Geir Þorsteinsson
Geir Þorsteinsson
„Það er alls staðar rætt um dómaramál, hvort sem það er í Meistaradeildinni, ensku deildinni eða íslensku. Auðvitað eru sveiflur í dómgæslu eins og öðru.

„Það er alls staðar rætt um dómaramál, hvort sem það er í Meistaradeildinni, ensku deildinni eða íslensku. Auðvitað eru sveiflur í dómgæslu eins og öðru. Við vinnum að því að bæta dómarahópinn okkar en það er vissulega staðreynd að við erum ekki með sérstaklega reyndan dómarahóp í dag,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Morgunblaðið í gær, spurður um stöðu dómaramála á Íslandi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um dómgæslu í íslensku deildunum í sumar og mál manna að hún hafi oftast verið betri. Geir segir meiri reynslu vanta í dómarahópinn en stöðugt sé unnið að því að bæta dómgæsluna.

„Það hafa verið örar breytingar á hópnum á síðustu árum og það tekur sinn tíma. Mistök dómara verða samt alltaf hluti af leiknum, á öllum stigum fótboltans.“

Þrír íslenskir dómarar dæma í Evrópudeild UEFA á næstu dögum, ásamt íslenskum aðstoðardómurum, og þá hefur Kristinn Jakobsson dæmt í sjálfri Meistaradeildinni.

„Auðvitað viljum við bæta dómgæsluna og það er eitthvað sem er sífellt unnið í. Við höfum engu takmarki náð í því. Við eigum dómara eins og Kristin sem er mjög framarlega í Evrópu, og við þurfum að eignast fleiri slíka. Það er markmiðið,“ sagði Geir. sindris@mbl.is