Jóhanna Guðrún Sveinsdóttir fæddist 15. 10. 1932 að Reynivöllum í Suðursveit. Hún lést 21. júní sl.

Foreldrar hennar voru Sveinn Mikael Einarsson (1900 – 1988) og Auðbjörg Jónsdóttir (1896-1993).

Bróðir Guðrúnar var Þorgils Bjarni Sveinsson, fæddur að Sandfelli í Öræfum (1934-1996).

Hjónin Sveinn og Auðbjörg flytja að Sléttaleiti árið 1935, þegar Guðrún er á þriðja ári, og búa þar fram til 1951 að þau flytjast að Dynjanda í Nesjum en þaðan á Höfn í Hornafirði þar sem þau bjuggu til æviloka. Eiginmaður Guðrúnar var Jóhann Karl Stefán Albertsson (1904-1992) hafnsögumaður, frá Lækjarnesi í Nesjum, þau voru gefin saman 1951 og bjuggu fyrst í Lækjarnesi en fluttu 1954 á Höfn.

Fósturdætur þeirra Guðrúnar og Jóhanns eru Jóna Myrtle Ryan (f. 25.11.1955) og Elín Mazelma Ryan (f. 12.8.1954). Vinur Guðrúnar og sambýlismaður um tíma síðustu árin var Jón Jóhannes Sigurðsson (1930-2007).

Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey.

Guðrún Sveinsdóttir fæddist á Reynivöllum í Suðursveit og var aðeins á þriðja ári er foreldrar hennar fluttu að bænum Sléttaleiti, sem stendur í brattri hlíð undir miklum hömrum Steinafjalls, og þykir mörgum bæjarheitið öfugmæli.

Þar bjuggu þau Sveinn og Auðbjörg fyrst í torfbæ með fjósbaðstofu og síðar í nýju steinsteyptu íbúðarhúsi sem þau byggðu sjálf um 1940 með efnivið sem jörðin gaf, rekavið og möl úr fjörunni, allt flutt upp snarbratta hlíðina. Ávallt stóð smiðja við bæjarhúsin og þaðan bergmáluðu hamarshögg og sungu í hömrunum á kyrrum sumarkvöldum, segja sumir að heyra megi högg í steðjanum enn.

Þótt ekki sé sléttlendinu fyrir að fara, þá var Sléttaleiti á sinni tíð ágæt bújörð og fylgdu hlunnindi eins og reki og silungsveiði. Sléttaleitishjónin voru sístarfandi, þekkt fyrir verklag og útsjónarsemi, og þarna ólu þau upp börnin sín, Guðrúnu og Bjarna, allt þar til þau fóru öll alfarin frá Sléttaleiti 1951, Guðrún þá tæplega tvítug yngismær. Nútímafólk getur aðeins gert sér í hugarlund hvernig var að alast upp í torfbæ við ylinn af húsdýrum, en sú kynslóð er ekki öll gengin sem þessu kynntist. Átti Guðrún aðeins góðar minningar um lífið í fjósbaðstofunni, minntist ekki að hafa nokkru sinni verið kalt, hvað þá leitt hugann að fjósalykt, þvert á móti hafi henni liðið vel að heyra í kúnum og finna af þeim yl og ilm. Guðrún giftist árið 1951 Jóhanni Karli Albertssyni hafnsögumanni. Ekki varð þeim barna auðið en tóku í fóstur tvær stúlkur, Jónu og Elínu Ryan.

Guðrún bjó og starfaði á Höfn öll sín fullorðinsár, vann meðal annars í kaupfélaginu á Höfn, en einng rak hún hannyrðaverslun. Eftir að Guðrún missti mann sinn bjó hún um skeið ein, en á efri árum eignaðist hún góðan vin, Jón Sigurðsson (1930 – 2007) og áttu þau ánægjuleg ár saman og naut Guðrún einnig góðra samskipta við fjölskyldu hans.

Guðrún sýndi Sléttaleiti þann sóma að byggja árið 2003 upp bæjarhúsin sem komin voru í rúst, nýtti húsið sem sumardvalarstað og bauð þangað skyldfólki og vinum. Af þeim höfðingsskap sem einkenndi hennar fólk, þótt ávallt væri það lítt efnum búið og ríkidæmi þess frekar mælt í hógværð og lítillæti, ákvað hún síðan að gefa húsið Rithöfundasambandi Íslands í minningu foreldra sinna og bróður, og einnig Einars Braga rithöfundar, en þau voru systkinabörn. Vonaðist hún til að húsið mætti veita skáldum innblástur og þar gætu þeir í framtíðinni dvalið sem frekar yrkja skáldlönd og Bragavelli en hrjóstrugar steinahlíðar.

Guðrún glímdi alla ævi við þunglyndi, en tók því af sama æðruleysinu og einkenndi hana í öðru. Engum vildi hún vera byrði en þurfti nokkrum sinnum að leita sér lækninga til Reykjavíkur þegar þunginn lagðist hvað mest á hana. Setti þetta ákveðinn svip á lífshlaup hennar en hún vann úr því eftir bestu getu. Varð það henni sjálfri mikil lyftistöng að ráðast í að endurbyggja Sléttaleiti og gaman var að upplifa stórhuginn og framkvæmdagleðina og sjá hve þessi áfangi gladdi hana og efldi.

Blessuð sé minning Guðrúnar Sveinsdóttur.

Harpa Björnsdóttir.

Það bar við haustið 2006 að Rithöfundasambandi Íslands barst höfðingleg gjöf: fullbúið, nýuppgert íbúðarhús að Sléttaleiti í Suðursveit. Þar var hvorki að verki banki né auðjöfur, né heldur hið opinbera, heldur kona á áttræðisaldri: Guðrún Sveinsdóttir. Gjöfin var til minningar um foreldra hennar og bróður, en einnig til að heiðra minningu frænda Guðrúnar, skáldið Einar Braga, sem á unglingsárum hafði verið sumarstrákur þar á bæ. Eins og fyrr segir var húsið búið húsmunum, en einnig bókasafni og gögnum sem tengdust höfundarverki Einars Braga. Ekki spillti fyrir að Sléttaleiti er í túnfæti einhvers sögufrægasta bæjar á Íslandi, Hala í Suðursveit, og nágrennið allt því skrifað í þaula af Þórbergi Þórðarsyni. Bærinn stendur hátt í hlíð með útsýni yfir endalaust veraldarhafið og því ekki að undra að Sléttaleiti hefur verið hvalreki mörgum rithöfundi sem þangað hefur sótt ásamt skylduliði til sumardvalar eða vinnutarnar á öllum árstímum.

Og nú þegar Guðrún Sveinsdóttir er kvödd fylgja henni hlýjar kveðjur frá Rithöfundasambandi Íslands og þakkir fyrir höfðingsskap sem lengi verður í minnum hafður.

Pétur Gunnarsson og

Ragnheiður Tryggvadóttir.