Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær þá Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann Byrs sparisjóðs, Ragnar Z.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær þá Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann Byrs sparisjóðs, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóra og Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóra MP Banka, í Exeter-málinu. Allir þrír dómararnir voru sammála um að sýkna bæri Styrmi, en einn dómari vildi hins vegar sakfella þá Jón og Ragnar.

Meirihlutinn kemst reyndar að þeirri niðurstöðu í rökstuðningi sínum að Jón og Ragnar hefðu brotið gegn útlánareglum Byrs þegar þeir ákváðu að lána Tæknisetrinu Arkea (sem síðar varð Exeter Holdings) 800 milljónir króna til að kaupa stofnfjárbréf í Sparisjóðnum af starfsmönnum og stjórnarmönnum eða félögum í þeirra eigu. Það leiddi hins vegar ekki til sakfellingar.

Þeir hefðu ekki metið greiðslugetu eða eignastöðu lántakans og þá hefðu þeir verið vanhæfir til að ákveða lánveitinguna þar sem hún varðaði viðskipti þeirra sjálfra. Hins vegar hefðu þeir verið bærir til að taka ákvörðun um lán vegna kaupa á bréfum annarra starfsmanna sjóðsins.

Í rökstuðningi meirihlutans segir að þegar lagt sé mat á hvort ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum eins og þeir eru ákærðir fyrir verði að skera úr um hvort ásetningur þeirra hafi staðið til þess. Ragnar hafi haft heimild til að veita lánið og þá sé óvarlegt að líta svo á að ekki hafi verið tekið fullnægjandi veð fyrir láninu.

Þegar litið er til þessa er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að ákærðu hafi mátt vera ljóst að Byr myndi bíða fjártjón af lánveitingunni og beri að sýkna þá.

Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari, skilar hins vegar sératkvæði þar sem hún fellst á þá niðurstöðu meirihlutans að sýkna beri Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóra MP banka, af öllum liðum ákæru, en er ósammála meirihlutanum hvað varðar sýknu þeirra Jóns og Ragnars.

Segir í sératkvæðinu að ólíkt meirihlutanum telji hún að þeir hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og að lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga.

Það að Ragnar hafi haft heimild til að lána einn allt að 1,5 milljarða króna og ganga þvert gegn lánareglum stangist á við framburð Ragnars hjá sérstökum saksóknara, þar sem hann sagðist ekki hafa haft slíka heimild. Þá hafi veðin fyrir lánunum verið óviss og því hafi verið um áhættusama lánveitingu að ræða.