„Talsvert er um að við séum að setja metankerfi til dæmis í ameríska eyðslufreka fólksbíla," segir Gísli Sverrisson.
„Talsvert er um að við séum að setja metankerfi til dæmis í ameríska eyðslufreka fólksbíla," segir Gísli Sverrisson. — Morgunblaðið/Ernir
Megas ehf. sér um uppfærslu á alls 49 nýjum bílum sem Reykjavíkurborg keypti á dögunum. Borgin auglýsti eftir tilboðum í 49 bifreiðar með tvíeldsneytisvél, sem gengur fyrir metani og bensíni. Ingvar Helgason ehf./Bifreiðar og landbúnaðarvélar ehf.

Megas ehf. sér um uppfærslu á alls 49 nýjum bílum sem Reykjavíkurborg keypti á dögunum. Borgin auglýsti eftir tilboðum í 49 bifreiðar með tvíeldsneytisvél, sem gengur fyrir metani og bensíni. Ingvar Helgason ehf./Bifreiðar og landbúnaðarvélar ehf. áttu lægsta tilboðið með Hyundai i10 bifreiðum.

Auka loftgæði

Bifreiðakaupin eru stórt skref í átt að þeim markmiðum borgarinnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka loftgæði borgarinnar. Auk þess er rekstrarkostnaður slíkra bíla mun lægri en sambærilegra bensínbíla, þar eð metangasið kostar nú nær helmingi minna en bensín og munar um slíkt nú þegar bensínverð er í hæstu hæðum.

Megas ehf. hóf starfsemi í október síðastliðnum og sérhæfir sig í sölu, ísetningu og þjónustu á metaneldsneytiskerfum frá ítalska framleiðandanum Lovato.

„Það hefur verið mikið að gera hjá okkur að undanförnu. Bæði erum við að breyta fyrirtækjabílum en einnig í talsverðum mæli stórum og eyðslufrekari fólksbílum,“ segir Gísli Sverrisson framkvæmdastjóri. „Talsvert er um að við séum að setja metankerfi til dæmis í ameríska eyðslufreka fólksbíla en eigendur þeirra líkt og aðrir horfa bæði í að hægt sé að spara eldsneyti og að breytingarnar á bílnum, sem kosta 400 þúsund kr. eða þaðan af meira, fást að hluta til endurgreiddar hjá tollstjóra undir formerkjum umhverfisbóta. Hingað til hefur metangas á bíla aðeins fengist hér í Reykjavík en nú stendur til að koma upp stöðvum á Akureyri enda fáum við sífellt fleiri fyrirspurnir þaðan.“

Breitt úrval bíla

Magas hefur séð um metanuppfærslu á breiðu úrvali bifreiða, allt frá fjögurra til tíu strokka véla, fólksbíla, jeppa, pallbíla, sendibíla og húsbíla. Við ísetningu og frágang er litið til ströngustu öryggiskrafna og hagkvæmni fyrir bíleigandann.

Starfsemi Megas er í Skeifunni 5 þar sem útbúið hefur verið verkstæði með áherslu á metanuppfærslur. Starfsmenn hafa hlotið ítarlega þjálfun frá framleiðanda og vottanir þess efnis. Eigendur Megas ehf. eru Almenna bílaverkstæðið ehf. og Gísli Sverrisson.

sbs@mbl.is