Álegg Erfitt er að átta sig á verði áleggsbréfa í verslunum í dag.
Álegg Erfitt er að átta sig á verði áleggsbréfa í verslunum í dag. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Neytendasamtökin taka við mjög mörgum kvörtunum þessa dagana vegna ófullnægjandi verðmerkinga á kjötvörum í verslunum. Frá og með 1. júní síðastliðnum voru forverðmerkingar á kjötvörum bannaðar.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Neytendasamtökin taka við mjög mörgum kvörtunum þessa dagana vegna ófullnægjandi verðmerkinga á kjötvörum í verslunum. Frá og með 1. júní síðastliðnum voru forverðmerkingar á kjötvörum bannaðar. Þær mega ekki koma verðmerktar í verslanir frá kjötiðnaðarstöðvum heldur eiga verslanirnar að sjá um að verðmerkja sjálfar.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir tvennt vera aðallega að hjá verslununum. „Í fyrsta lagi er skylda að upplýsa um kílóverð og lítraverð á öllum vörum í verslunum. Við fáum mikið af kvörtunum út af því að kílóaverð vanti eða að vörurnar séu þannig settar upp að það sé mjög erfitt fyrir neytendur að átta sig á því við hvaða vöru er átt. En í reglunum segir að það skuli vera alveg greinilegt við hvaða vöru er átt varðandi hvert kílóverð.

Í öðru lagi vantar of margar verslanir skanna sem þýðir að neytandinn fær ekkert að vita um verð vörunnar fyrr en komið er að kassa og það er með öllu óásættanlegt og er einnig brot á reglum sem Neytendastofa hefur sett varðandi verðupplýsingar. Þeir sem hringja inn til okkar segja að þeir kaupi ekki vörurnar vegna þess að þeir vita ekki hvað þær kosta,“ segir Jóhannes.

Verðmerking og skannar

Það var Samkeppniseftirlitið sem bannaði forverðmerkingar á vörum og segir Jóhannes Neytendasamtökin ætlast til þess að þar verði þessu komið í lag. „Það var mat Samkeppniseftirlitsins að forverðmerkingar væru brot á samkeppnislögum. Í kjölfar þess breytti Neytendastofa sínum reglum til þess að koma til móts við þetta bann. Við ætlumst til að Samkeppniseftirlitið og Neytendastofa, sem gefur út reglur um verðmerkingar og á að fylgja þeim eftir, sjái til þess að það sé farið eftir þeim. Þessir aðilar eiga að fylgjast mjög vel með þessari þróun og grípa til nauðsynlegra aðgerða þegar þörf krefur. Ég tel fulla þörf á að Neytendastofa og Samkeppniseftirlitið, miðað við þann mikla urg sem er úti í samfélaginu, fari yfir þetta mál og kanni hvaða leiðir eru til úrbóta þannig að það sé komið til móts við eðlilegar kröfur neytenda, að þeir viti nákvæmlega hvað varan kostar.

Ef verslanir eru gagngert að sniðganga þessar nýju reglur á Neytendastofa hreinlega að byrja að sekta verslanir sem eru ekki búnar að koma þessu í lag því aðlögunartíminn var alveg nægjanlegur.“

Spurður hvað sé til ráða svarar Jóhannes að verslanir geti meðal annars tekið upp á því að nýju að verðmerkja vörur sínar. Skannar sem sýna hversu mikið hver vara kostar hafa líka verið settir upp víða í verslunum. Margir neytendur hafa kvartað undan þessu fyrirkomulagi og þykir óþægilegt að geta ekki séð á einfaldan hátt hvert verðið er. „Samkvæmt nýjum reglum Neytendastofu eiga skannarnir að vera þar sem kjötvörurnar eru. Það á ekki að þurfa að labba nema nokkur skref í mesta lagi að skannanum. Þar sem er mikil traffík eiga að vera fleiri en einn skanni,“ segir Jóhannes.