Margrét Guðfinna Guðmundsdóttir fæddist í Grindavík 18. apríl 1949. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 17. júní 2011

Jarðarförin fór fram 24. júní 2011 í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Kæra vinkona, mikið sakna ég þess að sjá þig ekki lengur koma svífandi inn um dyrnar hjá mér og segja, Marta mín, ertu heima, en ég ætla sko ekkert að trufla.Við fengum okkur svo sæti við eldhúsborðið yfirleitt snerir þú bolla sem þú settir á eldavélina til að flýta fyrir þurrkun, síðan var kveikt á kerti sem ég hafði alltaf á borðinu.

Margar góðar samræður áttum við sem snerust nú oftast um börnin okkar og barnabörn, þau áttu hug þinn allan, Magga mín, og fylgdist þú ekki síður vel með minni fjölskyldu. Það sem var þér efst í huga var að gefa öllum gjafir og fengu mín börn að njóta þess og barnabörnin mín fengu líka fallegu teppin sem þú heklaðir.

Þá er mér minnistætt, Magga mín, að þótt þú værir sárkvalin sjálf hafðir þú nú meiri áhyggjur af því hvernig hann Gunnar minn hafði það í sínum veikindum, þú varst alltaf að hugsa um þitt fólk.

Við eldhúsborðið komu oft upp skondnar umræður, minnist ég þess, Magga mín, að ef þér fannst vegið að einhverjum þá gastu haft mjög sterk orð um það sem yfirleitt endaði með því að ég kútveltist um af hlátri því þú varst ekki að skafa utan af hlutunum.

En við áttum líka saman stundir, bæði í sorg og í gleði, eins og gengur og gerist, í dag þakka ég guði fyrir að hafa haft þig til staðar þegar erfiðleikar steðjuðu að og ég gat rætt við þig, alltaf hafðirðu tíma fyrir mig. Það sýnir þitt góða hjartalag að þegar þú varst veik þá spurðu krakkarnir mínir oft, mamma, ertu búinn að heyra í Möggu? Þú varst góð vinkona þeirra og oft settust þau hjá okkur til að spjalla.

Vinátta okkar spannar ekki yfir marga áratugi, bara 13 ár. Á þau á féll aldrei skuggi. Ef við vorum í útlöndum þá bara hringdumst við á.

Magga mín, ég mun nýta mér öll þau góðu ráð sem þú varst búin að gefa mér í garðrækt þegar ég fer í minn garð en þið Gylfi gerðuð tvo glæsigarða við heimilin ykkar og báru þeir merki um gott handbragð ykkar hjóna.

Kæra vinkona, ég kveð þig núna í bili, ég veit að þér líður vel núna, komin til hans Gylfa þíns sem þú saknaðir svo mikið.

Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Marta María

og fjölskylda.