„Að ná sér aftur á strik snýst umfram allt um að leita sér aðstoðar og fá lánaða dómgreind hjá öðrum,“ segir Bjarni Ara.
„Að ná sér aftur á strik snýst umfram allt um að leita sér aðstoðar og fá lánaða dómgreind hjá öðrum,“ segir Bjarni Ara. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bjarni Ara fagnar fertugsafmælinu með tónleikum. Var mikið áfall að missa vinnuna árið 2008 en hann fann stuðning hjá vinum og afréð að skella sér í nám.

Það má segja að tónlist Elvis Presleys hafi vakað yfir Bjarna Arasyni allt frá því hann steig sín fyrstu skref sem tónlistarmaður. „Ég byrjaði mitt tónlistarnám 9 ára gamall, og lærði að spila á trompet. Svo nokkrum árum síðar ákveðum við nokkrir strákarnir í tónlistarskólanum að stofna hljómsveit. Það vantaði gítarleikara svo ég fjárfesti í gítar og byrjaði að læra gripin. Svo reyndist líka vanta einhvern til að syngja og það féll einhvern veginn í minn hlut. Síðan gerðist það að okkur áskotnaðist bók með öllum bestu lögum Presleys og meira að segja með myndum af gítarhljómunum,“ segir Bjarni um það hvernig hann fór að spreyta sig á verkum kóngsins 14 ára gamall.

„Við æfðum uppi í Breiðholtsskóla og svo gerist það einn daginn að maður birtist í salnum og sest niður til að hlusta. Við ætluðum varla að þora að halda áfram að spila af feimni. Svo gefur hann sig á tal við okkur og spyr hvort við værum ekki til í að koma og flytja nokkur lög í Sjónvarpinu.“ Og þannig atvikaðist það að tónlistarmaðurinn Bjarni Ara kom fyrst fyrir sjónir almennings í þættinum Unglingarnir í frumskóginum og flutti þar tvo Elvis-smelli með vinum sínum.

Að gera það sem mann langar

Elvis-taugin er enn sterk hjá Bjarna og á fertugsafmælisdaginn sinn, 13. júlí, heldur hann Elvis gospel-tónleika í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Þar er hann að endurtaka tónleika frá 26. maí en aðsóknin þar fór fram úr björtustu vonum svo húsakynnin fylltust. Bjarni leggur á það áherslu að hann sé engin Elvis-eftirherma heldur fyrst og fremst flytjandi og syngi lögin á sinn hátt. „Þessi lög eiga það sameiginlegt að hafa orðið fræg í flutningi Elvis, en þarna er að finna verk sem margir aðrir hafa spreytt sig á og Elvis var ekki endilega fyrstur til að syngja.“

Umfram allt segist Bjarni vera að láta gamlan draum rætast. „Þetta er eitthvað sem mig hefur langað til að gera lengi og ég er farinn að styrkjast æ betur í þeirri skoðun að maður eigi að gera það sem mann langar og vera ekkert að pæla of mikið í öðru.“

Fertugsafmælið er ekki einu stóru tímamótin í lífi Bjarna á þessu ári því í mars náði hann þeim merka árangri að ljúka stúdentsprófi. Tónlistarframinn fór á fullan skrið þegar Bjarni var ekki nema 15 ára og sigraði í söngkeppni Stuðmanna, Látúnsbarkanum , í beinni útsendingu frá Tívólíinu sáluga í Hveragerði. Milli söngsins og farsæls frama í útvarpi og fjölmiðlun gafst aldrei tími til að ljúka námi. Bjarni kláraði dæmið á hálfu öðru ári hjá Keili og í ágúst hefur hann svo nám í lögfræði við HR.

Leitaði hjálpar hjá vinum

Að setjast aftur á skólabekk á miðjum aldri, með maka og tvö börn, er ekki lítil áskorun, en Bjarni ákvað að taka af skarið þegar honum var sagt upp störfum hjá 365 miðlum þar sem hann var dagskrárstjóri. Bjarni segir atvinnumissinn eðlilega hafa verið mikið áfall. „Það er mikið högg, og hvað þá vitandi að maður hefur verið duglegur og fylginn sér, hugsað um fyrirtækið eins og maður ætti það sjálfur. Þegar maður fær reisupassann er erfitt að skilja hvernig á því stendur eða hreinlega hvað hefur gerst. Þetta er hálfpartinn sorgarferli sem þarf að ganga í gegnum.“

Bjarni segir það hafa hjálpað sér mikið að geta leitað ráða og stuðnings hjá góðu fólki. „Að ná sér aftur á strik snýst umfram allt um að leita sér aðstoðar og fá lánaða dómgreind hjá öðrum. Það breytti miklu fyrir mig að vinur minn, sem starfar sem prestur, kom að tali við mig og breytti nánast hjá mér hugarfarinu á einum degi,“ segir Bjarni. „Það geta allskonar hlutir hent mann í lífinu, og margt verra getur gerst en að missa vinnuna. Maður þarf að sætta sig við að sumu verður ekki breytt, en um leið skilja að tækifærin eru til staðar, og það er ekki undir neinum öðrum komið en manni sjálfum hvort fyrir valinu verður að fara út í þunglyndi og niðurbrjótandi hegðun, eða að lyfta sér upp úr stöðunni sem komin er upp.“

ai@mbl.is

Varð stjarna 15 ára

Þeir sem halda að Idolið sé eitthvað nýtt eru búnir að gleyma sjónvarpsævintýri Stuðmanna, Látúnsbarkanum, þar sem frægðarstjarna Bjarna Ara byrjaði að skína. „Það vakti athygli að ég, yngsti keppandinn, aðeins 15 ára gamall, var með umboðsmann. Það var skólabróðir minn Hjalti Þorsteinsson sem tók það að sér og raunar skráði hann mig í keppnina að mér forspurðum enda hafði ég ekki þorað að skrá mig sjálfur.“

Keppnin fór þannig fram að leitað var að besta söngvaranum í hverjum landshluta og það atvikaðist þannig að plássin fyrir hæfileikafólk úr Reykjavík fylltust svo Bjarni keppti fyrir hönd Keflavíkur, þó hann hefði aldrei svo mikið sem gist þar yfir nótt. Bjarni man enn vel eftir 5. júlí 1987 þegar hann bar sigur úr býtum í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins úr Tívólíi í Hveragerði. „Menn eru enn þann dag í dag að spyrja mig hvernig það sé að búa í Bítlabænum.“