðin felast fyrst og fremst í því að ná ekki í fleiri stig í riðlakeppni HM og EM. Við þurfum að bæta úr því,“ sagði Geir Þorsteinsson formaður KSÍ í gær þegar Morgunblaðið leitaði eftir viðbrögðum hans við nýjum styrkleikalista FIFA. Þar er karlalandslið Íslands í 122. sæti og hefur það aldrei verið neðar. Liðið fór niður fyrir frændur okkar frá Færeyjum sem og annað evrópskt smáríki, Liechtenstein. Aðeins 5 Evrópuþjóðir eru fyrir neðan Ísland á listanum.

„Þessi staða mótast bara af því hvernig við höfum verið að spila og við hvaða mótherja. Þetta endurspeglar stigaleysi liðsins og kemur ekkert á óvart. Þessi riðill sem við erum að spila í í undankeppni Evrópumeistaramótsins hlýtur að vera einn sá sterkasti sem við höfum spilað í,“ sagði Geir sem bjóst ekki við þessari stöðu þegar Ólafur Jóhannesson var ráðinn landsliðsþjálfari í október 2007, en þá var Ísland í 79. sæti listans, og því 38. af Evrópuþjóðunum.

„Nei, drottinn minn dýri. Við vonumst alltaf til að vinna leiki en maður verður bara að vera raunsær í þessu. Landsliðið hefur verið í lægð í undanförnum mótum og það er kominn tími til að snúa því við. Við þurfum að huga að því hvernig við getum bætt árangur liðsins. Fyrst og fremst snýst þetta um að byggja upp nýjan leikmannahóp og ég horfi björtum augum til framtíðarinnar,“ sagði Geir sem vill ekki segja til um hvort breytingar verði á þjálfaramálum þegar undankeppni EM lýkur í október.

„Ólafur er ráðinn út þessa keppni og það hefur ekki verið tekin ákvörðun um annað,“ sagði Geir.

Á nýja listanum er Spánn í efsta sæti og Holland þar næst á eftir, en þessi lið mættust einmitt í úrslitaleik HM fyrir ári. Hástökkvarar efsta hluta listans eru Mexíkóar sem unnu Gullbikarinn á dögunum. Þeir fóru upp um 19 sæti í 9. sætið.