Spennuþrungið andrúmsloft Lögregla stóð vörð um gríska þingið meðan greidd voru atkvæði um niðurskurðartillögur stjórnvalda í gær.
Spennuþrungið andrúmsloft Lögregla stóð vörð um gríska þingið meðan greidd voru atkvæði um niðurskurðartillögur stjórnvalda í gær. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Tillögur franskra stjórnvalda um þátttöku banka í fjármögnun gríska ríkisins falla í góðan jarðveg • Myndi ekki skilgreinast sem greiðslufall hjá matsfyrirtækjum að sögn sérfróðra • Skipst á stuttum ríkisskuldabréfum fyrir 30 ára bréf sem yrðu sett í sérstakt fjárfestingafélag

Fréttaskýring

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Þó að gríska þingið hafi samþykkt aðhaldsaðgerðir stjórnvalda og þar með afstýrt yfirvofandi greiðslufalli er ekki þar með sagt björninn sé unninn. Í raun og veru er óvissan varðandi greiðslufærni gríska ríkisins enn mikil og enn eiga aðildarríki Evrópusambandsins eftir að koma sér saman um með hvaða hætti stjórnvöld í Aþenu verða fjármögnuð til næstu ára. Stefnt er að því að þær tillögur muni liggja fyrir í byrjun næsta mánaðar en gert er ráð fyrir að gríska ríkið þurfi ríflega 100 milljarða evra fyrirgreiðslu, til viðbótar við 110 milljarða neyðarlán sem veitt var í fyrra, til að fá skjól frá fjármálamörkuðum á næstu árum. Það skjól á að nýta í að hrinda umdeildri efnahagsáætlun í framkvæmd sem mun felast í niðurskurði og sölu ríkiseigna á sama tíma og skuldavandi stjórnvalda eykst vegna neyðarlánanna.

Flestir bendir til þess að útfærslan á neyðarlánveitingum verði flókin í framkvæmd. Hún hefur til þessa snúist um að sætta það sem virðist vera andstæð sjónarmið: Þýsk stjórnvöld krefjast þess að fjárfestar grískra ríkisskuldabréfa beri hluta kostnaðarins og reynt verði að forðast að kostnaður vegna neyðarlánsins lendi á skattgreiðendum í öðrum evruríkjum, en Evrópski seðlabankinn og ríki á borð við Frakkland hafa viljað forðast að einkafjárfestar þurfi að taka á sig skell ótilneyddir vegna grísku skuldakreppunnar. Ástæðan fyrir því er sú að það kynni að verða skilgreint sem greiðslufall af matsfyrirtækjunum og gæti því haft stórfelldar afleiðingar fyrir evrópska bankakerfið.

Samkvæmt fréttum er nú verið að ræða útfærslu á aðkomu einkafjárfestingar sem lögð var fram af frönskum stjórnvöldum um síðustu helgi. Útfærslan virðist falla í ágætis jarðveg; þannig hefur til að mynda The Wall Street Journal eftir Charles Dallara, framkvæmdastjóra Institute for International Finance, sem eru hagsmunasamtök 400 stærstu fjármálafyrirtækja heims, að líklegt væri að bankar og fjármálafyrirtæki gætu fellt sig við tillögurnar.

Lenging og sérstakt fjárfestingafélag

Í stuttu máli gengur áætlunin út á að bankar og fjármálafyrirtæki sem eiga grísk ríkisskuldabréf sem eru á gjalddaga á næstu þrem árum skipti á þeim bréfum fyrir lengri bréf að hluta og fái svo tryggingar fyrir greiðslu að fullu. Til einföldunar má segja að eigendur þessara skuldabréfa sem eru á gjalddaga á næstu árum fái greitt 30% út frá grískum stjórnvöldum og að hin 70% fari inn í sérstakt fjárfestingafélag (e. Special Purpose Vehicle) á vegum Evrópusambandsins. Fimmtíu prósent af því sem fer inn í sérstaka fjárfestingafélagið færu í að fjármagna gríska ríkið með kaupum á ríkisskuldabréfum til 30 ára. Skuldabréfin myndu bera 5,5% vexti sem gætu hækkað um 250 punkta til viðbótar yrði hagvöxtur í Grikklandi umfram ákveðin viðmið. Þau 20% sem eftir standa færu svo í að kaupa skuldabréf gefin út af björgunarsjóði ESB á afföllum til tryggingar fyrir því að bankarnir fái greitt af skuldabréfinu.

Ekki greiðslufall og bankar munu fá sitt

Talið er að þessi leið tryggi að matsfyrirtækin muni ekki skilgreina þetta sem greiðslufall gríska ríkisins. Enda felur hún í sér að eigendur skuldabréfanna fái greitt að fullu, auk þess sem hægt verður að líta svo á að ríkistrygging Evrópuríkja á borð við Þýskaland hvíli á hinu sérstaka fjárfestingafélagi.

Auk þess mun þessi áætlun að öllu óbreyttu ekki draga úr skuldsetningu gríska ríkisins að neinu leyti. Grísk stjórnvöld myndu því eftir sem áður þurfa að halda sig við áframhaldandi niðurskurð og aðhald á meðan samkeppnisfærni hagkerfisins er lítil og mun ekki skána fyrr en hægt verður að þrýsta í gegn nægjanlega mikilli lækkun launa sökum þess að gengi evrunnar tekur ekki mið af stöðu mála í gríska hagkerfinu. Rétt eins og áður getur framvinda efnahagsáætlunarinnar farið úr skorðum og þá myndu grísk stjórnvöld enda í nákvæmlega sömu stöðu og þau eru nú.

Margir hafa látið í ljós þá skoðun að vandi gríska ríkisins yrði ekki leystur nema með svipaðri hugmyndafræði og skuldakreppan í Rómönsku-Ameríku var leyst á tíunda áratugnum. Lausnin fólst í því að eigendur ríkisskuldabréfa álfunnar skiptu þeim á afslætti gegn því að fá skuldabréf sem voru tryggð af bandarískum stjórnvöldum og alþjóðastofnunum. Með þessu var hægt að leysa ósjálfbæra skuldastöðu margra ríkja sem svo í mörgum tilfellum gengu í gegnum vaxtarskeið í krafti aukins útflutnings vegna gengislækkunar og bættrar samkeppnisstöðu.

Franska áætlunin virðist ekki tryggja Grikkjum neitt af ofangreindu en ljóst má vera að hún leysir töluverðan vanda fyrir evrópska banka sem sitja uppi með mikið af grískum skuldabréfum.

Leikjafræði skuldakreppunnar

Leitin að jafnvægi John Nash

Financial Toms hefur eftir fræðimönnunum Jean Tirole, Drew Fudenberg, Eric Maskin og Maureen O'Hara að stefnumótandi ákvarðanir ólíkra aðila og stofnana varðandi skuldakreppu Grikklands minni um margt á leit að Nash-jafnvæginu. Það sé flókið undir þessum kringumstæðum og hætt sé við því að margir muni standa á hliðarlínunni meðan atburðarásin hefur sinn gang. Í dálknum Alphaville sem birtist á vef Financial Times segir ennfremur að ekki beri allir jafnt úr býtum í slíku jafnvægi og við fyrstu sýn virðist franska áætlunin koma evrópskum bönkum hvað best – og þá sérstaklega frönskum bönkum, sem eru með stórar stöður í grískum bréfum.