Væntingar Þótt byggingariðnaður sé með rólegasta móti segir Jón þörf á að endurnýja eldri glugga. Þá býst hann við að byggingageirinn hljóti að komast aftur af stað á endanum.
Væntingar Þótt byggingariðnaður sé með rólegasta móti segir Jón þörf á að endurnýja eldri glugga. Þá býst hann við að byggingageirinn hljóti að komast aftur af stað á endanum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Sumir myndu kalla það djarft að opna verslun með glugga og hurðir í miðri kreppu og með byggingariðnaðinn í lamasessi. Jón Sveinsson segir hins vegar Gluggavini, sem nýlega opnuðu í Hlíðasmára 11, horfa til lengri tíma.

Sumir myndu kalla það djarft að opna verslun með glugga og hurðir í miðri kreppu og með byggingariðnaðinn í lamasessi. Jón Sveinsson segir hins vegar Gluggavini, sem nýlega opnuðu í Hlíðasmára 11, horfa til lengri tíma. „Við ætlum að gefa okkur næstu tvö-þrjú árin til að byggja fyrirtækið upp og erum fyrst og fremst að spá í framtíðina,“ segir hann.

Og þótt lítið sé um nýbyggingar er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að selja glugga. Gler og gluggakarmar hafa sinn líftíma og gera má ráð fyrir ákveðinni endurnýjunarþörf. „Það er þónokkuð um að fólk sé að skipta um glugga í húsum, og þar sjáum við töluverðan mun á milli landsvæða. Þannig sýnist mér vera meiri framkvæmdagleði úti á landsbyggðinni, hjá bændum og í sjávarplássum,“ segir Jón og ímyndar sér að hærri tekjur í sjómennsku skýri þróunina að hluta.

Jón rekur Gluggavini í samstarfi við tvo félaga sína úr smiðastétt. Jón kallar svo Gísla Eyjólfsson verðmætustu eign fyrirtækisins, en hann verður eini sölumaður Gluggavina, a.m.k. til að byrja með. Þeir kumpánar selja allar tegundir glugga, en leggja mikla áherslu á plastglugga sem smíðaðir eru í Litháen. „Eftir rannsóknarferð og viðræður við aðila þar í landi afréðum við að láta setja gluggana saman þar enda skilar það betra verði,“ segir Jón og lofar því að plastgluggarnir þoli vel íslenskt veðurfar enda séu þeir gerðir úr efnum frá þekktum og virtum framleiðendum.

Bryggjuveiðar skemmtilegar

Þegar Jón er ekki að sýsla í gluggum og gleri þykir honum fátt betra en að renna fyrir fisk. Hann kveðst samt ekki komast í jafnmargar veiðiferðir og hann vildi, enda kosti það orðið óhemjupening. Þá er bara að halda niður á bryggju. „Ein af dætrum mínum, sextán ára gömul, vill endilega fara með pabba sínum niður á bryggju að veiða. Það getur verið mjög skemmtileg iðja og þegar dæturnar voru yngri ferðuðumst við um landið og stöldruðum oft við á bryggjusporðinum á hverjum stað og veiddum marhnút. Sú elsta fékk samt ekki þessi gen og hreinlega tárast af samúð með fiskinum.“

ai@mbl.is