Rauða húsið Iðnaðarmenn eru að leggja lokahönd á Kaffi Rauðku við smábátahöfnina á Siglufirði og byrjað er að máta stafi til að merkja kaffihúsið. Þá eru komnar fram hugmyndir um byggingu hótels við smábátahöfnina.
Rauða húsið Iðnaðarmenn eru að leggja lokahönd á Kaffi Rauðku við smábátahöfnina á Siglufirði og byrjað er að máta stafi til að merkja kaffihúsið. Þá eru komnar fram hugmyndir um byggingu hótels við smábátahöfnina. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Bæjarráð Fjallabyggðar tekur vel í hugmyndir Rauðku ehf. um byggingu hótels við smábátahöfnina á Siglufirði og að stuðla að uppbyggingu á skíðasvæði og golfvelli, auk átaks í umhverfismálum á hafnarsvæðinu. Rauðka ehf.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bæjarráð Fjallabyggðar tekur vel í hugmyndir Rauðku ehf. um byggingu hótels við smábátahöfnina á Siglufirði og að stuðla að uppbyggingu á skíðasvæði og golfvelli, auk átaks í umhverfismálum á hafnarsvæðinu.

Rauðka ehf. hefur byggt upp gömul hús við smábátahöfnina og komið þar upp veitingastað, kaffihúsi og funda- og veislusölum, ásamt útisvæði. Fyrirtækið á lóð hinum megin við höfnina, þar sem söltunarstöðin Sunna var, og hefur áhuga á viðbót við hana til að byggja hótel að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem snúa meðal annars að skipulags- og umhverfismálum á svæðinu og þátttöku í aukinni afþreyingu.

64 herbergja hótel

Hótelið á að vera í tveggja hæða húsi í svipuðum stíl og húsin sem Rauðka hefur gert upp við höfnina, með alls 64 herbergi. Lítil smábátahöfn verður fyrir innan húsið þannig að það verður umlukt smábátum.

Ef allt gengur eftir gætu framkvæmdir við uppfyllingu á lóðinni hafist í sumar.

Finnur Yngvi Kristinsson, verkefnisstjóri hjá Rauðku, segir að aukin afþreying sé mikilvæg til að skapa grundvöll fyrir rekstur hótelsins. Áætlað er að bygging þess kosti yfir 800 milljónir króna.

Bæjarráð Fjallabyggðar lýsir ánægju með þann framkvæmdahug sem fram kemur í áformum Rauðku og tengdra félaga og samþykkir að hefja viðræður við forsvarsmenn félagsins um þau mál sem snúa að bænum. Vill bærinn flýta skipulagsvinnu vegna hótelsins enda muni uppbyggingin skapa störf og framtíðartekjur fyrir bæjarfélagið.

Rauðka býðst til að koma að uppbyggingu nýs níu holu golfvallar í samvinnu við Golfklúbb Siglufjarðar og leggja í það verulegt fjármagn. Einnig uppbyggingu á skíðasvæðinu í Skarðsdal gegn því að gerður verði langtímasamningur um nýtingu þess.