Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Vilhjálmur Bjarnason, stjórnarmaður í Samtökum stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði, segir að ef Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms í Exeter-málinu svokallaða geti sérstakur saksóknari þess vegna lokað skrifstofunni.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Vilhjálmur Bjarnason, stjórnarmaður í Samtökum stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði, segir að ef Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms í Exeter-málinu svokallaða geti sérstakur saksóknari þess vegna lokað skrifstofunni. „Saksóknari vann sína vinnu mjög vel að mínu mati og málið er einfalt. Ef þessi fráleita niðurstaða verður staðfest þá er borin von að hægt sé að ákæra menn í flóknari málum, til dæmis þeim sem tengjast Glitni,“ segir Vilhjálmur.

Sýknaðir af öllum ákæruliðum

Meirihluti héraðsdóms sýknaði í gær Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Byrs, og Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann sjóðsins, af öllum liðum ákæru í Exeter-málinu, en einn dómari vildi sakfella þá. Þá var Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóri MP banka, sýknaður.

Meirihlutinn taldi að sannað hefði verið að þeir Jón og Ragnar hefðu brotið gegn lánareglum Byrs í ákveðnum atriðum, en hins vegar hefði Ragnari verið heimilt að veita lánið og að ekki hefði verið sýnt fram á að þeir hefðu ætlað sér að misnota aðstöðu sína hjá sjóðnum.

Bótakröfu Byrs á hendur þremenningunum var vísað frá dómi sem opnar fyrir það að höfðað verði einkamál gegn þeim. Vilhjálmur segir hins vegar að það sé undir skilanefnd Byrs komið, því stofnfjáreigendur megi það ekki. Viðskipti