„Við veljum ekki litina fyrir fólk en hjálpum því auðvitað og ráðleggjum ef eftir því er kallað.“
„Við veljum ekki litina fyrir fólk en hjálpum því auðvitað og ráðleggjum ef eftir því er kallað.“ — Morgunblaðið/Ómar
Þetta er ekki bara að fara út með pensilinn og æfa sig á einhverjum vegg.

Ekki allir gera sér grein fyrir því að það er töluvert sem leggja þarf á sig til að verða málarameistari. Þetta eru fjögur ár í sveinspróf og síðan þrjár annir í meistaraskólanum sem Tækniskólinn sér um,“ segir Bjarni Þór Gústafsson, málarameistari og eigandi Litamálunar. Námið er hvort tveggja verklegt og bóklegt með áherslu á t.d. efnafræði. „Þetta er ekki bara að fara út með pensilinn og æfa sig á einhverjum vegg.“

Oft ódýrara að fá sér fagmann

Þegar horft er í kostnaðinn við málningarvinnu spara margir við sig að ráða fagmenn í verkið. Bjarni telur það mistök að leita ekki til fagmanna enda geti þeir oftar en ekki hjálpað fólki að gera verkið ódýrara og endingarbetra. „Eðlilega heldur fólk oft að það sé dýrara að ráða fagmann í verkið. Það sem ekki allir gera sér grein fyrir er að við undirbúning og efnaval er gott að hafa fagmann sér við hönd og við spörum fólki tíma og vinnum okkar verk vel sem tryggir betri endingu,“ segir Bjarni og bætir við að fagmenn hjálpi fólki í upphafi við að meta hversu umfangsmikið verkið er og setji upp kostnaðaráætlun og vinni fyrir fólk verklýsingu í stærri framkvæmdum.

Efnaval er mikilvægur þáttur í öllum málningarframkvæmdum og er málningameistarinn sérfræðingur sem veit hvaða efni þarf í verkið. „Það er ekki sama hvaða efni er notað. Þú getur keypt hin og þessi efni frá mismunandi söluaðilum. Margir sem ætla að spara við sig kaupa ódýr efni sem enda síðan á því að kosta fólk meira vegna þess að það þarf meira af þeim á flötinn og þau endast ekki vel. Það eru líka til dýrari efni sem eru ekki góð og því skiptir miklu máli að velja rétt efni,“ segir Bjarni og bætir því við að fagmenn séu fljótir að sjá hvað þarf mikið af hverju efni og hafi þekkingu á litavali. „Við hjálpum fólki að velja liti og erum með flotta bæklinga frá málningaverksmiðjunum.“

Efni sem auðvelt er að þrífa

Flestir gera þá kröfu að auðvelt sé að þrífa skít og drullu sem óhjákvæmilega sest á sérstaklega glugga og hurðir þar sem umgangur er mikill. „Akrýllakkið er að taka yfir af olíulakkinu í dag, aðallega vegna kröfu um heilsuverndarsjónarmið. Það er hægt að fá efni í verslunum sem er auðvelt að þrífa og fólk á að leita sér ráða hjá fagmönnum hvort sem það eru sérfræðingar í málningarverslunum eða málarameistarar um efnaval á fleti sem mikið er gengið um.“

Efnisval málningar hefur líka áhrif á áferðina og útlitið. „Þegar kemur að áferð og útliti er þetta frekar spurning um smekksatriði hvers og eins. Við aðstoðum fólk auðvitað að velja rétt efni til að fá þá áferð sem það sækist eftir,“ segir Bjarni.

Kalkmálning hefur verið að komast aftur í tísku og segir Bjarni að hún sé töluvert gróf og fólk geti lent í því þegar það ætlar að mála sama flöt seinna með venjulegri málningu að þá sé flöturinn grófari og því mikilvægt að kynna sér aðstæður áður en það veður af stað.

Litirnir og tískan

„Við veljum ekki litina fyrir fólk en hjálpum því auðvitað og ráðleggjum ef eftir því er kallað,“ segir Bjarni. Hann segir litatískuna fara í hringi og sömu litirnir komi alltaf aftur. „Íslendingar eru mikið í ljósum litum núna og bara almennt. Annars fer þetta í hringi og fólk fer í sterkari liti en það gengur aftur til baka í ljósu litina.“

vilhjalmur@mbl.is