Sveigjanleiki Guðmundur segir skýið geta skapað aukið öryggi. Ef vinnutölvan glatast hverfa ekki með henni gögn og vinna starfsmannsins. Halda má áfram að vinna órofið í næstu tölvu.
Sveigjanleiki Guðmundur segir skýið geta skapað aukið öryggi. Ef vinnutölvan glatast hverfa ekki með henni gögn og vinna starfsmannsins. Halda má áfram að vinna órofið í næstu tölvu. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Guðmundur Arnar Þórðarson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja, segir það opna nýja möguleika í fjarvinnu að nýta sér „skýið“ (e. cloud computing).

Guðmundur Arnar Þórðarson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja, segir það opna nýja möguleika í fjarvinnu að nýta sér „skýið“ (e. cloud computing). Mikið hefur verið talað síðustu ár um þessa nýju nálgun við að leysa hugbúnaðarþarfir fyrirtækja en að sögn Guðmundar vantar enn nokkuð upp á að íslenskir aðilar nýti sér skýið til fullnustu. Nýherji hélt á dögunum vel sótta ráðstefnu um möguleika skýsins og var með þeim fyrstu hér á landi til að bjóða upp á ský-lausnir.

„Í sinni einföldustu mynd snýst skýið um að útstöð og forrit starfsmannsins eru sýndarvædd. Það þýðir að svo lengi sem hægt er að tengjast netinu getur hvaða tölva sem er orðið að vinnustöð,“ segir hann. „Ég get sest við tölvuna hans afa gamla og með nokkrum smellum byrjað að vinna og haft öll sömu forrit og gögn til taks og ég er vanur.“

Hægt er að tvinna saman lausnir í skýinu og hefðbundin forrit í hverri tölvu. Þannig getur t.d. ritvinnsla farið fram í ský-forriti, eða í dæmigerðu ritvinnsluforriti, og starfsmaður flutt og sótt gögn þar á milli eins og hann þarf. Guðmundur nefnir Facebook sem dæmi um ský-lausn, enda fer engin gagnavinnsla fram hjá notandanum né þarf hann að hlaða niður forritum; hann þarf bara að slá inn lykilorð og hefur þá aðgng að allskyns samskiptaleiðum, gögnum og tæknilegum lausnum til að létta sér lífið.

Léttur leikur að tengjast

Með því að nota skýið á að vera hægt að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum að halda sambandi og sinna verkefnum í fríinu, að ekki sé talað um að auðvelda fólki að vinna heima. Þar segir Guðmundur m.a. komna skýringuna á því hvers vegna ský-lausnir séu meira notaðar af fyrirtækjum erlendis, enda geti það t.d. sparað starfsmönnum ferðir til og frá vinnu, og eins hentað vel þar sem starfsfólkið þarf mikið að vera á ferðinni milli ólíkra markaðssvæða.

Að nota skýið getur líka þýtt meira öryggi. „Hættan er sú, ef starfsmaður t.d. glatar tölvu eða hún skemmist, að bæði tapist gögn og vinna. Sama hætta er ekki til staðar ef unnið er í skýinu. Þá þarf ekki heldur að setja upp öll forrit á nýrri tölvu, sem kallað getur á mikið umstang, heldur getur starfsmaðurinn sest við hvaða tölvu sem er og tekið upp þráðinn í skýinu þar sem frá var horfið.“

Ef ekki er hægt að tengjast netinu, t.d. um borð í flugvélum, þarf það ekki að þýða glataðar vinnustundir. „Hægt er að taka verkefni eða hugbúnað út úr sýndarútstöð tímabundið, og vinna áfram án netsambands ef þess þarf.“ ai@mbl.is