Coverdale Meðalmaður?
Coverdale Meðalmaður? — Morgunblaðið/Golli
Vinur minn og vinnufélagi hér í Móunum, Kristján Jónsson frá Bolungarvík, móðgaðist heiftarlega fyrir mína hönd á dögunum.

Vinur minn og vinnufélagi hér í Móunum, Kristján Jónsson frá Bolungarvík, móðgaðist heiftarlega fyrir mína hönd á dögunum. Kappinn var þá á öruggri siglingu vestur Miklubrautina á sínum eðalvagni eftir að hafa lóðsað þjóðina af kostgæfni um undraheim íshokkísins á vaktinni. Var hann að vanda með stillt á Gullbylgjuna í þeirri veiku von að goðunum í Creedence Clearwater Revival yrði lætt undir nálina.

Svo fór því miður ekki að þessu sinni en í staðinn fékk Kristján yfir sig holskeflu af hármálmi. Ekki svo að skilja að hann kynni því illa, Vestfirðingar eru almennt elskir að rokki. Þekki ég Kristján rétt hefur búkurinn brotist um í bílnum þegar gamli Whitesnake-slagarinn Here I Go Again náði hámarki.

Á því augnabliki hefur Tawny Kitaen staðið Kristjáni ljóslifandi fyrir sjónum – á silkináttkjólnum.

En þá kom kinnhesturinn, laginu var nefnilega fylgt í höfn með annarlegri auglýsingu frá tonlist.is: „Til eru betri lög en þetta!“

Hvurslags? Hvenær varð Here I Go Again mælikvarði á meðalmennsku í þessum heimi? Vísaði Kristján málinu að vonum umsvifalaust til Hins íslenzka málmvísindafélags. Það mótmælir hér með – hástöfum!

Orri Páll Ormarsson