Lancer: Hnökrar í skiptingu Spurt : Ég er í smá basli með Lancer 1600 '98 ekinn um 175.000 km. Sjálfskiptingin hætti að skipta upp fyrr en í 5-6000 snúningum, og þá yfirleitt með höggi. Í fyrstu gerðist þetta sjaldan.

Lancer: Hnökrar í skiptingu

Spurt : Ég er í smá basli með Lancer 1600 '98 ekinn um 175.000 km. Sjálfskiptingin hætti að skipta upp fyrr en í 5-6000 snúningum, og þá yfirleitt með höggi. Í fyrstu gerðist þetta sjaldan. Ég bý úti á landi og fór með bílinn á umboðsverkstæði fyrir Mitsubishi. Þeir lögðu til að vökvi og sía yrði endurnýjuð sem ég lét gera. Við það versnaði ástandið því nú skiptir hann sér aldrei eðlilega.

Vonandi er skiptingin ekki að gefa sig því svona skipting fæst ekki á partasölu lengur. Hvað getur verið að og hvernig er ráðlegast að bregðast við?

Svar: Þú skalt forðast öll bætiefni nema sérfræðingur í sjálfskiptingum mæli með sérstöku efni. Líklegasta orsökin er sú að fleiri en einn spóluloki er stirður eða fastur í ventlaboxinu. Taka þarf boxið úr skiptingunni og fá það liðkað upp hjá sérfræðingi, t.d. Bifreiðastillingu á Smiðjuvegi í Reykjavík (Pétur Oddgeirsson) eða hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss. Þetta er hægt að gera án þess að skiptingin sé tekin úr bílnum. Ventlaboxið er tekið úr og sent til viðgerðar. Það er ekki sama hvernig að því verki er staðið, annars vegar eru lausar kúlur á ákveðnum stöðum í ventlaboxinu sem passa verður upp á að fari ekki á flakk eða týnist og hins vegar þarf að ganga vel frá skiptingunni til að ryk komist ekki í hana á meðan verið er að gera við ventlaboxið hér fyrir sunnan.

Engin kæling í bílnum

Spurt: Ég á Volvo S60 af árg. '05 með loftkælingu í farþegarýminu. Þegar ég ætlaði að grípa til hennar til að kæla innanrýmið eftir að bíllinn hafi staðið í sól virkaði kerfið ekki, blés bara volgu. Á bensínstöð var mér sagt að sérstakur kælivökvi, sem á að vera á kerfinu, hefði gufað upp og fylla þyrfti á það með sérstökum tækjum. Til hverra á maður að snúa sér til að fá þá þjónustu án þess að hún kosti „augun úr“ eins og stundum er sagt?

Svar: Loftkælikerfi í bílum (Air conditioner) er sams konar og í kæliskápum á heimilum. En vegna hreyfingar bílsins geta tengingar losnað og lekið auk þess sem lekið getur út með pakkdós á frystiþjöppu, sérstaklega sé kerfið lítið notað. Þá þarf að endurfylla kerfið með sérstökum vökva undir þrýstingi. Það er gert með sérhæfðum búnaði. Auk þess er sérstakt tæki (ljósi) notað til að greina leka í kerfi bíls. Eitt þeirra sérhæfðu fyrirtækja sem veita þessa þjónustu, á verði sem þolir dagsljós, er Íshúsið á Smiðjuvegi í Kópavogi (í sama húsi og N1-verslunin). Panta þarf tíma í síma 566 6000. Áfyllingin tekur stutta stund.

160 þús. kr. súrefnisskynjari í Mazda!

Spurt: Ég ek Mazda 6 árg. '07. Fremri súrefnisskynjarinn er bilaður. Hann kostar 160 þúsund í umboðinu. Getur þú gefið mér upplýsingar um hvar ég gæti fengið ódýrari skynjara? Er í lagi að keyra bílinn svona?

Svar: Þú færð súrefnisskynjara fyrir 13-15 þús. kr. hjá Stillingu eða N1. Málið verður auðveldara hafir þú eldri skynjarann með í verslunina. Talaðu við þá hjá Olís-smurstöðinni í Sætúni (sértu í Rvk.) og fáðu þá til að skoða þetta fyrir þig – þeir eru liprir við að aðstoða fólk við ýmsar smærri viðgerðir. Gangi vélin án þess að drepa á sér má aka bílnum svona en dragðu samt ekki viðgerðina.

Hve gömul er loftsían?

Meðalakstur fólksbíls í rykmengun á höfuðborgarsvæðinu þýðir að venjuleg loftsía vinnur með viðunandi virkni eitt ár. Sé hún notuð lengur eykst viðnám í síunni vegna mettunar; vélin fær minna súrefni, brunanýting vélarinnar minnkar, eyðslan eykst og bíllinn verður draugslegri í akstri. Því borgar sig að endurnýja loftsíuna árlega.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)