[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fallegum sumardegi í fyrra ákvað eiginkona mín að bregða sér í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn með son okkar.

Á fallegum sumardegi í fyrra ákvað eiginkona mín að bregða sér í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn með son okkar. Eitthvað var ég vant við látinn þennan dag, líklega í vinnunni, þannig að ég varð að eftirláta þeim mæðginum að skemmta sér Ívarslausum í þessum annars prýðisgóða lystigarði.

Framlag mitt til þessarar ferðar var þó töluvert, því fyrir hana rétti ég eiginkonu minni árskort í garðinn, sem gilti fyrir alla fjölskylduna. Kortið hafði ég keypt einhvern tímann haustið áður, í einni af fjölmörgum ferðum fjölskyldunnar í garðinn sem er kenndur við hana og önnur húsdýr.

Kona mín framvísaði korti þessu, án árangurs. Afgreiðslukonan vildi ekkert kannast við snepilinn, þótt konan mín reyndi eitthvað, af veikum mætti, að klóra í bakkann. Hún varð því að bíta í það súra epli að borga sig inn í garðinn í þetta skiptið.

Þetta blöskraði mér mjög, þegar ég heyrði frásögnina um kvöldið. „Hverskonar framkoma er þetta hjá starfsmönnum þessa apparats? Þessi hefur greinilega verið ný í starfi. Hvað sagðirðu við konuna?“ spurði ég eiginkonu mína.

Sem betur fór æsti hún sig ekki yfir þessari dæmalausu frammistöðu hjá óvönum starfsmanninum, því þegar ég skoðaði kortið nánar mundi ég að það var árskort í sundlaugar Kópavogs. Ég hafði sent eiginkonu mína í svaðilför fáránleikans, sett skynsemi hennar og áreiðanleika að veði, í algleymi og fullvissu hins aðsjála og alvitra fjölskylduföður.

Það er ekki á hverjum degi, sem maður getur framlengt fávitaskap sinn í gegnum þá sem maður elskar mest og látið þá gera sig að fífli á almannafæri, án þess að maður komi nokkuð físískt við sögu á þeirri stundu. Þetta er ákjósanlegt fyrirkomulag. Ég hef getað vanið komur mínar í Fjölskyldugarðinn síðan þetta gerðist, alls óbeygður af þessari skömm, gleiður og glaður, eins og ég hafi aldrei reynt að framvísa árskorti í sundlaugar Kópavogs í miðasölunni. Eiginkona mín hefur gleypt í sig alla þá skömm og þurft að horfast í vökul augu við starfsfólkið, í hvert skipti sem leið okkar hefur legið í garðinn núna í sumar.

Við fórum til að mynda í garðinn um síðustu helgi, á alþjóðlega strumpadeginum. Þegar garðurinn var opnaður um morguninn höfðu starfsmenn falið í honum hundrað litlar strumpadúkkur, sem fundvísir gestir gátu framvísað og fengið bíómiða fyrir. Þegar við komum inn í garðinn mættu okkur unglingar með fangið fullt af þessum skemmtilegu karakterum. Ballið var búið.

Ég dó þó ekki ráðalaus heldur vippaði af krafti á herðar mér risastórum strumpi, sem stóð þarna á spjalli við krakkahóp, hljóp með hann í miðasöluna og gerði mína réttmætu kröfu um bíómiða. Undirtektirnar voru dræmar – bæði hjá strumpi, sem barðist um á hæl og hnakka og hjá starfsfólki miðasölunnar. Enn einn mínusinn í kladdann hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þessu batteríi.