„Mig langar til að geta farið af þessari eyju a.m.k einu sinni á ári, helst í janúar.“
„Mig langar til að geta farið af þessari eyju a.m.k einu sinni á ári, helst í janúar.“ — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og stendur hanga um 200 búningar hér og þar á heimilinu og ég er hræddur um að dóttir mín haldi að hún búi í sirkus.

Hann er einn af sárafáum sirkusstjórum Íslands, hann Lee Nelson. Lee leggur nú lokahönd á nýjustu sýningu Sirkuss Íslands. Verkefnið ber yfirskriftina Ö-Faktor og verða fimm sýningar núna um helgina. Blaðamaður Finns náði í Lee á milli æfinga í Tjarnarbíói og komst að því að hann langar að hafa útsýni svo hann sjái hvernig veðrið er langt í fjarska, en best af öllu er að leika með dótturinni.

Draumastarfið? „Þegar ég kom til Íslands fyrir fimm árum hefði ég sagt að ég hefði þegar fundið draumastarfið sem götulistamaður. En lífið getur komið manni á óvart, og einhvern veginn breytti íslenski veturinn mér í gaurinn sem rekur Sirkus Íslands. Þó svo ég sé þakklátur fyrir allar þær frábæru upplifanir sem sirkusinn hefur gefið mér, þá verður það samt alltaf eitt af mínum uppáhaldsstörfum að standa á Austurstræti í miðjunni á hópi hlæjandi fólks.“

Versta vinnan? „Verstu störfin sem ég hef sinnt hafa verið þegar fólk hefur ráðið mig til starfa án þess að skilja í raun eða hafa nokkurn áhuga á hvað það er sem ég geri. Þannig fólk getur verið mjög erfitt að vinna fyrir.

Síðan er ég ekkert sérstaklega hrifinn af stjórnunarverkum og öllu því „ó-trúðslega“ sem fylgir því að vera trúður eða sirkusstarfsmaður. Um leið og mér tekst að fá einhvern til að taka þessi verk að sér fyrir þá smáaura sem ég hef upp úr krafsinu, þá verður sá hluti vinnunnar að baki.“

Draumabíllinn? „Hann er einhvers konar blanda milli fallega málaðs Volkswagen Kombivan frá 1968 með skiptri framrúðu annars vegar, og BMW blæju-sportbíls hins vegar. Umfram allt er þó drauambíllinn minn bíll sem ekki bilar og kostar ekki formúgu að laga þegar eitthvað gefur sig.“

Hvað vantar á heimilið? „Mig vantar bílskúr, svo ég geti smíðað leikmuni, búið til hluti og skilið verkefni eftir hálfkláruð heima. Svo vantar búningaherbergi. Eins og stendur hanga um 200 búningar hér og þar á heimilinu og ég er hræddur um að dóttir mín haldi að hún búi í sirkus. Gaman væri líka að hafa útsýni. Mig langar að geta séð út um gluggann hvernig veðrið er í fjarska.

Hvað langar þig í? „Mig langar til að geta farið af þessari eyju a.m.k einu sinni á ári, helst í janúar. Svo langar mig að hafa gott rými í kringum mig – mér þykja há loft og opin rými gefa innblástur og vera full af möguleikum. Loks langar mig til að geta komið reglulega fram til að geta réttlætt allan þann tíma sem ég ver í að læra fáránlegar furðukúnstir.“

Hvað er best heima? „Ég á mjög lítið heimili. Hvar sem ég get fundið ró og næði er gott að vera. Það er gaman að rækta garðinn á sumrin en endalaus barátta við fífla er að breyta garðvinnunni úr yndi í kvöð. Eins og stendur er uppáhaldsstaðurinn minn blanda af tvennu: að leika við dóttur mína og fylgjast með henni sofa.“

ai@mbl.is