„Við Íslendingar erum svolítið hvítir. Litagleðin mætti oft vera meiri þó að hún sé ekki alltaf af hinu góða,“ segir Helga Lund.
„Við Íslendingar erum svolítið hvítir. Litagleðin mætti oft vera meiri þó að hún sé ekki alltaf af hinu góða,“ segir Helga Lund. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í uppsveiflunni fyrir hrun var meira um gráa liti og fólk valdi sér húsgögn í stíl við það. Stundum vissi ég ekki hvort ég var í húsgagnaverslun eða inni á heimili fólks.

Litir gefa lífinu aukið gildi þótt margir taki sig vel út í teinóttu. Helga Lund, arkitekt og innanhússhönnuður hjá verktakafyrirtækinu Fagmenn, leiðbeinir fólki með litaval og hjálpar því að sjá hvaða litir passa í hvaða rými. „Ég vinn litavalið með kúnnanum og reyni að lesa í hans persónu. Síðan þarf oft að huga að því hvaða húsgögn fólk á fyrir og hvaða litir passa við þau,“ segir Helga.

Litagleðin á leiðinni inn

„Við Íslendingar erum svolítið hvítir. Litagleðin mætti oft vera meiri þó að hún sé ekki alltaf af hinu góða. Ég kem stundum inn til fólks og þá er kannski sterkur blár litur í miðri stofunni sem var vinsæll fyrir tíu árum. Þá hefur ekki verið hugsað fyrir því hvernig birta hefur áhrif á litinn og restina af rýminu. Það getur verið jafn mikilvægt og liturinn sjálfur,“ segir Helga.

Á öllum tímum eru tískulitir sem endurspegla oftar en ekki það ástand og hugarfar sem er ríkjandi í samfélaginu.

„Nú er fólk meira í náttúrulegum litum eins og brúnum, beislituðum og þessum hreinhvíta. Í uppsveiflunni fyrir hrun var meira um gráa liti og fólk valdi sér húsgögn í stíl við það. Stundum vissi ég ekki hvort ég var í húsgagnaverslun eða inni á heimili fólks. Núna er fólk að koma til baka og átta sig á það má vera með myndir á veggnum hjá krökkunum og vera með heimilislegri húsgögn og heimilislegri brag. Þetta smitast yfir í litavalið sem er orðið líflegra.“

Litirnir á heimilinu

Litir geta haft mikil áhrif á skapgerð okkar og líðan. „Róandi litir eru mikið notaðir á nuddstofum og þar sem fólki er ætlað að slaka á og láta sér líða vel. Þá notum við fjólubláan, dökkgrænan og almennt bara jarðliti. Fólk notar samt ekki mikið þessa liti inni á heimilum sínum því það getur verið mjög erfitt að velja liti sem passa við þau húsgögn sem fólk á fyrir og því leiðast margir út í hlutlausa liti eins og ljósbrúnan, hvítan og í einhverjum tilvikum ljósa græna liti,“ segir Helga og bætir því við að enda þótt litaval sé persónubundið þá velji fólk mikið sömu litina á viss herbergi.

„Ljósgrátt og kaldari litir eru töluvert notaðir í baðherbergjum. Margir leika sér líka með græna litinn á baðherberginu og þá aðallega ljósgrænan á móti græna litnum sem er oft í glerinu á speglum.“

Þetta er bara málning

„Litir eru ekki hættulegir og fólk á að vera óhrætt að prófa sig áfram. Þetta er bara málning og ef þér líka ekki liturinn þá málar þú bara vegginn aftur hvítan. Það að mála vegg er ódýr og góð leið til að breyta heimilinu,“ segir Helga. Hún leggur líka áherslu á lýsingu hjá fólki en hún er mjög stór þáttur í því að fá sem mest út úr rýminu.

„Lýsing og birta er eitt frumskilyrði þess að fólki líði vel heima hjá sér og í vinnu. Því hef ég ráðlagt fólki að leita til sérfræðinga í lýsingu.“

Í auknum mæli hefur fólk leitað til innanhússarkitekta til að fá ráðleggingar og aðstoð við heimilið. Helga segir þá þróun vera góða og sérstaklega núna þegar kreppir að geti sérfræðingar hjálpað fólki að gera ódýrar en góðar breytingar á heimilinu.

„Við förum alla daga inn og út úr verslunum og þekkjum hvar hlutirnir fást og eru ódýrastir. Þá nýtum við oft bara það sem fólk á fyrir og spörum því þá að kaupa nýtt.“

vilhjalmur@mbl.is